24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og öllum þm. er kunnugt, er til þess ætlazt að ljúka þessu þingi í dag og þess vegna ekki tækifæri til að fara út í langar umræður um svo víðtækt mál sem hér um ræðir, en ég vildi rétt segja örfá orð í sambandi við þessa till. og þá fyrst geta þess, sem ég vænti, að flestum sé ljóst, að ég er einn þeirra manna, sem eru á móti því skipulagi, sem nú er rekið í viðskiptamálum, og mundi hafa kosið að gerbreyta því. Hins vegar er vitað, að öll þessi skipulagning og það, sem hér er farið fram á, er minnsta lágmarkskrafa, sem fólk úti á landi gerir undir því gallaða skipulagi, sem hér er nú. Það hefur bólað á þeim mikla misskilningi í ræðu þm., að hér verði sett á einhver viðskiptabönn með því, sem fyrir liggur í þessari till. Það er hreinn misskilningur, því að fyrir okkur flm. vakir það eitt, að í hverjum fjórðungi sé verzlunum, sem þar eru, veitt leyfi fyrir vörum í hlutfalli við mannfjölda þar. Að undanförnu hefur það gengið svo, að það hefur ætlað að drepa verzlanir úti á landi að fá ekki leyfi, og að sjálfsögðu ráða verzlanir, sem leyfi fá, hvar þær kaupa sínar vörur, með hverjum hætti vörurnar eru keyptar, gegnum heildverzlanir, sambönd eða pantaðar beint erlendis frá. Það er þess vegna misskilningur, að hér sé farið fram á nokkuð ranglátt. Ég vil geta þess, að það eru ekki þessir fáu þm., sem standa að þessari beiðni, sem hér um ræðir, heldur yfirleitt fólkið í þremur landsfjórðungum, sem þarna stendur á bak við. Ég vil nú vænta þess, að ekki verði gerðar neinar tilraunir til þess að tefja fyrir framgangi þessarar tíu, með löngum umræðum, og óska þess, að hún nái samþykki.