04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð síðan ráðuneytinu hafa borizt óskir frá bæjaryfirvöldunum um fjölgun lyfjabúða hér í bænum, og hefur málið verið í athugun og er enn, en bráðlega má búast við, að ákvarðanir verði teknar. Rn. hafði gert sér vonir um, að koma mætti fram nýrri heildarlöggjöf um lyfjasölu, bæði hvað snertir þá teknisku hliðina og verzlunarhliðina, en nú virðast litlar líkur á, að samkomulag náist um þetta. Spurningunni um tölu lyfjabúðanna hefur því verið ósvarað vegna, athugana á þessu, en hefðum við séð hilla undir samkomulag um heildarskipulag þessara mála, hefðum við tekið sérstaklega til athugunar tölu lyfjabúðanna.

Í þessu sambandi kemur og ýmislegt til greina, sem ég hef ekki að fullu rannsakað. Eitt það erfiðasta er það, hversu lyfjafræðingar eru fáir, — svo mjög að t. d. var með naumindum komið í veg fyrir stöðvun lyfjabúðar á Akureyri með því að fá mann frá útlöndum. Ef fjölga ætti lyfjabúðunum hér í Rvík, mundi það taka fyrir lyfjaverzlun úti á landi. En ekki er til fulls rannsakað, hver von er á nýjum lyfjafræðingum.

Annað, sem athuga þarf í þessu sambandi, er það, að skorin hafa verið mjög niður leyfi fyrir innflutningi á lyfjum. Ef svo ætti að fjölga lyfjabúðunum mikið, gæti orðið mjög erfitt fyrir þær að koma sér upp nægilegum birgðum af nauðsynlegum lyfjum. Þetta eru aðalerfiðleikarnir, en á móti því kemur svo, að það er mjög æskilegt fyrir íbúa úthverfanna hér, að lyfjabúðunum fjölgi. Ég hef nokkuð látið rannsaka, hvernig lyfjaverzlun er hagað í öðrum löndum, og mun það sýna sig, að annars staðar eru fleiri menn á hverja lyfjabúð en hér, en þessari rannsókn er ekki lokið. Ég álít það ekki hyggilegt, að Alþ. setji föst ákvæði um tölu lyfjabúða í landinu. A. m. k. þyrfti þá áður að hafa farið fram mjög gagnger rannsókn á málinu. Hins vegar tel ég sjálfsagt, að till. gangi til n. og n. rannsaki málið og skapi sér skoðun um það.

Hv. þm. S-Þ. talaði um vinnustöðvun í lyfjabúðunum, ef ekki yrðu skjótar framkvæmdir í málinu. Ég skil ekki, hvað hv. þm. á við með þessu og veit ekki, hvaðan hann hefur umboð til slíkra hótana. Ég hygg, að slíkt komi ekki til mála, enda færi þá að verða vandlifað, ef stöðva ætti lyfjasöluna út af ágreiningi, sem kynni að vera, en ekkert liggur fyrir um, að sé fyrir hendi. Ég býst við, að ég hafi misskilið hv. þm., en mér heyrðist hann þó segja þetta og endurtek, að ég veit ekki, hvaðan honum kemur umboð til slíks.

Sem sagt, þetta mál er til meðferðar í ráðuneytinu, og veit ég ekki, hvað gert verður, en ástandið í lyfsölumálunum í öllu landinu verður haft til hliðsjónar.