10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Gísli Jónsson:

Síðan yfirlýsing kom um það frá hæstv. ríkisstj. fyrir jólin, að hún skyldi reyna að hafa áhrif á afgreiðslu þessara mála, hefur í raun og veru ekki verið deilt mikið um annað efnislega í sambandi við þetta mál en það, hvort tekið skyldi tillit til þess við yfirfærslu á gjaldeyri til námsmanna erlendis, hvort þeir, sem þar stunda nám, hafa fjölskyldur fram að færa í löndum þeim, sem þeir stunda nám í. En ekki hefur enn fengizt fram, að til þessa skuli taka tillit. Það hefur staðið sífelld barátta milli þessara manna og gjaldeyrisyfirvaldanna um þetta, án nokkurrar leiðréttingar. Nú sé ég ekki, að þetta atriði sé tekið upp í bréfinu, sem hæstv. ráðh. las hér áðan. Og ég óska ákveðið eftir því, að hæstv. menntmrh. lýsi yfir, að með orðunum: „miðað við framfærslukostnað“ þá sé það skilningur þeirra, sem með þessi mál hafa að gera, að átt sé við, að tekið skuli tillit til þess, hvort námsmenn hafi fjölskyldur fram að færa eða ekki, en að ekki sé aðeins miðað við að greiða sem svarar þeim kostnaði, sem nægir til þess að framfleyta námsmönnunum sjálfum. Ég benti á það við fyrri hluta þessarar umr., að það væri ranglátt að slíta í sundur heimili námsmanna, sem hafa byrjað nám í þeirri góðu trú, að þeir mættu hafa konu sína með sér, hver fyrir sig, og þau börn, sem þeim hlotnast á námstímanum. En nú hafa þessir námsmenn orðið að slíta heimilin í sundur, sem ég tel óverjandi, að til sé stofnað af gjaldeyrisyfirvöldunum.