20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð. Það er auðvitað, þar sem þ. er að komast í eindaga, upplagt að fresta framgangi mála með því að halda of langar ræður, og má því vera, að uppástunga ráðh. sé það hyggilegasta, úr því sem komið er. Hún hefur hvöt til þess að koma þessu fyrir kattarnef. Allshn. hafði gert sér það í hugarlund, að menntamálaráð mundi sinna þessum störfum, þó að því bæri ekki lagaleg skylda til þess. Í þessu þjóðfélagi eru, sem betur fer, margir þegnar, sem inna verk af höndum, þótt þeir hafi ekki beina skyldu til þess, og vildi ég ætla, að menntamálaráð hagaði sér á líkan hátt og vildi greiða fyrir námsmönnum erlendis, sem eiga erfitt uppdráttar. — Annars skil ég ekkert í þessu, og beindi ég þó þeim ummælum til hv. þm. Ísaf. áðan, að hann athugaði till., hvað í henni fælist. Hann telur, að kalla eigi þá námsmenn heim, sem hafa stundað nám erlendis, en gætu stundað það hér heima. Um þetta er ekkert í till., og þetta er svo fráleitt, úr því að ekki eru fyrirmæli um að gera það. Það, sem till. fjallar um, er það að greiða fyrir námsmönnum, að þeir fái þann gjaldeyri, sem þeir endilega þurfa til gagnlegs náms. Hitt má segja, að ekki sé þörf á að halda áfram að veita fé til nýrra námsmanna, sem stundað geta nám hér heima. Það má segja, að það felist í till., en það er annað mál. Menntamálaráð á nú ekkert annað eftir en að upplýsa málið og senda till. sínar til viðskiptanefndar. Hún hefur óskorað vald eftir sem áður. Það er því ekki verið að breyta neinum 1. með þessari samþykkt, till. fer ekki fram á neitt slíkt.

Þá er að lokum það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að stj. veitti engan gjaldeyri, og þýddi því ekki að beina því til hennar. Það er nú svo. Er þm. nú viss um það? Hann er í fjárhagsráði og hefur nú mikil völd. En ég vil þó beina því til hans, að ríkisstj. er ofar fjárhagsráði og er sett yfir það í þeim 1., sem fjalla um valdsvið fjárhagsráðs, enda væri satt að segja skörin farm að færast upp í bekkinn, ef Alþ. og ríkisstj. hefðu ekki æðsta vald í slíkum málum. Ég held, að það væri þá betra að fara að líta í stjskr. og sjá, hvernig þetta kemur heim við það, sem þar stendur.

Nú get ég á það fallizt, því að mér sýnist, að þessu máli sé stefnt í óefni með þessu, að forseti taki málið af dagskrá, því að þótt ég hafi ekki mikla kunnugleika á þessu, þykist ég þó hafa orðið þess áskynja, að margir námsmenn eigi nú erfitt erlendis. Ég fullyrði, að ríkisstj. og hæstv. menntmrh. munu gera sitt til þess að greiða fyrir námsmönnum nú, og um það þarf ekki beinlínis neina ályktun. Mun og vera vist þingfylgi fyrir því, að bætt verði úr sárasta skorti hjá námsmönnum erlendis. sem stunda þar gagnleg fræði.