17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 486 er fram borin af 8 mönnum úr öllum flokkum þ. Till. er um að fela hæstv. stj. að koma á sérstakri tilhögun um skiptingu á vörum milli landshluta. Till. þessi byggist á samhljóða ályktun um þetta efni, sem gerð var á fundi fulltrúa frá kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar að af landinu, sem haldinn var í Reykjavík nú í febrúarmánuði.

Fyrsti töluliður þessarar till. snertir innflutning á skömmtunarvörum og öðrum venjulegum verzlunarvörum. Þar er farið fram á, að þessum vörum verði skipt niður á landsfjórðunga eftir nánar tilteknum mörkum í hlutfalli við íbúatölu og þarfir hvers fjórðungssvæðis. Leyfunum sé úthlutað til verzlana og fyrirtækja búsettra innan hvers fjórðungssvæðis. 2. liður er um innflutning á byggingarvörum, og er þar farið fram á að innflutningi á þeim verði skipt á milli landshlutanna í fullu samræmi við fjárfestingarleyfi fjárhagsráðs og leyfi, sem sveitarstjórnir veita. 3. liður ræðir um innflutning á útgerðarvörum, og er farið fram á, að þeim leyfum sé úthlutað í hlutfalli við skipastól og útgerðarrekstur á hverju svæði. Loks er 4. liður um að skipta á fjórðungssvæðin efnisvörum til iðnaðar í hlutfalli við verksmiðju- og iðnrekstur á hverju svæði. Tekið er fram, að iðnfyrirtæki, sem fái þessi leyfi, skuli að sjálfsögðu fara eftir fyrirmælum viðskiptanefndar um sölu á þessum vörum, þannig að jafnt verði séð fyrir þörfum landsmanna. Þá er í till. farið fram á, að viðskiptan. verði falið að birta opinberlega á 6 mánaða fresti yfirlit um leyfisveitingar og verði sú skýrsla sundurliðuð eftir landsfjórðungum.

Eins og ég gat um áðan, er þessi till. samhljóða þeirri ályktun, sem gerð var á ráðstefnu um viðskipta- og siglingamál, sem haldin var í s. l. mánuði, þar sem mættir voru fulltrúar frá mörgum kauptúnum og kaupstöðum á Vestur-, Norður- og Austurlandi, og er áreiðanlegt, að þessar kröfur eru í samræmi við vilja og óskir mikils þorra manna í þessum landshlutum. Krafa þessa fulltrúafundar, sem fram er borin í 1. tölulið, er um það, að verzlanir búsettar í einstökum landshlutum fái leyfi til innflutnings á þeim vörum, sem skömmtunaryfirvöldin veita fólki í þessum landshlutum heimild til að kaupa. 2. töluliður er um byggingarvörur og alveg á sama hátt miðað við það, að menn þurfi ekki að kaupa utan síns fjórðungssvæðis þær vörur, sem yfirvöldin heimila þeim nú kaupa. Á sama hátt er farið fram á það, að fyrirtæki búsett í hverjum fjórðungi fái það, sem þeim ber af útgerðar- og iðnaðarvörum, sem hverju sinni er leyfður flutningur á til landsins. Væntanlega er öllum ljóst, að þarna eru menn ekki að reyna að ná til sín neinu, sem annarra er. Þetta er krafa um að fá til sín þær vörur, sem þangað eiga að fara samkv. fyrirmælum skömmtunaryfirvaldanna og annarra ráða og nefnda, sem með þetta eiga að fara. Þetta finnst okkur svo sjálfsagt réttlætismál, að undarlegt sé, að viðskiptan. skuli ekki, strax og krafa ráðstefnunnar kom fram, hafa tekið þetta til greina. Það má geta þess, að viðskiptan. hefur tekið þessu máli vinsamlega, en þrátt fyrir það ekki tekið ákvörðun um það, þannig að við flm. teljum það fullnægjandi.

Það var reynt að fá þá lausn að gera þetta ekki að þingmáli, en það hefur ekki tekizt, og var okkur, þessum 8 mönnum, falið það, ef þess gerðist þörf, að fara með málið inn á þ. til þess að bera fram óskir um þetta fyrirkomulag. Við höfum ekki í þessu sambandi talið neina þörf á því að breyta l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Stj. hefur það í hendi sinni að verða við þessum kröfum, án þess að lagabreyt. verði gerð, og í þeim l. er einmitt gert ráð fyrir því, að reglugerð verði sett um framkvæmd þeirra, og því er vel hægt að koma þessu máli fyrir, án þess að breyt. verði gerð á l. Einmitt í þeim 1. er gert ráð fyrir því, að stj. hafi yfirstjórn framkvæmdanna með höndum skv. lögunum.

Um meðferð málsins vil ég segja það, að ákveðin hefur verið, eins og sést af dagskránni, um umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera till. um, að málið fari til n., en ef það færi til n., teldi ég eðlilegast. að það væri allshn. Við flm, leggjum ríka áherzlu á, að málinu verði hraðað svo sem unnt er, svo að það geti fengið afgreiðslu áður en þ. lýkur. Ég vil svo vænta þess, að þessu verði vel tekið, bæði af Alþ. og stj., því eins og ég hef bent á. er hér um fullkomið sanngirnismál að ræða.