17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra, að hæstv. forseta þykir ekki vænlegt að fresta málinu enn á ný. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að ef málinu væri nú frestað með það fyrir augum, að allshn. færi enn að tala við viðskiptan., þá væri það sama sem að málið dagaði uppi. Svo sem sjá má af þskj. 240, byrjaði allshn. að sjálfsögðu á því að senda málið til umsagnar viðskiptan. og fékk það svar, sem frá er greint í nál., að hún gaf engar upplýsingar. Svarið var á þessa leið: Að viðskiptan. hefði þessi mál með höndum og að sjálfsögðu gæti Alþ. sett þar á aðra skipan, ef því sýndist svo. — Þetta bréf er dæmi um það, hvernig opinberir embættismenn eiga ekki að skrifa. En þar við var ekki látið sitja. Allshn. vildi reyna að fá upplýsingar og boðaði form. viðskiptan. á sinn fund, en svarið var svona: „Form. hefur ekki tíma til að mæta.“ Viðskipti Alþ. við þessa stofnun sýna, að örvænt er um framgang málsins, ef ætti að fresta því með það fyrir augum að spyrja þessa menn. Ég er einn af þeim úr allshn., sem vilja fallast á að draga til baka brtt. n. á þskj. 240 og fallast á brtt. 434, en mun þó greiða atkv. brtt. hv. þm. Barð., því að mér sýnist einsætt mál, að það megi ekki henda, ef svo er ástatt, að um er að ræða námsmenn, sem hafa fjölskyldu, að þeim sé meinað að vera með fjölskylduna þar, sem þeir stunda nám, og ég tel, að Alþ. megi ekki láta hjá líða að segja álit sitt í þessu efni. Mér sýnist öll reynsla benda til þess, að Alþ. verði að gefa viðskiptan. fyrirmæli í þessu efni. Að vísu má segja, að þetta geti varla heitið fyrirmæli, því að það er ekki annað en að Alþ. skorar á ríkisstj. En ég hef enga ástæðu til annars en að ætla, að hæstv. menntmrh. mundi vilja verða við þeirri áskorun, sem Alþ. beinir til hans.