17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggja nú fyrir hér mjög margar brtt. við þessa upphaflegu þáltill. á mörgum þskj., og mikið er búið um þetta mál að ræða. Síðast þegar það var til meðferðar, kom hér fram í ræðu hæstv. menntmrh., að samkomulag hefði orðið milli ráðuneytisins, menntamálaráðs og viðskiptanefndar um fyrirkomulag á gjaldeyrisyfirfærslum til námsmannanna. Og ég vil því leyfa mér að leggja til, að málið verði afgreitt hér með dagskrártill., sem ég vil leyfa mér að lesa upp. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til þess samkomulags, sem orðið hefur milli menntamálaráðuneytisins, viðskiptanefndar og menntamálaráðs um tilhögun á gjaldeyrisyfirfærslum til íslenzkra námsmanna erlendis, og í trausti þess, að séð verði fyrir gjaldeyrisþörf námsmannanna eftir því, sem ástæður frekast leyfa, telur þingið eigi ástæðu til að gera sérstaka ályktun um það efni og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“