19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3113)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það, sem ég sagði hér áðan um nýja n. og aftur aðra, sem fyrir væri, það var svona af almennum ímugust á því að bæta n. við, en að sjálfsögðu er rétt að íhuga það, hvort þessi aðferð muni vera réttari en sú, sem ég legg til. Þá vil ég benda á það, að í menntamálaráði eru nú upplýsingar um alla þá, sem sækja um styrk og þ. á m. þá, sem fá styrk, þannig að það mundi þá þurfa að afla viðbótarupplýsinga um þá, sem ekki hafa fengið styrk, en væru við nám án þess að hafa styrk frá menntamálaráði. Ég vil benda á það, að menntamálaráð hefur í þjónustu sinni fastan starfsmann og mætti þannig fela honum að afla upplýsinga, sem síðan væru íhugaðar af ráðinu. — Enn fremur vil ég láta í ljós ótta um það, að þó að svo yrði af stað farið, að þeir væru ólaunaðir, sem ættu að hafa þetta með höndum, þá mundi fljótlega koma að því, að þeir treystu sér ekki til þess að leggja á sig svo mikið starf án launa, sem hér yrði að leggja fram, því að það er að sjálfsögðu talsvert starf að setja sig inn í hag allra námsmanna erlendis. Það er þess vegna, hætta á því, að það þætti ekki annað fært en að þetta yrði stofnun, sem kostnaður yrði við. Þetta er sjálfsagt að athuga í n. Aðalatriðið er að fá á þetta nýja skipan með sem hagkvæmustum og ódýrustum hætti.

Mér fannst dálítið einkennilegt, að hv. þm. Barð. skyldi vera að agnúast við mig út af þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan. Ég held að það stafi af misskilningi. Hv. þm. sagði, að ég hefði verið að tala um að fara inn á þá braut að takmarka gjaldeyrisveitingar til námsmanna. Þetta er mesti misskilningur. Ég var ekki að tala um að fara inn á þessa braut. Þetta er braut, sem farið hefur verið inn á og við stöndum á og ráðgerð er í l. um fjárhagsráð. Þar er ákveðið, að það skuli þurfa leyfi yfirvaldanna til yfirfærslu á gjaldeyri til námsmanna. Enn fremur er ákveðið, að það skuli koma gjaldeyrisáætlun, sem fjárhagsráð gerir, og útskiptingin fari fram af viðskiptanefnd. Ég var ekki að ráðgera neitt nýtt um afstöðu til þess, hversu mikið fé skuli veitt til námsmanna. Ég gekk bara út frá því, sem er, að við erum á þessari braut, að opinberum stofnunum er ætlað að ákveða, hvað mikið fé verði látið í þessu skyni. Aðalefni orða minna áðan vil ég endurtaka: Það, sem ég tel aðalatriðið, það er að koma á samvinnu milli þeirra manna, sem veita námsstyrkinn í íslenzkum peningum, og hinna, sem veita yfirfærslur, vegna þess að það má ekki eiga sér stað, að menn, sem hafa verið styrktir til náms af því opinbera á Íslandi, fái ekki sómasamlegar yfirfærslur. Það á ekki að styrkja fleiri menn til náms en það, að hægt sé að sjá þeim fyrir sómasamlegum gjaldeyrisyfirfærslum um leið. Ef ekki er hægt að sjá fyrir gjaldeyrisyfirfærslum, þá á ekki að vera að veita námsstyrki í íslenzkum krónum erlendis. Þarna finnst mér þurfa að koma samræmi á. Og það er sama hugsunin, sem vakir fyrir hv. flm. og hv. þm. Barð., þó að þetta kæmi svona einkennilega við í þeirri ræðu, sem hv. þm. Barð. flutti áðan.

Hv. þm. spurði, hvort ég vildi útiloka, að þeir gætu fengið gjaldeyrisyfirfærslu, sem ekki hafa námsstyrk. Ég get sagt honum, að ég álít ekkert vit í því að setja upp þá reglu að útiloka þá frá gjaldeyrisyfirfærslum, sem ekki fá námsstyrk. Það gæti og á auðvitað að koma til greina að veita þeim einnig gjaldeyri, sem ekki fá styrk af einhverjum ástæðum, ef gjaldeyrir, sem veittur er í þessu skyni, er nægilegur og námið þannig, að menn telji eðlilegt, að menn fari út fyrir pollinn til þess að iðka það. En það þyrfti að liggja fyrir, fyrirfram vitneskja um það, hversu margir hygðu á nám erlendis og ekki fengju styrk hjá menntamálaráði, þannig að menn hefðu þetta í heild fyrir sér.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Það sem ég hef gert í þessu, er kannske ekki mikið til að státa af. Ég hef skrifað viðskiptan. og óskað eftir að fá að vita skiptingarreglurnar, en ég hef ekki fengið skýrslu enn þá. Ég hef skrifað menntamálaráði og óskað eftir, að það hafi samband við viðskiptan. áður en það veitir styrki næst, til að fá yfirlit yfir, hversu miklum gjaldeyri er úr að spila. Frekari ráðstafanir er ég reiðubúinn til að gera að svo miklu leyti sem það kemur mér við. Og auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Barð., að það kemur mér við, hvernig farið er með þetta mál, þó að því sé hins vegar þannig háttað, að ég get ekki ráðið því einn. En ég er reiðubúinn til að leggja vinnu í það með þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, að reyna að finna á þessu þá skipan, sem tryggi bezt framkvæmdina.

Ég vil að lokum segja það út af ummælum hv. þm. Barð. um innflutninginn og matvörusendingar, að ég veit ekki betur en leyft sé að senda út íslenzk matvæli, og þetta hljóti að vera misskilningur.