04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að svara miklu ræðu hv. þm. S-Þ. Hann var með dylgjur um það, að lyfjafræðingarnir mundu leggja niður vinnu. Það er furðulegt að heyra þetta, og mér þykir skörin vera að færast upp í bekkinn, ef lyfjafræðingarnir, sem vinna svo þýðingarmikið starf fyrir almenning, ætla með hótunum um verkföll að fara að skipta sér af því, hvað lyfjabúðirnar eru margar. Ég hef aldrei heyrt þessa hugsun fyrr en hjá hv. þm. S-Þ., sem fram til þessa hefur ekki talið sig talsmann verkfalla. Það er skortur á lyfjafræðingum, og áhuginn fyrir fleiri búðum byggist því fyrst og fremst á business-sjónarmiðum. Þvingunarráðstafanir í þessu sambandi hef ég hins vegar aldrei heyrt nefndar.

Hv. þm. S-Þ. hefur m. a. að minnsta kosti flutt þetta mál til þess að koma að skoðunum sínum á landlækni. Hann sagði, að hann hefði ekki mikið að gera. Ég verð að segja fyrir mig, að ég þekki ekki skylduræknari mann, og ummæli hv. þm. S-Þ. eru alveg út í bláinn. Það sker svo úr um landlæknisembættið, að það er eina stofnunin, sem ekki hefur fjölgað starfsmönnum sínum á undanförnum árum.

Hv. þm. sagði, að landlæknir væri með ofsóknaræði (JJ: Ég sagði ofsóknarsýki). Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu, en hitt er víst, að þetta er eina stofnunin, sem ekki hefur vaxið að kostnaði um áratugi, og ber það sízt vott um starfsleysi landlæknis.

Hv. þm. var eitthvað að tala um KRON. Það sem hann sagði í því sambandi, var tilhæfulaust. Hann var líka að tala um ræfilsskap, eins og honum er tamt, það eina, sem þyrfti að gera, væri að skrifa fjögur eða fimm bréf og þetta væri bara vandi fyrir Rvík. Sannleikurinn er þó sá, að aðalvandinn í þessu sambandi er skortur á lyfjafræðingum, og ef fjölgað er lyfjabúðum í Rvík, er efalaust ómögulegt að fjölga lyfjabúðum úti á landi. Það hefur þurft að sækja lyfjafræðinga til Noregs til lyfjabúðanna úti á landi. Ef sex ný bréf væru gefin út fyrir Rvík, mundi leiða af því fullkominn glundroða. Sama yrði niðurstaðan, ef öllum væri leyft að verzla með lyf. Af því gæti ekki annað leitt en fullkomið öngþveiti.

Það er hins vegar mjög einfalt að skilja málflutning hv. þm. S-Þ. fyrir þá, sem þekkja hann. Hann veit, að sanngjarnt er að fjölga lyfjabúðum í Rvík, og hann veit um vandræði heilbrigðisstjórnarinnar í þessu sambandi. Þess vegna vill hann hræra í þessu máli og er með æsingar út í landlækni, af því að ekki er úr öllu þessu leyst strax. Ég mun svo ekki munnhöggvast við hv. þm. S-Þ. En hann hefur gefið tilefni til þessara andsvara. En ég vil gjarnan hafa samvinnu við þá n., sem fjallar um þetta mál, og borgarstjórann í Rvík um það, hvað hægt sé að gera í þessu vandamáli, því að þetta er vandamál, þegar litið er á það í heild. Og þetta mál er í athugun í ráðuneytinu. Og við erum búnir að slíta það úr sambandi við heildarlöggjöfina í bili, af því að ég hef gefizt upp við það í bili a. m. k. að tengja það við hana í þeirri athugun, sem um það fer fram.