17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Það er orðið langt síðan þetta mál var hér til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 240 ber með sér, lagði n. til að gera nokkra breyt. á upphaflegu till. Við till. n. kom fram brtt. á þskj. 434, og eftir því, sem upplýst er af hæstv. menntmrh. og þeim, er þessa till. flytja, þá hygg ég, að við í n. getum fallizt á þá ráðstöfun og þannig gæti málið fengið heppilega afgreiðslu, og vildi ég mega vænta þess, að það gæti borið tilætlaðan árangur um það, að séð yrði fyrir þörfum námsmanna erlendis. Ég hefði viljað ætla, að eins og er sagt í brtt. 434, þar sem tekið er fram, að ætlazt sé til, að námsmenn fái nægilegan gjaldeyri miðað við framleiðslukostnað og námskostnað í hverju landi, þá sé þessu ætlað að taka til þess, þó að einhver námsmaður hafi konu eða fjölskyldu fram að færa, því að tæplega get ég búizt við því, að ætlazt sé til, að fram fari hjónaskilnaður sakir þess, að menn vilji komast hjá að greiða, þegar svo stendur á. þetta meiri gjaldeyri, sem slíkir námsmenn kynnu að þurfa. Mér skilst, að hæstv. ráðh. vilji greiða fyrir þessu máli eftir ýtrustu getu, þó að hann fyrirfram ekki vilji staðhæfa, hvaða árangur það bæri. Ég hefði gjarnan viljað, að þessi brtt. næði samþykki Alþ., því að þá get ég búizt við því, að þetta mál fái heppilega lausn. Eins og málið liggur fyrir, finnst mér ekki, að hæstv. Alþ. geti fallizt á að afgreiða það með rökst. dagskrá sökum þess, að óánægja hefur nokkur verið með, að laklega hafi verið séð fyrir þörfum námsmanna, og er þá ekki von til þess, að Alþ. vilji ekki af sinni hálfu sýna, hvernig augum það lítur á málið, og sinnt sé nauðsynjum þessa fólks. Hygg ég, að mér sé óhætt að segja það fyrir munn flestra meðnm. minna, að þeir muni fallast á þessa brtt. Ég skal taka það fram, að ég hef ekki átt tal við þá alla og n. hefur ekki í sjálfu sér tekið málið fyrir, en ég veit um suma þeirra, að þeir munu sammála um að styðja brtt. 434.