10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

131. mál, embættisbústaðir

Flm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till. Eins og þskj. ber með sér, þá er þessi till. um að fela stj. að láta undirbúa heildarlagasetningu um embættisbústaði og leggja niðurstöðurnar fyrir Alþingi í lagafrv. þegar að athugun lokinni.

Það er kunnugt, að til eru ýmiss konar lagafyrirmæli um embættisbústaði, og er mikil þörf að samræma þau. Í l. um byggingu prestsseturshúsa er ákveðið, að kostnaður við það skuli greiddur að öllu leyti úr ríkissjóði, og líka hvaða leigukjörum prestar skuli sæta. Það eru líka til l. um byggingu íbúðarhúsa fyrir héraðslækna, og er þar ákveðið, að viðkomandi hérað skuli greiða 3/5 kostnaðar, en ríkið 2/5. Enn fremur hefur í seinni tíð verið ákveðið að byggja yfir héraðsdómara að öllu leyti fyrir ríkisfé, en engin ákvæði um, hvaða húsaleigu þeir skuli greiða. Enn fremur eru til ákvæði um bústaði skólastjóra við barnaskóla og aðra slíka heimangönguskóla. Það er þetta misræmi, sem þessi till. fer fram á að lagfæra og að athugað sé um leið. hvað mikið ríkissjóður getur tekið á sig í þessum efnum.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.