04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Af þeim umr., sem hér hafa fram farið, er ljóst, að ekki er deilt um það, hvort nauðsynlegt sé að fjölga lyfjabúðum, því að engin réttmæt rök hafa fram komið. sem mæli í móti því. og hefur hv. þm. Snæf. þegar skýrt það nógsamlega. En tilefnið til þess, að ég kveð mér hljóðs, eru ummæli hæstv. ráðh. um það, að skortur á lyfjafræðingum torveldi afgreiðslu málsins, og gefa þessi ummæli hæstv. heilbrmrh. tilefni til þess, að hér séu gefnar ýtarlegri skýringar á því, sem hér er um að ræða.

Tvisvar eða þrisvar hefur stjórn Lyffræðingafélags Íslands samið frv. og sent heilbr.- og félmn. Ed. og farið þess á leit við n., að hún flytti frv. á þessu þingi. Þrátt fyrir þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki viljað sinna málum þeirra, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, og er ekki útlit fyrir, að neitt samkomulag náist um afgreiðslu þessa máls á næstunni. Lyfjafræðingarnir fullyrða, að það ástand, sem nú ríkir, sé afar slæmt og dragi úr áhuga þeirra manna, sem annars hefðu áhuga á því að leggja fyrir sig lyffræðinám. Og þeir vilja, að löggjöf verði sett, til þess að komizt verði yfir þá erfiðleika, sem nú eru á því að fá lyfsöluleyfi. Ég hef ekki viljað leggja fram lagabálk þennan fyrir heilbr.- og félmn. af tvennum ástæðum:

Í fyrsta lagi er þetta fyrst og fremst mál ríkisstj., og það er tæplega hægt fyrir þingn. eða einstaka þm. að flytja svo ábyrgðarmikið mál sem þetta. Hin ástæðan er sú, að ég er ósammála frv. lyffræðinganna og vildi sjálfur þar miklu breyta. Hins vegar tel ég óhjákvæmilegt að taka mál þessi til gaumgæfilegrar athugunar og skjótrar.

Nú hafa lyffræðingarnir tilkynnt, að annað frv. sé í undirbúningi hjá landlækni, en ráðh. sjái sér ekki fært að fallast á það og megindeiluatriðið sé, að hæstv. ráðh. sé að reyna að koma þessum málum svo fyrir, að kaupfélög fái einkarétt til verzlunar með lyf. Þetta er nú sagt, að standi í vegi l., — að setning þeirra strandi á ósamkomulagi milli ráðh. og landlæknis. Hér er því deilt um það, hvort kaupfélögunum eigi að vera heimilt að verzla með lyf samhliða ríkinu, en engum öðrum verzlunaraðilum í landinu.

Hvað sem þessu nú líður, þá tel ég óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að gera fljótt breytingar á þessum málum. Það þarf að endurskoða og skipuleggja lyfjaverzlunina, heilsugæzlulögin og þessi mál yfirleitt. Það er meira að segja spurning, hvort ekki eigi að gefa lyfjaverzlunina algerlega frjálsa, eins og tíðkast í sumum löndum, t. d. í Ameríku, að gefa öllum þeim lyfsöluleyfi, sem sanna kunnáttu til slíkra hluta með prófskírteinum. Nú nýlega auglýsti landlæknir, að laus væri yfirlyfjafræðingsstaða eða landlyfjafræðingsstaða, sem ekki finnst neinn stafur fyrir í l., að heimilt sé. Ég veit ekki til þess, að neitt embætti hafi verið ákveðið með þessu sæmdarheiti, og væri gott, ef hæstv. ráðh. upplýsti það, hvort búið væri að veita þetta embætti og hvað nauðsynlegt það er. Framsfl. hefur nú lengi hrópað upp, að gæta verði þess að stofna ekki til nýrra útgjalda úr ríkissjóði, og hefur ásakað sjálfstæðismenn, sem hafa farið með fjármálastjórn á undanförnum árum, að þeir væru að koma fjárhag ríkisins niður fyrir allar hellur með óþarfa útgjöldum. (PZ: Hvað þeir gerðu líka).