10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er ljóst, að það stendur ekki í valdi menntmrh. að ráða neinu um það, hvernig þessum gjaldeyri er úthlutað. Það er misskilningur, ef hv. þm. álítur það. Þetta er alveg á valdi gjaldeyrisyfirvaldanna. Hitt hef ég reynt, að koma á sem beztri samvinnu á milli menntamálaráðs og gjaldeyrisyfirvaldanna um þetta mál, og ég hef ástæðu til þess að halda, að nú þegar hafi orðið verulegur árangur af þeirri viðleitni. Og e. t. v. á hann eftir að verða enn meiri, sérstaklega í því efni, að menn geti treyst á eitthvað visst í þessu efni. Áður hafa þessi mál verið nokkuð á reiki, og það er það versta. Það er betra að fá nauman skammt og vita, að hann sé viss, heldur en að hafa þessi mál mjög á reiki, eins og verið hefur. — Ég tel því, að engin ástæða sé fyrir hv. þm. Barð. að kasta neinu að mér í þessu sambandi, eins og ég tel mig nú hafa útskýrt. Hins vegar vil ég taka fram, að ég vil ekki vekja neinar falsvonir með því að tala um, að ég muni koma því til vegar, að yfirfært verði þannig, að sérstakar yfirfærslur verði veittar til þeirra námsmanna erlendis, sem hafa fjölskyldum fyrir að sjá. Ég vil ekki þannig tala með hálfkveðnum orðum hér, og svo yrði ekkert úr því. Og ég hygg, að hv. þm. Barð. geti virt það við mig að vera ekki hér með neitt slíkt spilirí.