05.02.1948
Sameinað þing: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. spurði um, hvers væri sökin í þessum efnum, hvort landlæknir hefði gefið álit, vil ég ekki taka undir það, að hér sé um sök að ræða. Ég vil segja það, að þótt dráttur hafi orðið á þessu máli síðan ég tók við störfum á þessu sviði, þá tel ég það ekki neina sök, þótt það hafi ekki enn verið afgreitt, sumpart vegna þess, að ég vildi leysa þessi mál öll í senn og fá samkomulag um þau. Hér er ekki um eins einfalt mál að ræða og menn vilja vera láta, og það gerir lyfjafræðingaskorturinn, þó að það kunni að rætast úr því á næstunni, og það er atriði, sem nú er verið að athuga í sambandi við þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi. Hefur rn. hvað eftir annað átt viðræður um þetta við landlækni.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Snæf. sagði um lyfjasveina, þá má vel vera, að nú fari að rætast úr þessu, og er það þá gott, en erfiðleikarnir við að flytja inn danska lyfjasveina, liggja aðallega í því, að þeim er illa við að fara út á land. Og ég býst við, að Íslendingar sjálfir, eftir þeirri reynslu, sem við höfum, að þeim væri illa við að fara út á land og teldu, að þá kæmu danskir menn í þeirra stað hérna í höfuðstaðnum. En við skulum vona, að horfurnar í þessum málum séu þannig, að hægt sé að greiða úr þessu, gera ráðstafanir til bóta. Það er sem sagt það, sem nú er verið að athuga.

Viðvíkjandi innflutningi lyfja, þá vil ég aðeins taka fram, að mér hefur verið skýrt svo frá af innflytjendum lyfja, að leyfaveitingar til þeirra hluta hafi verið mjög af skornum skammti 1947, að þeirra dómi, og telja þeir sig ekki hafa getað keypt allt, sem þeir þurftu að fá, og geri ég ráð fyrir, að svo muni einnig verða á því ári, sem nú er að byrja. Annars vita það allir, að oft eru mjög ógreinileg takmörk á milli lyfja og ýmissa annarra vara, þannig að það er oft álitamál, hvort vara á að teljast lyf eða ekki, og verður þá að ákveða, fyrir hverju skuli veita leyfi og hverju ekki. En þrátt fyrir það hefur rn. þótt sjálfsagt að ýta undir það, að leyfður væri sem ríflegastur innflutningur á lyfjum, og enn fremur höfum við reynt að sjá til þess, að það ónauðsynlega væri látið sitja á hakanum.