24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti: Það eru aðeins fáein orð af því, að hv. þm. Barð. fór að særa mig til að segja eitthvað og beindi til mín ásökunum um óeðlilegan hlátur að þessu alvarlega máli. Ég verð að segja hv. þm. það, að ég hef aldrei heyrt það fyrr, að menn færu á morgnana til að fá sér miða til að selja öðrum mönnum. Þetta er nýtt að heyra, og ég hygg, að það verði fleirum en mér á að hlæja við að heyra slíkt. Annars tek ég undir það með hv. þm. Barð., að ástandið í verzlunarmálunum er óviðunandi, og frá mínu sjónarmiði þurfa þar á að verða miklar breyt. Hitt er annað mál. hvort ég meina það sama og hv. þm. Barð. En út af þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég segja þetta: Í fyrsta lagi vil ég undirstrika það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að það er útúrsnúningur að tala um, að þessi þál. ákveði, að svo og svo margir mjölpokar skuli fara í þennan og þennan landsfjórðunginn. Allir vita, að átt er við skiptingu innflutningsleyfanna, síðan ráða verzlanirnar því, hvert þær selja vöruna. Þetta er aðeins tilraun til þess að tryggja, að varan komi endanlega í fjórðunginn, en ekki að hún geti ekki átt viðkomu annars staðar, ef það er hagkvæmara. Svo vil ég benda á annað, og það er það, að náttúrlega skilur maður, að þessi breyt., sem hér er frá allshn., er hugsuð til þess að gera málið óljósara að mínum dómi, en ekki ljósara. Við vitum, að þál. getur aldrei bundið ríkisstj. eins og l., en þál. er viljayfirlýsing þingsins í þessu máli og í henni felst frá mínu sjónarmiði jafnákveðin viljayfirlýsing um það, hvað þingið vill láta gera, því að ég get ekki skilið, að nokkur þm. greiði breyt. atkv. nema með það fyrir augum að benda ríkisstj. á þá töluliði, sem á eftir koma. Þannig lít ég á þessa þál. Það er vitað, að á bak við þetta mál býr svo mikill þróttur, ekki aðeins þingsins, heldur líka landsmanna úti um allt land, að verði þróunin sú, að þáltill. verði samþ. eins og n. gengur frá henni, en ríkisstj. færi ekki eftir liðunum 1–4, þá verður knúin fram á næsta þingi lagabreyt. í sömu stefnu.