17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Flm. (Skúli Guðmundsson) ) :

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af síðari ræðu hæstv. viðskmrh. Kunnugt er mér um það, að í l. um fjárhagsráð stendur einhvers staðar, að við úthlutun innflutningsleyfa skuli reynt að láta þá sitja fyrir leyfum. sem bezt og hagkvæmust innkaup geri og sýni fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Þetta er mjög fallegt á pappírnum. En ég hef ekki orðið var við, að þetta hafi orðið eins í framkvæmdinni eða að mikið hafi verið eftir þessu farið. Enda held ég, að þegar athugað er nánar, þá komi það í ljós, að að ýmsu leyti sé erfitt við þetta að fást. Ég hef, t. d., síðan þessi lög voru sett og til skamms tíma veitt verzlunarfyrirtæki forstöðu hér á landi. Og ég minnist þess ekki, að nein ósk hafi komið um það frá yfirmönnum þessara mála, að verzlunarfyrirtæki þetta gæfi upplýsingar um vöruverð hjá sér. Mér hefði þótt eðlilegt, að safnað hefði verið skýrslum um þetta, ef í alvöru ætti að fylgja þessu lagafyrirmæli fram, til þess að vita, hverjir selji ódýrastar vörur í landinu. Það hefur verið bent á, að ýmsir annmarkar séu við þessa framkvæmd, þó að þetta, líti vel út á pappírnum. Og hefur það líka komið í ljós, þar sem ég hef ekki orðið var við, að eftir þessu hafi verið farið. — Í þessari sömu lagagr. um fjárhagsráð stendur, að miða skuli úthlutun leyfanna við það, að neytendur geti verzlað þar, sem þeir telji sér hagkvæmast að verzla. Ég veit, að þetta, sem í þáltill. kemur fram, er í fullu samræmi við það. Og ég veit, að bak við þessar óskir stendur allur þorri manna víðs vegar um landið. Og ég hygg, að engin hætta sé á því, þótt þetta væri svona framkvæmt, að þá yrðu óhagkvæmari innkaup gerð til landsins fyrir því. Ég fæ ekki betur séð heldur en að þeir, sem úthluta leyfum, ef þeim er á annað borð kunnugt um lægst verð á einhverri vörutegund, sem hægt er að fá þessa vöru fyrir innflutta til landsins, þá hafi þeir á sínu valdi að láta þau skilyrði fylgja við afhendingu innflutningsleyfis, að vörurnar séu ekki keyptar yfir einhverju ákveðnu verði. Ég held, að öruggt sé, að hægt sé að setja slík skilyrði. En það þarf ekki að taka fram í þáltill. varðandi þessi mál. — Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira út af þessari síðustu ræðu hæstv. ráðh.