14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Þessar útvarpsumræður eru haldnar að tilhlutun ríkisstjórnarinnar, enda þótt flokkur utanríkisráðherrans hafi flutt óskina um umræðurnar.

Það hefur ekki verið óskað eftir útvarpsumr. um þessa þáltill. vegna þess, að hún sé í sjálfu sér svo merkileg, því fer fjarri, að svo sé, þótt hún víki að merku máli — Parísarráðstefnunni. Hins vegar er þáltill. og greinargerð hennar gott sýnishorn af andlegu ástandi leiðtoga kommúnista og gefur býsna góðar hugmyndir um bardagaaðferðir þeirra og merk að því leyti. Tillagan og greinargerð hennar gefa einnig tilefni til, að rætt sé nokkuð almennt um vandamálin og þann ofsafengna áróður, sem nú er rekinn gegn því, að þjóðin sameinist um viðreisnarstarfið.

Ýmsir munu ef til vill segja sem svo, að umræður séu orðnar nógu miklar. Nú eigi að tala minna og gera meira en áður. Það er hverju orði sannara, að hefjast þarf handa, og biðin er orðin allt of löng og tjónið af því óbætanlegt. En menn verða að minnast þess, að í þjóðfélagi hinna mörgu flokka er allt nokkuð þungt í vöfunum. Auk þess verða menn að hafa í huga, að stórfelldar ráðstafanir verða helzt að styðjast við góða þekkingu almennings á ástandinu, og því má vænta gagns af umræðum í útvarp frá Alþingi, þó tillögur um lausn vandans séu ekki fram komnar enn þá á þessu þingi.

Með tillögu þessari er farið fram á, að Alþingi álykti, að ríkisstjórnin skuli gefa skýrslu um þátttöku sína í Parísarráðstefnunni og sérstaklega um beiðni sína um lán hjá amerískum bönkum eða hjá ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Það kemur engum á óvart, þótt kommúnistar ætli að ærast út af Parísarráðstefnunni. Það er svo sem ekki nema sjálfsagt, þegar þess er gætt, að Rússar voru andvígir þeirri ráðstefnu og hafa sagt sínum undirsátum í öðrum löndum að sameinast í baráttunni gegn henni og því, sem þar fór fram, og gegn því, að Evrópa verði leyst úr rústum í samvinnu við Bandaríkin. Það er þá einnig sjálfsagt, að þessi þjónusta sitji fyrir og að um þetta fjalli fyrsta mál kommúnista á þessu þingi.

Hitt kemur ekki heldur neinum á óvart, sem þekkir starfsaðferðir kommúnista, þótt þeir krefjist skýrslu um lánbeiðni ríkisstjórnarinnar hjá amerískum bönkum eða ríkisstjórn Bandaríkjanna. enda þótt vitað sé, að þeir viti það, að ekki hefur verið beðið um slíkt lán, hvorki í sambandi við Parísarráðstefnuna né í öðru sambandi. En þessum atriðum hafa nú þegar verið gerð skil af öðrum, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara lengra út í það.

Ég sný mér því að því, sem þingsályktunartillagan og framkoma kommúnista yfirleitt gefur eigi síður tilefni til, að rætt verði.

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar, — sem er eitt hið furðulegasta og ósvífnasta plagg, sem sýnt hefur verið á Alþ., — er þannig til orða tekið, að ráðh. núverandi ríkisstjórnar séu reyndir að því að vinna að því að eyðileggja afkomumöguleika þjóðarinnar og rýra lífskjör almennings í hvívetna. Þessar furðulegu og sjúklegu staðhæfingar eru í fullu samræmi við allan málflutning kommúnista um þessar mundir og hafa þeir ferðazt um landið þvert og endilangt til þess að flytja þjóðinni þennan boðskap. En áður en þeir lögðu af stað í leiðangurinn, var haldinn stjórnmálafundur í Rvík og gefin út eins konar dagskipan í blaði kommúnista. en aðalefni hennar var þannig, orðrétt:

Ríkisstjórnin hefur unnið kappsamlega og markvist að því að stöðva atvinnuframkvæmdir í landinu og koma á atvinnuleysi þegar á þessu hausti.“ Og enn fremur segir:

„Heildsalarnir hafa verið látnir eyða gjaldeyri þjóðarinnar gegndarlaust, ríkisstjórnin hefur vegna pólitísks ofstækis selt afurðir landsins fyrir minna verð en hægt hefði verið að fá, og í skjóli þess gjaldeyrisskorts, sem ríkisstjórnin þannig hefur skapað, á að hefja árásir á afkomu launþega og almennings í landinu, rýra lífskjörin, lækka launin — allt í þeim tilgangi, að heildsalar og annar stórgróðalýður geti haldið áfram að græða.“

Þannig hljóðaði dagskipanin, þannig er málflutningurinn og hefur verið, og þannig er haldið áfram í greinargerð þeirrar þingsályktunartillögu, sem hér liggur fyrir, svo sem ég vék að áðan. Aðalefnið er þetta: Ríkisstjórnin skapar gjaldeyrisskort, atvinnuleysi og hrun, af því að hún hefur það að aðaláhugamáli að skerða lífskjör þjóðarinnar. Það þarf mikla trú á heimskuna og mannvonzkuna til þess að ímynda sér, að málflutningur eins og þessi beri árangur, og upp á andlegt fóður þessarar tegundar býður enginn nema sá, sem haldinn er ríkri mannfyrirlitningu.

Fyrst þessu er haldið fram, og það jafnvel á sjálfu Alþingi, þá verður víst ekki hjá því komizt að gera þessum áburði einhver skil, þótt menn hefðu mátt vænta þess, að þroski íslenzku þjóðarinnar væri þannig, að menn bæru ekki slíkt á borð fyrir hana.

Ríkisstjórnin er að skapa gjaldeyrisskort, kreppu, hrun og atvinnuleysi af ásettu ráði til þess að geta rýrt lífskjör almennings! Þetta mundi þá vera aðalkjarni þess boðskapar, sem stjórnarandstaðan á Íslandi hefur upp á að bjóða á því ári 1947, á þriðja ári lýðveldisins.

„Af ásettu ráði“ er aðalatriðið, það verður að vera með, því það á að vera skýringin á því, að stjórnin ekki vilji fá gott verðlag fyrir afurðirnar, og kem ég að því síðar.

Ég held nú, að þeir menn, sem láta sér til hugar koma, að nokkur ríkisstjórn skapi að yfirlögðu ráði kreppu til þess að geta rýrt afkomu almennings á meðan hún situr að völdum, séu í því ástandi andlega, að þeir þurfi annarrar hjúkrunar við en þeirrar, sem hægt er að veita í svona umræðum, og fer ég ekki lengra út í það.

Hitt er annað mál, að gjaldeyrisskortur og kreppa geta stafað af rangri stjórnarstefnu, og þótt það ætti að vera óþarfi að ræða þá sjúklegu fullyrðingu kommúnista, að núverandi ríkisstjórn vinni markvíst að því að skapa erfiðleika, þá er rétt að gera þeirri spurningu nokkur skil, sem ævinlega á að vera vakandi: Af hverju stafa þessi ægilegu fjárhagsvandræði, — hefur núverandi ríkisstjórn skapað þau, — ekki að yfirlögðu ráði, heldur af því henni hafi missýnzt eða mistekizt?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að minna á, hvernig ástatt var í landinu, þegar núverandi ríkisstjórn tók við, af því að það er svo stutt síðan. — en hún tók við um leið og kommúnistar hrökkluðust frá völdum, ásamt þeim, sem stýrt höfðu í félagi við þá. Við íhugun á þessu mætti ef til vill komast að niðurstöðu um, hvort það sé réttlátur dómur, að þeir stórfelldu erfiðleikar, sem þjóðin á nú við að stríða, séu skapaðir af núverandi stjórn. eða hvort það séu einhverjir aðrir, sem við slíka sköpun gætu orðið bendlaðir. Og ef til vill á hið ólíklega eftir að koma í ljós, að þeir, sem hæst hrópa að núverandi stjórn, þegar hún leitast við að komast út úr erfiðleikunum, eigi ekki minnstan þátt í því, hve illa er komið.

Núverandi ríkisstjórn tók við í febrúarmánuði þessa árs. Í gjaldeyrismálum var þá þannig ástatt, að innstæðurnar, sem til voru þá, voru ekki nægilega miklar til þess að standa undir bankaábyrgðum, sem búið var að takast á hendur, og leyfum þeim, sem nýbyggingarráð hafði gefið út. Vantaði þá fyrir nokkrum milljónum af nýbyggingarleyfum og bankaábyrgðum og marga milljónatugi og þó réttara hundruð millj. til þess að mæta því, sem búið var að gefa út af öðrum leyfum eða búið var að ráðstafa með bindandi vörukaupum með samþykki yfirvaldanna. Þannig var öllum gjaldeyrinum ráðstafað, þegar þessi ríkisstjórn tók við, og gjaldeyrisskortur óumflýjanlegur. Hafði þá verið ráðstafað á tveimur síðustu árum yfir 1,2 milljarði kr.

Peningamál ríkisins stóðu þannig, þegar stjórnin tók við, að ríkissjóður og ríkisstofnanir skulduðu a. m. k. 20 millj. á yfirdráttarreikningum í Landsbankanum, og ástandið í fjárhagsmálum landsins og ríkisins var slíkt að öðru leyti, að ríkislán eða lán með ríkisábyrgð voru ófáanleg svo nokkru næmi.

Sjávarútvegurinn stóð þannig, að þess var enginn kostur, að nokkur fleyta yrði hreyfð á sjó um áramótin síðustu fyrir það verð, sem líklegt var, að fengist fyrir fiskinn á erlendum markaði, og svo gífurlega hafði framleiðslukostnaðurinn vaxið, að í stað 50 aura verðs, sem dugði á vertíðinni á undan, var 65 aura verð talið lágmark. Hraktist Alþingi út í það að taka til bráðabirgða ríkisábyrgð á öllum fiskútflutningi bátaflotans, án þess að nokkuð væri vitað um sölumöguleika erlendis. Þetta var gert til þess að komast hjá stöðvun þá, þar sem engin forusta var um haldkvæm úrræði.

Stjórn sjávarútvegsmála var eitt af sérsviðum kommúnista í ríkisstjórninni, sem fór og hafði farið þannig úr hendi, að bátaútvegurinn er yfirleitt sokkinn í skuldir í lok mikilla uppgangstíma allra annarra. Þetta stafar blátt áfram af þeirri verðbólgustefnu, sem kommúnistar og fleiri hafa fylgt. En kommúnistar hafa leikið þann leik að gæla við útvegsmenn og sjómenn á sama tíma sem þeir hafa hrint útveginum út í skuldafenið á nýjan leik.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við, voru afurðasölusamningar ógerðir um nær allar útflutningsvörur landsmanna.

Ástandið í húsnæðismálum var verra en það hefur nokkru sinni orðið, og fjáröflun til bygginga stöðvuð, leiguokur og svartur markaður stóð með meiri blóma en nokkru sinni fyrr.

Nýsköpunarframkvæmdirnar stóðu þannig, að fjáröflun til þeirra var stöðvuð, fjárfestingarkontrol vantaði og alla hemla á eyðslu og því fullkomið handahóf ríkjandi um það, hvort nauðsynlegar framkvæmdir sætu fyrir eða aðrar ónauðsynlegri.

Dreifing stríðsgróðans, með verðbólguna að áhaldi, hafði tekizt þannig, að aldrei höfðu verið til í landinu jafnmargir milljónamæringar, eftir því sem kommúnistar sjálfir sögðu og segja, og ástandið allt var á þá lund, að fjórir hagfræðingar, tilnefndir af stjórnarflokkunum, komust að þeirri niðurstöðu, að gagngerðar ráðstafanir þyrfti að gera, gagngerð stefnubreyting þyrfti að eiga sér stað í fjárhagsmálum þjóðarinnar, ef forða ætti frá miklu hruni. Og þessir fjórir hagfræðingar slá því föstu, að ástandið sé orðið svo alvarlegt, að þetta geti ekki orðið nema með þátttöku almennings. Um það segja þeir svo:

„Þegar hér er komið lestri þessa þáttar álitsgerðarinnar, hefur sú spurning án efa vaknað í huga lesanda, hvort nauðsynlegt sé nú, þegar öllu er á botninn hvolft, að grípa til nokkurra þeirra ráðstafana, er gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og allar hafa óhjákvæmilega í för með sér meiri og minni óþægindi og skerðingu lífskjara fyrir fleiri eða færri þegna þjóðfélagsins.“

Og enn fremur segja þeir svo á bls. 72:

„Eins og viðhorfið er orðið nú, telur nefndin óhjákvæmilegt, að nokkrar byrðar verði lagðar á launastéttirnar og á bændastéttina í sambandi við festingu þá á launum og afurðaverði, sem hún telur nauðsynlega. Þar með er vitanlega ekki sagt, að þessar stéttir einar eigi að bera kostnaðinn við lausn dýrtíðarmálsins.“

Þetta var nú þá — á meðan kommúnistar enn þá sátu í ríkisstjórn. — ekki gat núverandi stjórn, sem ekki var orðin til, skapað þetta ástand.

Einn af þessum hagfræðingum var frambjóðandi kommúnista í síðustu alþingiskosningum, Jónas Haralz.

Þegar þessar staðreyndir allar saman, sem nú hafa nefndar verið, eru athugaðar, þá undrast menn það blygðunarleysi, sem fram kemur hjá kommúnistum, sem sátu í ríkisstjórn áður en núverandi stjórn tók við, þegar þeir halda því fram, að núv. stjórn hafi skapað gjaldeyrisskort og búið til kreppu. Mætti þó fleira til tína af sama tagi.

Þeir halda ef til vill, kommúnistar, að þjóðin meti það við þá, að þeir hafa stofnað til þessa og hlaupið svo burt frá öllu saman, þegar afleiðingarnar fóru að verða auðsæjar og erfiðleikar að berja að dyrum.

Það væri einnig full ástæða komin til þess að krefjast þess af kommúnistum, að þeir gerðu grein fyrir, hvað þeir voru að gera í ríkisstjórn þessi tvö ár, sem þeir voru þar, og að hverju leyti ástandið, sem þeir hafa átt sinn þátt í að skapa, hefur orðið til hagsbóta fyrir alþýðustéttirnar, sem þeir þykjast bera fyrir brjósti.

Þetta, sem nú hefur verið sagt um það, við hverju tekið var, ætti að duga til þess að sýna, að núv. ríkisstjórn hefur ekki skapað erfiðleikana. hvorki viljandi né óviljandi.

Kemur þá að því, hvort stjórnin hafi nú þegar læknað sjúklinginn, sem hún tók við. Því er ekki hægt að svara játandi, en með réttu tel ég, að segja megi, að starfið í þá átt hafi verið hafið, og kem ég að því síðar.

Áður vil ég víkja enn að kommúnistum og furðulegum kenningum þeirra um það, að ríkisstjórnin hafi ekki viljað selja afurðir landsmanna fyrir hæsta verð og að óþarft sé að hafa áhyggjur af hinum gífurlega háa framleiðslukostnaði Íslendinga og fjármálaöngþveitinu, þar sem auðvelt sé að selja alla framleiðslu landsmanna fyrir nægilega hátt verð til þess að bera kostnaðinn og lækna fjármálaöngþveitið.

Aftur hljóta menn að undrast, hversu lítið forkólfar kommúnista meta dómgreind manna, — eða hafa þeir haldið, að þeim yrði sleppt við að gera grein fyrir þessum fullyrðingum sínum frammi fyrri þjóðinni? — Dettur þeim í hug, að nokkur maður með fullu viti taki svona órökstuddar fullyrðingar sem góða og gilda vöru? Og halda þeir, að þeir geti komizt hjá því að gefa glöggar upplýsingar um, við hvað þeir eiga með hinum gífurlegu ásökunum sínum í sambandi við afurðasölumálin? Kommúnistum hefur reynzt gersamlega um megn, sem vonlegt er, að finna þessum fullyrðingum sínum stað. Hvar átti að selja vörur landsmanna hærra verði síðastliðið ár en gert var og með hvaða aðferðum? Hvar eru þessir nýju markaðir fyrir næsta árs framleiðslu, sem þeir sífellt tala um?

Það hefur verið upplýst hvað eftir annað, að allt hefur verið gert, sem í mannlegu valdi hefur staðið, ekki einungis af valdhafanna hendi, heldur allra þeirra, sem fást við sölu á íslenzkum afurðum, til þess að selja framleiðsluvörur Íslendinga fyrir sem hæst verð. Og samt hefur ekki verið mögulegt að selja þær fyrir framleiðslukostnaði. Það liggur skjallega fyrir frá mönnum úr öllum flokkum, að kaupendur hafa yfirleitt ekki viljað greiða það verð, sem Íslendingar hafa sett upp fyrir vörur sínar og þurfa að fá að óbreyttum framleiðslukostnaði. Og þar að auki liggur það fyrir, að keppinautar Íslendinga ekki aðeins geta selt fyrir lægra verð en Íslendingar, heldur gera það.

Vilja kommúnistar ekki gera grein fyrir því, hvers konar viðskipti og samningagerðir þeir eiga við, þegar þeir tala um þessa sölumöguleika, sem enginn þekkir?

Hvað er það, sem ísl. þjóðin ætti að láta í kaupbæti með fiskafurðum að dómi kommúnista og ætti að gera það að verkum, að einhverjar þjóðir keyptu af þeim hærra verði en aðrar þjóðir bjóða sömu vöru?

Ætli útvegsmönnum og mörgum fleirum sé ekki í of fersku minni þvaður kommúnista um afurðasöluhorfur á síðastliðnu hausti og svo á hinn bóginn reynslan á þessu ári, til þess að menn vilji gera út bátaflotann og sjálfa þjóðarskútuna upp á fleipur nokkurra ofstækismanna og skýjaborgir? Menn eru nú sennilega búnir að fá nóg af skýjaborgum að sinni.

En þá kemur upp spurningin: Hvers vegna gera kommúnistar sig að viðundrum með þessu fleipri um markaði og markaðsverð, sem þeir geta þó ekki bent á? — Það getur ekki stafað af öðru en því, að forkólfar kommúnista vilja ekki, að viðreisn takist.

Ef kommúnistar viðurkenndu staðreyndir, þá yrðu þeir að taka undir með hagfræðingi þeirra eigin flokks, sem strax í fyrra sagði, að ástandið væri orðið þannig, að allir yrðu einhverjar byrðar að taka til þess að forða öngþveiti fullkomnu.

En nú er það hlutverk kommúnista að koma í veg fyrir það, að menn sameinist um að þrengja að sér í bili til þess að bjarga frá öngþveiti, og þess vegna neita, þeir bara staðreyndum og búa til ævintýrið um markaðina.

Hversu gjarnan vildu menn ekki mega trúa því, að afurðirnar gætu selzt svo hátt, að menn gætu haft jafngóðar tekjur og stríðsárin. Þetta vita kommúnistar, að þessu vildu menn mega trúa, — því þá ekki að sigla djarft og byggja málflutning sinn bara einfaldlega á einni höfuðlýgi, sem menn svo gjarnan vildu að væri sönn? Bara að vera nógu „kaldur“.

Tilgangurinn er hvort sem er aðeins sá að fá menn til þess að koma í veg fyrir væntanlegar bjargráðaframkvæmdir stjórnar og þings núna í haust og vetur. Takist það, er merkum áfanga náð og þá koma tímar og þá koma ráð, — þá má snúa við blaðinu. — Hafa þeir ekki reynslu fyrir því, að það sé óhætt, — hafa þeir ekki sellurnar og kjarnann, herta menn, sem hafa þolað allt, sem þeim hefur verið boðið upp á fram að þessu, eða svona hér um bil allt?

Ef tilgangur kommúnista væri sá að hjálpa til að finna réttar leiðir með gagnrýni og tillögum, þá mundu þeir ekki halda fram þessum augljósu staðleysum, en ræða í þess stað eins og menn um það, hvað gera ætti.

Það er vafalaust einn megintilgangur leiðtoganna, sem dá „austrænt lýðræði“, þ. e. a. s. flokkseinræði, að það sýni sig, að það sé ekki hægt að leysa mikinn vanda eins og þann, sem ísl. þjóðin er í, eftir leiðum vestræns lýðræðis.

Þá kemur hitt, að kommúnistar telja sig víst eiga mikið undir því, að það sýni sig ekki, að hægt sé að leysa stórmál nema eftir þeirra höfði. Fyrir þessu verði allt að víkja og það eigi að reyna að eyðileggja framkvæmdir allar, sem þeir ekki hafa lagt blessun sína yfir, — þeir vilja fá eins konar einræðisvald með ofsa sínum.

Síðast en ekki sízt vakir það án efa fyrir leiðtogum kommúnista að koma í veg fyrir viðreisnarátakið, vegna þess að þeir vilja, að hér komi til enn frekara öngþveitis en enn þá er orðið. Telja að þannig skapist jarðvegur fyrir þau þjóðfélagsátök, sem þeir vilja, að verði jarðvegur fyrir valdatöku þeirra.

Af þessum ástæðum verða kommúnistar í reyndinni talsmenn andvaraleysis, upplausnar og kreppu með kjarabætur og auðjöfnun á vörum.

Neikvæðir, úrillir, stóryrtir og ofsafengnir stuðla þeir að því enn, að þjóðin fljóti sofandi að feigðarósi í þeirri trú, að þeirra — forkólfanna — hlutur komi upp, ef þeim tekst að koma í veg fyrir viðréttingu nú.

Auk þess eru kommúnistaforkólfarnir alveg sýnilega bundnir af pólitík annarra slíkra flokka og þá meðal annars bundnir því að vinna að því að hnýta Ísland við Austur-Evrópu, pólitískt og fjárhagslega, hvað sem það kostar, en meginþorri Íslendinga vill komast hjá því að hnýta sig aftan í einn eða annan.

Það er alveg augljóst, að ef ekki verða gerðar stórfelldar ráðstafanir til bjargar, þá heldur sjávarútvegurinn áfram að dragast saman. Nú þegar liggur fjöldi fiskibáta víðs vegar um landið, en markaðurinn bíður í Bretlandi fyrir afla þeirra, ef þeir stunduðu veiðar. Framhald af þessu verður alger stöðvun fiskiflotans. Gjaldeyrisskorturinn er nú þegar orðinn svo ægilegur, að ekki sér fram úr því, hvernig hægt verður að afla allra brýnustu nauðsynja næstu mánuðina. Verði enn haldið áfram án stórfelldra ráðstafana, þá kemur að því alveg á næstunni, að hingað fæst ekki til landsins matur, ekki byggingarefni, og ef svo fer, heldur atvinnuleysið innreið sína.

Það ætti hverjum manni að vera augljóst, eins og nú er komið, að ómögulegt er að komast hjá því að minnka kröfur sínar um tíma, til þess að rífa sig upp úr feninu.

Hlíti menn forsjá kommúnistanna og skerist úr leik um þetta og takist að koma í veg fyrir, að menn geri þetta nú, þá verða menn samt sem áður að herða að sér síðar, og það miklum mun meira en þeir þyrftu að gera, ef samtök fást um þá stefnu að gera það nú strax.

Spurningin er því sú, hvort menn vilja viðreisnina áður en atvinnuleysið og skorturinn hafa haldið innreið sína, eða hvort menn vilja berja höfðinu við steininn og hefja ekki viðreisnarstarfið fyrr en menn hafa þolað atvinnuleysi og skort og þannig er komið fjárhag þjóðarinnar, að miklum mun meira þarf að leggja að sér en nokkru sinni fyrr til þess að komast upp á bakkann, ef það yrði þá auðið, eins og þá yrði komið.

Ég hef þá trú á dómgreind manna og manndómi, að ég trúi því ekki, að nokkur maður eða kona utan þess hóps, sem gersamlega hefur glatað allri heilbrigðri dómgreind og skynsemi og tekið blinda ofsatrú í pólitískum efnum, taki sem góða og gilda vöru það, sem kommúnistar leggja til málanna í þeim vanda, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.

Ég trúi því ekki öðru en samtök fáist um skynsamleg úrræði.

Þá kemur að því, hvað ríkisstjórnin hefur aðhafzt til þess að vinna gegn vandanum, og að fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum, hefur hún beitt sér eindregið að viðnámi gegn dýrtíðinni og vexti verðbólgunnar, en kommúnistar hafa gert allt, sem þeir hafa getað, í sömu stefnu og áður, til þess að auka verðbólguna. Starf stjórnarinnar er mjög torvelt og ekki sízt fyrir það, að eftir voru að koma fram í aukinni dýrtíð afleiðingar af ýmsu því, sem áður hafði verið gert, og einnig vegna þess, að kommúnistum tókst að brjóta skarð í stöðvunarvegginn í sumar með atbeina þeirra, sem þeim vildu fylgja.

Þá hefur ríkisstjórnin með stofnun fjárhagsráðs unnið að því að koma í veg fyrir allsherjar stöðvun framkvæmda vegna efnisskorts og skorts á fjármagni og unnið að því að nota sem skynsamlegast þann litla gjaldeyri, sem til hefur fallið og ekki hefur þurft að ganga til greiðslu á áður leyfðum innflutningi. Það er vitanlegt, að ráðstafanir til viðnáms verðbólgunni og stofnun fjárhagsráðs hafa komið allt of seint og hitt er einnig ljóst, að það, sem búið er að gera, er aðeins byrjunin og kemur ekki að haldi, nema framhald verði og öflugar ráðstafanir gerðar til þess að lækna sjúkt fjárhagslíf þjóðarinnar, tryggja það, að framleiðslan geti gengið með fullu fjöri.

Raddir hafa heyrzt um það, að væri stjórnin sköruleg, þá hefði hún átt að leggja fram tillögur um úrlausn vandans í þingbyrjun. Það verður að horfast í augu við það, að samsteypustjórnir, sem margir flokkar styðja, geta aldrei unnið eins hratt og þær ríkisstjórnir, sem styðjast við samstæðari öfl. Þetta er stórfellt mein, en fram hjá þessu verður ekki komizt, eins og flokkaskipan er hér á landi. — Þetta hefur m. a. orðið þess valdandi, að ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar seinna en þurft hefði að vera, og þetta veldur sífellt töfum.

Þá verða menn einnig að gera sér það ljóst, að þess var engin von, að ríkisstjórnin gæti eða vildi leggja fyrir þingið, strax og það kom saman, ákveðnar tillögur um úrlausn þess mikla vanda, sem framundan bíður óleystur, og það blátt áfram vegna þess, að leiðirnar gátu ekki orðið ákveðnar nema í samráði við sjálfa þingmennina, sjálfa þingflokkana, þá menn, sem þjóðin hefur kosið til þess að leysa vandann.

Hér er einnig um svo stórfelldar ráðstafanir að ræða, að það verður að samstilla öll öfl, sem unnt er að fá til þess að vinna saman, um þessar úrlausnir. — Þess vegna hefur stjórnin einnig kallað saman ráðstefnu stéttanna, sem ekki er enn þá lokið, til þess að fulltrúar þeirra gætu sagt sitt álit, og stjórnin hefur haft menn undanfarið við þann starfa að safna gögnum þeim, sem þurfa að vera fyrir hendi, þegar leiðirnar eru ákveðnar. Þetta verða menn að hafa í huga til þess að geta dæmt með nokkurri sanngirni um vinnubrögð stjórnarinnar og þingsins í þeim stórfellda háska, sem þjóðin er stödd í.

Það er eðlilegt, að menn geri kröfur um skjótar ráðstafanir, því að margir sjá hið stórfellda tjón, sem verður daglega fyrir það, að við höfum ekki leyst framleiðsluna úr álagahamnum, og margir þekkja af daglegri reynslu alla þá niðurlægingu og skaða, sem yfirfærslustöðvun veldur, enda verður að hraða ákvörðunum svo sem frekast er kostur.

Að lokum þetta. Það er enginn kostur góður til úrlausnar því öngþveiti, sem orðið er. Það hlýtur alltaf svo að fara, að einhverjum finnist sér óréttur ger í sambandi við aðra. — Verðbólgan og fjármálaöngþveitið er búið að skapa slíkt misrétti, að það er ekki hægt um vik að laga það í einni svipan. Og misréttið verður sennilega aldrei leiðrétt til fulls.

Þetta skilja flestir, en samt er það krafa sanngjarnra manna, að um leið og allir leggja nokkuð að sér, þá leggi þeir sérstaklega til, sem stríðs- og verðbólgugróðann hafa hlotið, og að í sambandi við úrlausn vandans verði gerðar ráðstafanir, sem marka spor og tryggja raunverulegar umbætur í þeim málum, sem flestir sjá að þurfa umbóta við.