04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson) :

Það hefur margt komið fram í þessum umr. Forráðamenn Reykjavíkurbæjar hafa farið þess á leit við heilbrigðisstjórn, að lyfjabúðum yrði fjölgað í bænum, og verið studdir af lyffræðingafélaginu, sem bæði hefur talað við mig og aðra um þessi mál. Framkoma heilbrigðisstjórnarinnar hefur hins vegar hindrað, að þetta næði fram að ganga.

Inn í umr. hafa dregizt mörg hundruð ára gömul lög, en grundvöllurinn að því fyrirkomulagi, sem nú er, var lagður snemma á einokunaröld. Hv. 1. þm. N-M. er vinur frjálsrar verzlunar, en það er ekki auðvelt nú. Eins og formaður verzlunarráðs hefur lýst í blöðunum í morgun, er þjóðin nú fjær frjálsri verzlun en nokkru sinni fyrr. En við viljum burt lög frá dögum Kristjáns IV., lifa eins og frjálsir menn og leyfa hverjum þeim, er hefur kunnáttu og peninga, að fá lyfsöluleyfi.

Fyrir 20 árum lagði ég út í það með Guðmundi Björnssyni landlækni, með miklu lélegri aðstöðu en hæstv. menntmrh. hefur nú, að koma nokkuð betra lagi á þessi mál. Við skrifuðum tvö bréf upp á fjórar eða fimm línur. Það voru engin form, ekkert „vesen“ og engar hótanir, bara heilbrigð skynsemi. Þá voru tveir lyfsalar á móti. Þetta voru stór fyrirtæki og stórrík, en svo bættust tvær lyfjabúðir við, er þá fengu lyfsöluleyfi og urðu einnig stórgróðafyrirtæki. Og nú er svo komið, að fjórir eru á móti (Utanrrh.: Þetta er ekki rétt). Það er þá nýtilkomið, en þótt svo sé, finnst mér, að Alþ. ætti að ræða við þessa þrjá eða fjóra og auk þess landlækni í viðbót. Landlæknir virðist líða af ofsóknarhneigð, það er bezt að segja það. Hann vill ráða öllu, en ræður engu. Hæstv. heilbrmrh. ætti að reyna að yfirbuga þessa ofstjórnarhneigð.

Ég verð að leiðrétta dálítið hjá hv. þm. Barð., sem veit svo margt. Hæstv. núv. heilbrmrh. er ekki sá fyrsti, sem vildi koma lyfjum í samvinnuverzlun, heldur er það KRON. KRON taldi bezt, að það seldi öll lyf, en KRON sagði bæði landlækni og hæstv. heilbrmrh. upp hollustu, og svo fór, að landlæknir sá villu síns vegar. Þetta segi ég til leiðréttingar fyrir hv. þm. Barð. — Annars virðist það heppilegt að leyfa bæði kaupmönnum og samvinnufélögum að keppa á þessum vettvangi, eins og er á Akureyri, ef svo væri jafnt skipt, að við mætti una. En það er engin ástæða til þess að þvinga þetta fram með löggjöf. Þau væri nóg, að hæstv. heilbrmrh. skrifaði fjögur, fimm eða sex bréf. Það er skrítið, ef það þarf ógurlegan lagabálk til þess að koma þessum málum í lag, ef bara þarf heilbrigða skynsemi til þess að leysa þau. Þetta er líka hvergi spursmál, nema í Reykjavík. Annars staðar á landinu eru ekki margir um lyfjabúðir.

Það er minnkun fyrir Alþ., sem situr meiri hluta vetrar, að búa við þetta ástand, sem allir eru sammála um, að þurfi lagfæringar við og enginn er á móti, nema einn embættismaður, sem er fullur af duttlungum.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort ég væri með hótanir um stræku. Ég get sagt hæstv. ráðh. það, að óánægjan er orðin það mikil, að lyfjafræðingarnir geta farið til annarra landa, og víst er um það, að þetta mál verður aldrei leyst með ræfilsskap.