19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

FIm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Síðan kveða fór verulega að gjaldeyrisörðugleikum þjóðarinnar, hafa þeir bitnað allverulega á þeim námsmönnum, sem stunda nám erlendis, eins og öðrum, sem til gjaldeyrisyfirvaldanna þurfa að sækja. Og afgreiðsla þessara hluta hefur gengið seint og hefur það valdið námsmönnum miklum erfiðleikum. Og auk þess hafa nokkur brögð verið að því, að námsmenn, sem ætluðu á síðasta hausti út til þess að stunda nám erlendis, hafa orðið að láta af þeim fyrirætlunum sökum gjaldeyrisskorts.

Í þessari þáltill. er farið fram á, að hæstv. Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að gjaldeyrisskortur verði ekki þess valdandi, að íslenzkir námsmenn erlendis, sem við gagnleg fræði fást, verði fyrir óþægindum vegna skorts á gjaldeyri erlendis, eða vegna þess verði komið í veg fyrir, að íslenzkir námsmenn leiti til annarra landa til náms, ef um gagnleg fræði er að ræða. Ég tel það ekki orka tvímælis, að þeim gjaldeyri, sem íslenzkir námsmenn þurfa að verja erlendis, sé vel varið, en illa farið, ef vegna skorts á gjaldeyri yrði minna um það, að ungir og efnilegir menn sæktu yfirleitt til annarra landa.

Í þáltill. er gert ráð fyrir, að skipuð verði ólaunuð n. til þess að aðstoða gjaldeyrisyfirvöldin í þessu skyni. Ég hef hér gert ráð fyrir, að þetta verði þriggja manna n. og sé einn tilnefndur af menntamálaráði, annar af háskólaráði og sá þriðji af þeim skólum, sem hafa rétt til þess að brautskrá stúdenta. Skal n. fá til umsagnar allar umsóknir um slík gjaldeyrisleyfi, og er þetta gert vegna þess. að varla er við því að búast, að gjaldeyrisyfirvöldin geti haft nákvæmt yfirlit um það, til hvaða náms nauðsynlegt sé að veita gjaldeyri, og ekki heldur við því að búast, að þau hafi tíma til þess að fylgjast með því, að þessum gjaldeyri sé varið raunverulega í því skyni.

Það munu hafa verið allmikil brögð að því undanfarið, að menn hafi fengið gjaldeyri til náms erlendis. en varið honum til annarra fjarskyldra hluta. Þá er einnig nauðsynlegt að fá um það yfirsýn meiri en nú er, hver framfærslukostnaðurinn er í hinum ýmsu löndum, sem íslenzkir námsmenn dvelja í, en því ætti þessi þriggja manna. n. að geta fylgzt með og hafa að ýmsu leyti góð skilyrði til þess að geta fylgzt þar vei með.

Þetta er aðalefni þessarar þáltill., og ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að hér er um það mikið nauðsynjamál að ræða fyrir þessa ungu menn, sem nú vilja stunda nám erlendis, að rétt sé, að Alþ. skerist á þennan hátt í leikinn og rétti að þessu leyti hjálparhönd.

Þá skal ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 98. Mér virðist, að hann sé mér sammála. um það, að nauðsyn beri til að gera ráðstafanir til þess að tryggja námsmönnum yfirfærslu á gjaldeyri vegna nauðsynlegs námskostnaðar. En ég get þó ekki verið honum sammála í einstökum atriðum. Um fyrsta liðinn munum við vera sammála, en um annan liðinn er það að segja, þar sem þar er gert ráð fyrir, að menntamálaráði sé falið að úthluta þessum gjaldeyri, að ef slíkt væri ákveðið, væri það ekki að mínu áliti í samræmi við gildandi l., því að valdið til þess að úthluta öllum gjaldeyri er í höndum viðskiptan. og fjárhagsráðs sameiginlega, og það getur ekki gengið að taka þetta vald af þessum aðilum með einfaldri þáltill. og fela það menntamálaráði. Ég sé því ekki, að hægt sé að samþykkja 2. lið brtt.

Um 3. liðinn, að við úthlutun gjaldeyrisleyfa sé tekið tillit til, hvort aðili stundar nám allt árið eða ekki, og hvort hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá, þá finnst mér slíkt svo sjálfsagt, að ástæðulaust sé að ítreka þetta í þáltill.

Um 4. liðinn er það að segja, að ef ákveða ætti upphæð með l. handa námsmönnum, þá tel ég það líka óeðlilegt, að hæstv. Alþ. blandi sér í slíkt framkvæmdaratriði.

Þó að ég geti ekki fellt mig við 2., 3. og 4. liðinn í brtt., þá get ég fellt mig við 1. liðinn, og fara þar óskir okkar hv. þm. Barð. saman, að þeim mönnum, sem stunda gagnlegt nám erlendis, sé tryggð hæfileg yfirfærsla á gjaldeyri til þeirra hluta. Ég vona, að þetta sameiginlega atriði till. okkar nái fram að ganga í þingi.

Þá skal ég fúslega fallast á, ef aðrar betri till. koma um nefndarskipunina, en ég álít, að gjaldeyrisyfirvöldunum sé nauðsynlegt að fá þarna menn sér til aðstoðar, sem ætla mætti. að kunnugir væru þessum málum. Ég skal fúslega verða til viðtals um aðra skipun á þeirri n. en lagt er hér til.

Ég legg svo til, að umr. um málið verði frestað og því vísað til nefndar.