10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil beina athygli hv. alþm. að því, að rn. hefur ekkert vald til að ákveða yfirfærslur í þessum gjaldeyrismálum. Það heyrir undir allt aðra aðila. Viðleitni rn. hefur hnigið í þá átt að setja reglur um náið samstarf á milli viðskiptan., þ. e. þeirra gjaldeyrisyfirvalda, sem hafa síðasta orðið í þessu, og menntamálaráðs. Að þessu lúta þessar reglur, að tryggja þetta, samkv. því, sem þar segir. — Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. Barð., að í þessu bréfi segir ekkert um það. hvort gagnvart þessum framfærslukostnaði skuli tekið tillit til lífeyris fjölskyldna. Og um það er erfitt, að mér skilst, að setja nokkrar almennar reglur. Og til þess að valda ekki neinum vonbrigðum eftir á í þessu sambandi, get ég ekki lýst yfir öðru en því, að þetta sýnist vera opið eftir þessum reglum. En það, sem hér hefur verið lesið, tryggir ekkert í þessu. Í þessu getur ráðuneytið ekkert tryggt. Þetta er á valdi gjaldeyrisyfirvaldanna og fer eftir þeim reglum, sem þau setja.