19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég finn ástæðu til að leiðrétta dálítið mishermi, sem kom fram hjá hv. þm. Barð. í hinni annars mjög skeleggu ræðu hans um þarfir þeirra námsmanna, sem stunda nám erlendis. Hann komst svo að orði, að ég hefði tekið mjög illa undir kvartanir manna um gjaldeyrisleysi og talað um gjaldeyrisspangól hjá námsmönnum. Þetta er fjarri öllum sanni. Ég hef ekki gert þetta að umtalsefni á neinum stað eða neinni stund. nema við útvarpsumr. fyrir nokkru síðan hér á Alþ., og var ég þar að vita undirtektir eins stjórnmálaflokksins hér í bænum undir kvartanir námsmanna yfir því almenna gjaldeyrisleysi, og vítti ég það sérstaklega, að það blað líkti námsmönnum við hunda og segði, að þeir væru með gjaldeyrisspangól. Ég hafði þá alveg sérstaka ástæðu til að víkja að þessum ummælum. Og það var fjarri öllu lagi hjá hv. þm. Barð., að ég vildi gera þau orð að mínum, heldur taldi ég þau mjög óviðurkvæmileg í alla staði.

Ég skal ekki gera þessa þáltill. eða brtt. við hana að umtalsefni. Mér er það vel ljóst, að það eru eflaust margir námsmenn utanlands, sem hafa miklu minni gjaldeyri en þeir þurfa á að halda, og má vel vera, að í úthlutun gjaldeyris til þeirra eigi sér einhver mistök stað. En hins vegar ber að gæta þess, að ef það er rétt, sem ég hef heyrt, að það séu um 1200 námsmenn nú utanlands, þá eru sjálfsagt ekki nokkrar líkur til þess, að hægt sé að fullnægja jafnvel brýnustu þörfum alls þessa fólks. Og það hlýtur að leika nokkur vafi á, hvort allt þetta fólk, sem er við nám utanlands, sé við það nám, sem þjóðinni er þarflegt og gagnlegt. Það væri sjálfsagt æskilegast að láta alla, sem sækja um gjaldeyri til náms erlendis, fá þann gjaldeyri, sem þeir vilja, ef hægt væri. En meðan svo er ástatt í landinu, að mikill vafi er á, að landsmenn, sem heima eru, geti fengið gjaldeyri fyrir brýnustu nauðsynjum, þá þarf aðgæzlu um úthlutun gjaldeyris til námsmanna. Nú hefur sú n., sem ég hef með að gera, gripið inn í þetta á miðju ári og sennilega ekki haft tækifæri til þess að greina þá í sundur eins og æskilegt hefði verið, sem stunda nám erlendis, með tilliti til nauðsynjar á námi þeirra og þar með ástæðu þjóðarinnar til að láta þá hafa gjaldeyri. Það er eflaust rétt, að við höfum þörf fyrir að fá ýmiss konar menntun frá útlöndum. En sjálfsagt er á meðal námsmanna okkar erlendis nokkuð af fólki, sem gæti alveg eins gert sér gagn í námi sínu hér heima eins og erlendis. Ég get vel fallizt á, að það sé mjög líklegt, að gera þurfi betri greiningu á þessu, á þann veg einkum, að um fólk, sem er úti við nám, sé gerð sú krafa, að það hafi meðmæli frá skólum, sem það hefur stundað nám í hér heima, og að það sé nokkuð farið eftir því, hvort náminu álízt vera þannig háttað, að ekki sé hægt að nema hlutinn hér heima, áður en farið er að setja í þetta gjaldeyri. Því að með því að flokka þetta nokkuð er eflaust hægt að gera betur við þá, sem úti eru við nám, svo að þeir hafi til nauðsynja sinna, en fækka hins vegar eitthvað námsmönnum þar, ef rétt þykir.

Út af brtt. hv. þm. Barð. vil ég aðeins benda hæstv. forseta á það, að þó að þær séu að ýmsu leyti réttmætar efnislega, virðast þær koma í bága við gildandi lög, og geta því ekki komið til atkv. hér í sameinuðu þingi sem brtt. við þáltill. Þar er t. d. í tölul. 2 gert ráð fyrir að fela menntamálaráði að úthluta gjaldeyrisleyfum til námsmanna í samráði við viðskiptanefnd. Og þar sem viðskiptanefnd er nú falið að gera þetta samkv. gildandi l., er ekki hægt að fela þetta neinum öðrum aðila, nema með lagabreyt. Sama gildir um 4. tölul. brtt., þar sem skorað er á ríkisstj. að láta námsmönnum, sem eru erlendis. í té aukagjaldeyrisleyfi fyrir n, k. desembermánuð, er nemi minnst fimm hundruð kr. á nemanda. Vitanlega úthlutar ríkisstj. engum gjaldeyri. Og það er því eins um þennan lið brtt., að hann getur tæplega komið til atkv. hér í sameinuðu þingi í sambandi við þetta mál, jafnvel þó að hann ætti e. t. v. fullan rétt á sér. Ætti ekki að þurfa að benda hv. þm. á það, að það er ekki hægt að breyta l. með þál.

Ég ætla ekki að gera þetta mál frekar að umtalsefni. Ég tel rétt, að málið fari til n. og hljóti þar athugun. Því að sérstaklega ber það, sem komið hefur fram í ræðu hjá hv. þm. Barð., þess vitni, að Alþ. ætti að kynna sér málið nánar, og m. a. hv. þm. Barð. mundi hafa mjög gott af því.