05.02.1948
Sameinað þing: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ýmsum þeim atriðum, sem ég taldi þörf að svara, var hér í gær svarað ýtarlega bæði af hæstv. dómsmrh. (BBen) og flm. till. (JJ), og get ég því verið mjög stuttorður.

Hæstv. menntmrh. sagði, að mál þetta mundi hafa verið flutt inn í þ. af flm. til þess að ýfast við einhvern. Ég skal ekkert um það segja, en hinu er ekki að neita, að hér er um fullkomið nauðsynjamál að ræða, hvaða hvatir sem ráðh. telur liggja til grundvallar þessari till.

Það er ein röksemdin, sem komið hefur fram hér, og það eru ummæli ráðh., að hér voru of fáir lyfjafræðingar, þannig að með fjölgun lyfjabúða yrði hætta á því, að ýmsir staðir úti á landi yrðu apótekslausir. Það er rétt, að hér eru helzt til fáir lyfjafræðingar. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru allmargir við þetta nám, — eftir því, sem ég hef komizt næst, allt að 10. Auk þess er vitanlegt, að hér eru nokkrir útlendir — aðallega danskir — lyfjafræðingar og mér vitanlega engin vandkvæði að fá hingað útlenda lyfjasveina, a. m. k. til Rvíkur. Þar við bætist einnig, að ef þetta verður að l., tekur undirbúningur þess alltaf nokkurn tíma, og ætla ég, að þessi þörf mundi smám saman leysast á þeim tíma með komu nýrra lyfjafræðinga.

Varðandi það atriði, að erfitt sé að fá lyfjafræðinga til þess að standa fyrir lyfjabúðum úti á landi, þá held ég, að þar séu fleiri ástæður en fæð lyfjafræðinga. Nú er það í hendi heilbrigðismálastjórnarinnar, hvort menn fá að reka lyfjabúðir og hvar. Ég ætla, að það öryggisleysi, sem lyfjafræðingar búa við, ráði nokkru um tregðu þeirra að fara út á land. Ef slíkir menn reka lyfjabúðir í afskekktum héruðum, mundu þeir gjarnan fá augastað á betri stöðum, ef þeir losnuðu, og mundi það vera hvatning mönnum að taka að sér lyfjabúðir úti á landi, ef þeir ættu það víst, þegar betri staðir losnuðu, að þeir gengju fyrir, sem hafa gegnt þessu starfi í fámennari héruðum. Gegnir þar sama máli og um héraðslæknana.

Hv. 4. þm. Reykv. lýsti hér nokkuð þeim frv., sem verið hafa á ferð um þessi mál, en var á annarri skoðun en ráðh., því að hann vill láta leysa þetta mál í sambandi við heildarfrv. En það er ekki nokkur nauðsyn að binda fjölgun lyfjabúða við lausn á þessu heildarfrv., því að þótt skipan væri komið á þessi mál, gæti hún náð jafnt til þeirra lyfjabúða, sem kæmu nýjar.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að hæstv. menntmrh. gat þess, að innflutningur lyfja á þessu ári mundi mjög verða skorinn við nögl. Mig furðar nokkuð á því, ef skera á niður jafnnauðsynlegan innflutning í stórum stíl, sérstaklega þegar haft er í huga, hve lítill innflutningur á þessari vöru er af heildarinnflutningnum. Ég hef nú ekki við höndina nýrri verzlunarskýrslur en frá 1945, en þar er, að því er ég ætla, innflutningur á lyfjum um það bil 1 millj. af ca. 330 millj. Ég hygg, að fátt sé háskalegra að skera við neglur sér.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem nauðsynlegt er að ræða frekar, en vænti þess, að sú n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, taki það til skjótrar afgreiðslu og meðferð málsins beri þann árangur, að heilbrigðismálastj. sjái sér fært að veita þessi leyfi til að stofna nýjar lyfjabúðir.