14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Ég hef flutt þessa till. vegna þess, hver nauðsyn er á, að hæstv. stj. gefi þjóðinni skýrslu um, hvað hún hefur aðhafzt í samningum um dollaralán og svo kallaða Marshalláætlun. Þjóðin hefur þá sorglegu reynslu af þeim ráðh., er ríkisstj. þessa skipa, að þeir hafa áður ofurselt framandi stórveldi íslenzk landsréttindi þvert ofan í loforð gefin þjóðinni. Allur er því varinn góður.

Þessi hæstv. ríkisstj. hefur, síðan hún komst til valda, unnið að því að leiða hrun, atvinnuleysi og launalækkanir yfir þjóðina, til þess að þeir milljónamæringar í Rvík, sem hún þjónar, geti haldið áfram að auðgast á kostnað fjöldans. Hún hefur reynt að haga starfi sínu þannig, að fólkið fengi ekkert um fyrirætlanir hennar að vita, og hún gæti flutt því hvaða ósannindi sem væri, án þess að kostur gæfist á að gagnrýna þau.

Þess vegna hefur þessi ríkisstj. skipað fjárhagsráð til þess að skipuleggja atvinnuleysi, en svikið yfirlýsingar, gefnar af hálfu stjórnarliðsins í vor, um að allir flokkar ættu þar fulltrúa. Þannig hyggst stj. að hindra, að till. þær, er fulltrúi Sósfl. kynni að gera í slíku ráði, kæmust til þjóðarinnar. Síðan hefur hún látið þetta einlita fjárhagsráð gefa villandi skýrslur til þess að reyna að skapa grundvöll að launalækkunum í landinu. Svo hafa ráðh. sjálfir farið í útvarpið til þess að reyna að blekkja þjóðina til undanlátssemi við launalækkunarkröfur afturhaldsins. En Sósfl. hefur hæstv. stj. neitað um að fá að flytja ræðu í útvarpið um þessi mál. Þannig er málfrelsið og rétturinn til að gagnrýna bælt niður, til þess að blekkingarherferð stjórnarliðsins verði ekki afhjúpuð.

Í samningunum um sölu á afurðum Íslendinga hefur hæstv. ríkisstj., og þá fyrst og fremst hæstv. utanrrh., svikið þjóðina herfilega með því að selja vörur hennar fyrir lægra verð en fáanlegt hefði verið. Þegar svo þessi skemmdarverk hans eru afhjúpuð og ósannindin, sem hann daglega ber á borð í Morgunblaðinu, hvað haldið þið þá, að hann geri til þess að reyna að firra sig gagnrýni og hindra, að þjóðin geti sannað á hann óhæfuna? (Forseti (hringir) : Ég verð að víta þessi ummæli). Ég skal þá lofa hæstv. forseta að heyra um þetta síðasta óhæfuverk. Hann víkur Lúðvík Jósefssyni alþm. úr samningan. utanríkisviðskipta, af því að LJós er kunnur að því að hafa staðið allra manna bezt á verði um hagsmuni útvegsmanna og fiskimanna gegn verðlækkunartilraunum afturhaldsins. Þannig á að svipta þjóðina eina vitninu, sem hún getur haft í þeirri n. til þess að berjast fyrir hagsmunum hennar. 6. október, daginn eftir að það varð opinbert allri þjóðinni, að hæstv. utanrrh. hafði svikizt um að standa á verði fyrir íslenzkan sjávarútveg. ritar hann Lúðvík Jósefssyni svo hljóðandi bréf :

„Hér með skal yður tjáð, herra alþingismaður, að yður er veitt lausn frá störfum í Samninganefnd utanríkisviðskipta frá og með deginum í dag að telja.

Bjarni Benediktsson.“

Þegar þessi fulltrúi sjávarútvegsins er flæmdur úr n., hyggst utanrrh. að geta komið verðlækkun sinni á íslenzkum fiski á, án þess að þjóðin geti sannað á hann skemmdarverkin.

Svona er verið að reyna að gera þjóðina varnarlausa gegn þeim árásum, sem verið er að gera á lífskjör hennar.

Samtímis hefur svo ríkisstj. í laumi aflað sér heimilda hjá alþjóðabankanum til þess að lækka gengi íslenzkrar krónu um allt að 20%. Gengislækkunarl. á svo að knýja fram. ef stj. þorir. En það er bezt, að þjóðin fái að vita af þessari fyrirætlun hennar hér með, því að hugsanlegt er, að þjóðin geti með mótmælum sínum komið í veg fyrir, að það óheillaverk yrði framið.

Starfsaðferðir þessarar hæstv. ríkisstj. hafa verið með þeim endemum, að nauðsynlegt er, að þjóðin sé vel á verði á öllum sviðum gagnvart þeim tilræðum, sem sérstaklega hæstv. utanrrh. bruggar henni.

Þess vegna hef ég nú m. a. krafizt með þáltill. skýrslu af hæstv. ríkisstj. um Parísarráðstefnuna, því að ég veit, að eitt af mörgu, sem hæstv. stj. vill leyna, eru fyrirætlanir hennar um dollaralán.

Sjálfstfl. hefur heimtað útvarpsumr. um þetta mál. Manni virtist nú að vísu, að sæmra hefði verið fyrir þessa hæstv. ríkisstj. að leggja fram fjárl. í byrjun þings, en brjóta ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um það eins og hún gerir, og láta fram fara þá útvarpsumr. um fjárl., sem vant er að vera fyrsta útvarpsumr. hvers reglulegs þings, en að heimta nú útvarpsumr. um þetta mál á þann hátt, sem nú er gert.

En það er auðséð, hver brögð eru hér í tafli, og nú á að endurtaka ósvinnuna, sem framin var við 2. umr. herstöðvasamningsins fyrir ári síðan, er útvarpsumr. var krafizt til að hindra umr. í þinginu. Hæstv. utanrrh. er nú að reyna að koma í veg fyrir almennar umr. um þetta mál í þinginu með því að heimta útvarpsumr. um það og knýja það fram með ofríki, að ég skuli tala fyrstur, áður en skýrslan er gefin. Þannig hefur hann hugsað sér að svipta mig málfrelsi um skýrsluna, sem hann mun vafalaust gefa nú á eftir mér, því að ella hefði hann vart heimtað þessar útvarpsumr. Ég veit, hvers hann hefur krafizt af hæstv. forseta. (Forseti (hringir) : Ég vil taka fram, að hæstv. ráðh. hefur einskis krafizt af mér). Ég veit, hvers hann hefur krafizt af aðalforsetanum. Ég mun ekki vægja fyrir þessu ofríki né heldur láta svipta mig frelsi til máls og gagnrýni með neinum slíkum bellibrögðum.

Hæstv. utanrrh. talar nú hér á eftir mér og getur nú gefið sína skýrslu. Ég mun svo ræða hana og fyrirætlanir hæstv. stj. í næstu umferð.