10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

166. mál, áhættuiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. á þskj. 372, sem flutt er af átta þm. í Nd., er um það að skora á ríkisstj. að breyta reglugerð frá 21. des. 1946 um áhættugjöld samkv. 113. gr. l. um almannatryggingar þannig, að þau lækki um helming, og að þessi lækkun verði gerð, áður en iðgjöld fyrir 1948 eru innheimt.

Ég get að mestu látið nægja að vísa, til þeirrar grg., sem till. fylgir. Eins og þar er bent á, kom fram í umr. um fyrirspurn, sem gerð var hér á þingi um upphæð áhættugjalda og slysabætur hjá Tryggingastofnun ríkisins 1947, að á því ári höfðu iðgjöldin numið 5 millj., en slysabætur 2 millj. Það kom því fram, að óráðstafað var nálægt 3 millj. af þeim gjöldum, sem lögð voru á 1947, og þó að það kunni að vera eftir að draga þar frá einhvern hluta af kostnaðinum við rekstur stofnunarinnar, þá er sjáanlegt af þessu, að innheimt hefur verið 1947 miklu hærri upphæð samkvæmt 113. gr. en þörf var fyrir til að mæta þeim gjöldum, sem iðgjöldin eiga að vega á móti. Auk þess kom það fram, að frá 1946 er afgangssjóður hjá slysatryggingunum rúmlega 2 millj.

Við flm. teljum, að fengnum þessum upplýsingum. að sjálfsagt sé að lækka iðgjöldin. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, og ég er einn af þeim, að þessi gjöld séu innheimt með mjög óviðeigandi aðferðum að ýmsu leyti, þar sem greiðslurnar eru á engan hátt miðaðar við efnahag gjaldendanna, en það er önnur saga, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það mál í sambandi við þessa till. Hitt ættu allir að vera sammála um, að ekki er ástæða til að taka af atvinnurekendum miklu hærri upphæð ár eftir ár en þörf er fyrir til þess að mæta þeim kostnaði, sem Tryggingastofnun ríkisins ber í sambandi við slysfarir.

Ég tel eðlilegt, að þessi till. fari til n. til athugunar, og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og allshn.