04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3232)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Þar sem tveir hv. nm. í heilbr.- og félmn. hafa þegar tekið til máls um þetta mál, og þar sem ég á sæti í þeirri n., sem hefur fjallað um málið, þá þykir mér ástæða til að segja um málið örfá orð.

Mér virðist, að hv. flm. þessa máls eiginlega hafi sagt eitt orð af viti í umr. um málið, nefnilega, að málið sé ekki eins flókið og ýmsir aðrir hv. þm. vilja vera láta, og þar á meðal hæstv. heilbrmrh. Það hefur komið fram í þessum umr., að það, að lyfsölumálið hefur ekki verið tekið til rækilegrar meðferðar af Alþ. og að lyfjabúðamálið í Rvík hefur ekki verið leyst, það eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til tregðu landlæknis, því að samkomulag hafi ekki náðst á milli hans og heilbrigðismálarh. annars vegar og hins vegar á milli hans og apótekaranna og lyfjafræðinganna. Eftir því, sem mér er þetta mál kunnugt, þá held ég, að þetta sé alveg á misskilningi byggt. Það eru mörg ár síðan landlæknir hefur lagt till. sínar fram um þetta mál til ráðh., bæði að því er snertir heildarlausn málsins og einnig að því er snertir lyfjabúðamál Rvíkur. Það mun hafa verið árið 1942, sem skipuð var af þáv. ríkisstj. sérstök n. til þess að semja frv. til l. um lyfsölumál yfirleitt. Í þessari n. voru apótekarar, lyfjafræðingur, lögfræðingur, og svo landlæknir sem form. n. Svo undarlega vildi til, að n. þessi varð algerlega sammála. Hún mun hafa lagt mikið verk í störf sín og skilaði sammála nál. N. sendi til ríkisstj. frv. með tilmælum um, að það væri flutt á Alþ., og mun n. hafa gert sér von um, að þar sem samkomulag náðist milli þeirra aðila, sem n. skipuðu, þá mundi ríkisstj. geta lagt fram þetta frv., eins og það lá fyrir. En þrátt fyrir ítrekuð tilmæli n. þessarar og landlæknis hefur ríkisstj. ekki viljað flytja þetta frv. á Alþ. En vegna þess, að það hefur ekki borið á góma hér, hvert er meginatriði málsins, hvernig þessi n. lagði til, að þessum málum yrði skipað, vildi ég fara um það örfáum orðum.

Meginatriðin í því frv., sem n. lagði til, að flutt væri, eru þau, að innflutningur á lyfjum til landsins skuli vera í höndum ríkisins og að ríkið skuli hafa einkarétt á þessu, en hins vegar skuli lyfjafræðingar einir mega reka lyfjabúðir hér á landi. En koma skal verðjöfnunarsjóður, til þess að jafna á milli lyfjabúða landsins, til þess að gera kleift að reka lyfjabúðir, þar sem annars væru lítil líkindi til, að það gæti borgað sig fjárhagslega að reka þær, þannig að styrkur til þess kæmi á þennan veg frá hinum fjölmennari stöðum. Þetta eru meginatriði frv., sem ég gat um, um skipun lyfsölumála, sem n. þessi varð sammála um að leggja til. Og þegar þetta samkomulag var gert, virtust lögfræðingar ekkert hafa við þessa skipun að athuga, en vilja á hana fallast. Þetta breyttist hins vegar, áður en langt leið. Skal ég ekki rekja þá sögu hér, sérstaklega af því að fundartími er bráðum á þrotum, þó að ástæða væri til að rifja hana upp. En síðan hefur engin heilbrigðisstjórn, sem verið hefur í landinu, viljað gera þetta mál að sínu. Og heilbrmn., sem um málið hafa fjallað, hafa ekki heldur viljað flytja það, vegna þess að skort hefur á stuðning hlutaðeigandi heilbrmrh. við málið. Apótekarar hafa svo haft forgöngu um að semja annað frv., sem legið hefur fyrir heilbrmn. hér. sem stj. hefur ekki viljað flytja. Skoðun lyfjafræðinganna virðist vera sú, að setja beri aðeins tekniska löggjöf um þetta, en blanda beri engri pólitík þar inn í, setja eingöngu tekniska löggjöf um þetta og annað ekki. Ég hef nú ekki setið á þingi nema frá því, er síðustu kosningar fóru fram, og er mér því ekki kunnugt um það, sem skeð hefur í þessu, nema síðan. En ég held, að það sé rétt skilið hjá mér, að það, sem hæstv. heilbrmrh. sé mestur þyrnir í augum í sambandi við þetta frv., eins og n. gekk frá því og ég gat um, sé, að í því frv. var ekki gengið út frá því, að samvinnufélög og bæjarfélög gætu gengið inn í það að verzla með lyf.

En það var alls ekki skoðun allra nm., að það væri æskilegt, að það opinbera annaðist heildsölu á lyfjunum, heldur var það gert sem samkomulag af apótekaranna hálfu að gera ráð fyrir þessu, og lyfjafræðingarnir vildu fallast á það, að heildsala á lyfjum væri í höndum þess opinbera, með því skilyrði, að lyfjafræðingar einir skyldu hafa rétt til þess að starfrækja lyfjabúðirnar í landinu. Og mun þess vegna hafa orðið samkomulag um þetta í n. Það er alls ekki rétt hjá hv. þm. Barð., að það hafi verið skoðun nm., að kaupfélög skyldu prinsipleit ekki hafa rétt til lyfjasölu. Hæstv. ráðh. hefur tekið fram, að landlæknir hafi endursamið frv. og m. a. gert þessa breyt., að samvinnufélög og bæjarfélög skyldu geta fengið slíkan rétt að lögum, svo að um það er enginn ágreiningur milli hæstv. ráðh. og landlæknis.

Þetta er aðalatriði þessa máls, eins og það nú liggur fyrir, og þótt ýmis teknisk atriði í því séu mjög flókin og ég vilji engan veginn halda fram, að þetta sé einfalt mál, þá held ég, að of mikið sé úr flækju þess gert. Ágreiningurinn er pólitísks eðlis fyrst og fremst. Ég veit því ekki, hvort það er svo ótímabært að koma með málið inn í þingið nú. Ég veit ekki, hver á að greiða úr þeim pólitísku vandamálum nema þingið og þingflokkarnir. Ég held, að um þau teknisku atriði sé ekki svo mikill ágreiningur, að ekki sé óhætt að hleypa málinu inn í þingið vegna þess, að mikil hætta sé á því, að þm. sökum vanþekkingar á því komist í neinn vanda. Þetta er mín persónulega skoðun. Ég held, að vandamálin séu fyrst og fremst pólitísks eðlis og það sé algerlega tímabært og alls ekki vert að draga það lengur að skera þar úr hinum pólitísku deilum og láta þingið spreyta sig á málinu og taka um það endanlega ákvörðun.

Þegar hæstv. ráðh. segir, að Alþfl. hafi gefizt upp við að koma allsherjarskipulagi á í þessu máli, þá er mér ekki alveg ljóst, hvað hann á við. Einn flokkur getur auðvitað ekki komið slíku máli fram. Um það verða að vera venjuleg flokkaátök. En mér finnst fyrir nokkru vera tími til kominn, að þau venjulegu flokkaátök eigi sér stað um þetta mál. Ég geri mér ljóst, að það getur verið varhugavert að hleypa málum, sem eru tekniskt mjög flókin, inn í þingið lítt undirbúnum, en mér virðist vandamálin aðallega vera á hinu pólitíska sviði og þeir menn, sem á þingi sitja, eiga einmitt að vera sérfræðingar á hinu pólitíska sviði og því færir um að leysa þetta mál.

Að öðru leyti er ég hæstv. ráðh. sammála um það, sem hann sagði um málið. Ég held, að það sé alveg rétt, að varhugavert hefði verið að taka lyfjabúðir í Rvík alveg út úr þessu máli sem heild, og harma, ef það er hans endanlega skoðun, að það beri að gera. Lyfjabúðir í Rvík eru svo nátengdar lyfjabúðum annarra kaupstaða, að vel gæti svo farið, er nýjar lyfjabúðir yrðu stofnsettar í Rvík, þó að kannske forstöðumenn lyfjabúðanna úti á landi færu ekki hingað, að þá mundu starfsmenn þeirra fara hingað í þær nýju lyfjabúðir. Ég vil því taka undir, að nauðsyn er á því, að um leið og lyfjabúðamál Rvíkur eru leyst, þá verði það ekki til að skapa vandræði annars staðar.

Enn fremur er eitt atriði, sem ekki hefur enn verið minnzt á. Nú er allmikill skortur á lyfjafræðingum. en hann stafar m. a. af því, að aðgangur að lyfjafræðingaskólanum hefur verið takmarkaður nokkuð. Ég held, að ein ráðstöfunin, sem gera þyrfti til að bæta úr þessum skorti, væri að auka tækifæri stúdenta til að komast í þennan skóla, en þau hafa verið mjög takmörkuð, og hefur það verið gert að vilja lyfjafræðinganna sjálfra. Það atriði þarf vissulega að taka til athugunar.

Þetta er það, sem ég vildi um málið sagt hafa. Sem sagt, skoðun mín er sú, að mjög æskilegt sé, að löggjöf yrði sem fyrst sett um þessi mál. Ég tel eðlilegt, að þingið fengi sem fyrst að spreyta sig á, hvort því tækist ekki að ná samkomulagi um einhverja heildarlausn á þessu máli. Ég tel, að lyfjabúðaspursmálið í Rvík eigi að leysa um leið og slík allsherjar lausn á málinu yrði fengin. Það er mín skoðun á málinu, að slík allsherjar lausn eigi að fást sem fyrst, og þangað til hún kemst á held ég, að ekki sé mikil hætta á því, að sérstakan voða beri að höndum í Rvík, því að ég hef trú á því, að þinginu gæti tekizt að afgreiða þetta vandamál á ekki allt of löngum tíma.