17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að benda hv. þm. á það, áður en gengið er til atkv., að síðan fyrir nýár er búið að standa í sífelldu stappi við gjaldeyrisyfirvöldin um það að fá þessi mál leiðrétt. Það hefur ekki fengizt leiðrétt, að þau létu nokkru meiri yfirfærslu til manna, sem fóru utan á þeim tímum, þegar þetta allt var opið, og hafa dvalið þar með fjölskyldu sína síðan og hvorki viljað senda hana heim né hætta námi. Það hefur ekki fengizt meiri yfirfærsla fyrir þessa menn en einstaklinga þrátt fyrir óskir hæstv. viðskmrh. í þessu máli. Og með því að hæstv. menntmrh. hefur ekki séð sér fært að lýsa yfir, að þetta verði framkvæmt eins og brtt. 434 gerir ráð fyrir, þá neyðist ég til að bera till. svo ákveðið fram og óska að fá um það ákveðið svar, hvort hæstv. Alþ. vill samþykkja hana.