20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég lét þess getið við 1. umr. málsins, að ég óskaði eftir, að allshn. ætti viðtal við mig, fulltrúa viðskiptan. og menntamálaráð til að reyna að koma á heppilegu samstarfi í þessum efnum. Nú hefur n. ekki talað við mig og mér skilst ekki heldur menntamálaráð. Ég tel mjög miður farið, að n. skyldi ekki kalla þessa aðila saman til að finna sem liðlegast kerfi í þessu. Ég hef því ekkert vitað um þessa till., fyrr en hún kom fram. Það má vera, að n. hafi ráðfært sig við viðskiptan. og kannske menntamálaráð, og hefur þeim kannske þótt þetta bezta fyrirkomulagið. Ég mun samt, ef mönnum er kappsmál að fá málið afgr. nú, ekki setja mig á móti því, því að ég er ekki tilbúinn að svo komnu máli að bera fram brtt., en væri málinu frestað, mætti endurskoða það til 20. jan. Ég skal ekki setja fótinn fyrir málið, af því að ég hef ekki aðra till. tilbúna og ástandið er ekki gott í þessum efnum. Ég set mig því ekki á móti, að þetta verði reynt, ef hv. þm. virðist það skynsamlegt. En mér hefði fundizt geta komið til mála að bíða endanlegrar afgreiðslu, þar til þingið kemur saman aftur.