14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Menn hafa nú heyrt málflutning hv. 2. þm. Reykv. og geta sjálfir dæmt um, hvort hv. þm. hefði ekki getað flutt þessa plötu, sem honum hefur verið lögð í munn, strax í upphafi. Það er sami söngurinn og vant er: Afneitun allra staðreynda. Ómengaður áróður, lapinn eftir alþjóðaáróðri kommúnista.

Í einni slíkri kommúnistískri heimild suður í löndum var í sumar m. a. sagt um ástandið á Íslandi: „Verzlunarjöfnuður Íslands, sem hafði verið hagstæður fyrir stríðið, varð þá óhagstæður, og skuld landsins við Bandaríkin varð smám saman veruleg fjárhæð. Á þennan veg óx einnig fjárhagsleg undirokun Íslands gegn Bandaríkjunum.

Við stríðslokin réð fjármagn Bandaríkjanna öllum þýðingarmiklum atvinnugreinum á Íslandi. Ísland skuldaði þá í útlöndum, að langmestu leyti í Bandaríkjunum, 60 millj. króna, sem er mjög há upphæð fyrir lítið land.“

Menn sjá skyldleikann milli þessarar fræðslu og þeirrar, sem áðan vall upp úr hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni.

Í öllum orðum hv. þm. kom einkum fram, hvernig hann reynir að forðast umr. um þá tillögu, sem hann hefur sjálfur flutt.

Hann fullyrðir, að ég vilji ekki semja við Rússa. Það hefur engin áhrif á hann, þó að aldrei hafi verið gerð eins rækileg tilraun og nú til að ná samningum við Rússa. Þeir hafa og gert við okkur mikilsverða samninga, sem eru að efni alveg hliðstæðir þeim hluta brezku samninganna, sem um sömu vörur fjallar, og borga Rússar að öllu samanlögðu nær nákvæmlega sama verð og Bretar. En til viðbótar samningunum um þessar vörur höfum við svo okkar bezta markað, sem sé fyrir ísfiskinn í Bretlandi. Þann markað vanmetur hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, gersamlega, þó að öllum megi vera ljóst, að hann er hinn mikilvægasti af öllum okkar mörkuðum. Ekki virðist þó standa á hv. 2. þm. Reykv. að láta þann markað fara út um þúfur, ef hann mætti ráða.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, fann að því, að Lúðvík Jósefsson hefði verið látinn hverfa úr samninganefnd utanríkisviðskipta. Það er eins og vant er, þá er fyrst komið við hjartað í þeim flokksmönnum, þegar hreyft er við vegtyllum eða bitlingum flokksbroddanna.

Um Lúðvík Jósefsson er það að segja, að honum var sýndur sérstakur trúnaður af ríkisstjórninni, þegar hann var sendur til samninga í Englandi. Hann starfaði þar með öðrum samningamönnum og sagði ríkisstjórninni, að náð hefði verið þeim beztu samningum, sem unnt var. Þrátt fyrir þessa ráðleggingu hefur hann síðan gengið fram fyrir skjöldu til að rógbera stjórnina fyrir að fylgja ráðum sjálfs hans.

Manninum var gefið færi á að bæta ráð sitt, en þegar sýnt var, að hann hélt uppteknum hætti á kommúnistíska vísu, var auðvitað óhjákvæmilegt að létta af honum þessu mikilvæga trúnaðarstarfi.

Ég held, að hv. þm. hefði ekki átt ótilneyddur að taka upp umræður um Keflavíkurflugvöllinn. Frammistaða hæstv. fyrrv. flugmálaráðh., Áka Jakobssonar, í sambandi við flugmálin öll er með þeim hætti, að flokksbræður hans munu áður en varir flýja frá þeim umræðum á sama veg og menn sáu til Einars Olgeirssonar hér í kvöld. Um Keflavíkurflugvöllinn mun bráðlega birtast skýrsla, og munu þá sannast blekkingar Þjóðviljans og Áka Jakobssonar um það mál, þar sem þessir aðilar hafa meðal annars skrökvað því upp, að flugvallarnefndin hafi samið og sent tillögur, sem hún aldrei hefur tekið afstöðu til, hvað þá meira.

Frásögn hv. þm. um samninga við gjaldeyrissjóðinn er gersamlega úr lausu lofti gripin. Það eru hrein ósannindi eins og svo margt annað, sem þessi þm. hefur sagt á síðari tímum.

Ég hef heldur aldrei hótað atvinnuleysi. Það er aðeins eitt dæmi ósanninda þessa hv. þm., alveg sams konar eins og að ég sé meðeigandi í ísl. fiskhring eða Unilever-hringnum brezka, eins og hv. þm. gaf í skyn í Þjóðviljanum fyrir skömmu.

Einar Olgeirsson hefur nú farið um landið endilangt til að skrökva því upp, sem hann endurtók í kvöld, að ég hafi hindrað sölu á hraðfrystum fiski til Tékkóslóvakíu á þessu ári. Þessu til sönnunar á það að vera, að samningar við Tékka hafi dregizt.

Sannleikurinn er sá, að þegar núv. stjórn tók við völdum fyrri hlutann í febrúar s. l., hafði fyrrv. stjórn ekki gert ráðstafanir til, að samningar yrðu teknir upp við Tékka að nýju, jafnvel þó að vitað væri, að þeir rynnu út þá í mánaðarlokin. Sjást þess hvergi merki, að fulltrúar hv. Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins í ríkisstjórn hafi þá hvatt til þess, að þeim samningum yrði hraðað, en auðvitað var það skylda hæstv. þáv. atvmrh., Áka Jakobssonar, að undirbúa þessa samningagerð, að því er varðaði sölu sjávarafurða, sem hann hafði með höndum.

Kom það og á daginn, þegar um þetta var rætt í utanríkismálanefnd 10. febr., skömmu eftir að núv. stjórn hafði tekið við, að allir flokkar, ekki síður fulltrúar Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins en aðrir, voru þá sammála um, að eðlilegt væri að fresta samningum við Tékka, þangað til lokið væri samningum við Rússa, vegna þess að fyrr væri ekki sýnt, hversu mikið yrði aflögu af þeirri vöru, sem Tékkar helzt óskuðu að fá, en ekki sízt fulltrúar Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins vildu umfram allt láta Rússa ganga fyrir öðrum um þær vörur sem aðrar. Um þetta ber fundargerð utanríkismálanefndar 10. febr. s. l. órækt vitni.

Það varð því að samkomulagi, að Pétri Benediktssyni sendiherra var falið að fara til Prag og fá samninginn við Tékka framlengdan. Náðist samkomulag um þá framlengingu, en vegna þess að samningarnir við Rússa stóðu lengur en búizt hafði verið við, voru Tékkar sjálfir ekki reiðubúnir til nýrrar samningsgerðar í sumar, þegar samningunum við Rússa var lokið. Varð það til þess, að samningurinn var enn framlengdur til 1. okt., enda eru nú hafnir samningar að nýju með góðu samkomulagi beggja ríkja.

Ef dráttur þessi hefur komið að sök, ber hv. þingmönnum Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistafl. sízt að saka aðra um hann. Drátturinn er bein afleiðing þeirra háu hugmynda, sem einmitt þessir þm. vöktu hjá mönnum um möguleika til sölu á íslenzkum afurðum í Rússlandi, en því miður fengu ekki staðizt.

Það eina, sem leggja má öðrum til lasts, er yfirleitt að leggja nokkurn trúnað á orð manna eins og hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar. En til þess eru vítin að varast þau.

Hitt er svo annað mál, að fresturinn á fullnaðarsamningum hefur alls ekki orðið til þess að hindra sölu á íslenzkum afurðum til Tékkóslóvakíu. Tékkar hafa að vísu keypt minna af hraðfrystum fiski en við hefðum vonað. En allan þennan tíma hafa verið í gildi samningar við Tékkóslóvakíu, sem gera ráð fyrir ríflegri sölu af fiski til þeirra. Ástæðan til, að Tékkar hafa keypt minna af fiski en menn hafa vonað, er auðvitað ekki sízt hið háa verðlag okkar.

Þeir menn, sem mestan hafa kunnugleikann og sjálfir hafa samið við Tékka, segja þó, að það sé ekki eina ástæðan. Í skýrslu sinni frá 22. júlí segir Pétur Benediktsson:

„Það, sem mestum erfiðleikum veldur um viðskipti við Tékkóslóvakíu, er það, að Tékkum þykir við kaupa of lítið af þeirra vörum.“

Einar Sigurðsson segir í stórmerkri skýrslu, sem hann hefur sent 30. sept.:

„En versti þröskuldurinn í sambandi við innflutning á frosna fiskinum til Tékkóslóvakíu er afstaða tékkneska þjóðbankans. Vegna óhagstæðs greiðslujafnaðar milli Íslands og Tékkóslóvakíu hefur bankinn hvað eftir annað dregið á langinn veitingu gjaldeyrisleyfa, þrátt fyrir það innflutningsmagn. sem heimilað er í verzlunarsamningum milli landanna. Til að bæta úr því virðist um fáar leiðir að ræða aðrar en að auka innflutninginn frá Tékkóslóvakíu, ef Íslendingar vilja hagnýta sér þennan markað til hins ýtrasta“.

Það er sem sagt landsbankavaldið í Tékkóslóvakíu, sem er versti þröskuldurinn, en ekki hin slæma ríkisstjórn í Íslandi.

Nú er sannleikurinn sá, að það, sem gerir Tékkum fært að kaupa af okkur fiskinn, þrátt fyrir okkar háa verðlag, er það, hversu hátt verðlag er í þeirra eigin landi. Verð á ýmsum vörum þaðan er þess vegna mun hærra en fyrir þær er hægt að fá annars staðar að, og það, sem verra er, að til skamms tíma hefur vöruúrval verið þar lítið og afhendingarfrestur langur.

Reynslan er ólygnasta vitnið. Á meðan við áttum nægan frjálsan gjaldeyri og unnt var að kaupa þar, sem kaupin voru hagkvæmust, var erfitt að beina viðskiptum til Tékkóslóvakíu, þrátt fyrir eftirrekstur Landsbankans íslenzka um að nota innistæðuna, sem sjálfsagt hefur verið rækilega stutt af Hauki Helgasyni og Einari Olgeirssyni, sem þá voru mikils ráðandi um innflutninginn.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert gagngerðar ráðstafanir til að auka innflutning frá Tékkóslóvakíu. M. a. hefur hún tvisvar á þessu ári sent einn gerkunnugasta mann í innflutningnum, dr. Odd Guðjónsson, fyrrv. formann viðskiptaráðs, til Tékkóslóvakíu í því skyni að greiða fyrir innflutningi þaðan og afla sér heimilda um, hverjar vörur þar er hægt að kaupa.

Við framlengingu samninganna í sumar tóku Tékkar vel í það að heimila okkur kaup ýmissa vörutegunda, sem við höfðum ekki fengið áður, og er það skoðun kunnugustu manna, að vörukaupin frá Tékkóslóvakíu megi töluvert auka frá því, sem verið hefur.

Núv. ríkisstj. lætur sér auðvitað hvergi bregða, þótt hv. Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistafl. saki hana um athafnaleysi og illvilja, þegar hún er einmitt ötullega að vinna að því að ryðja braut þeim hindrunum, sem staðið hafa í vegi þessara viðskipta. Háttur valdamanna í hinum virðulega flokki er einmitt þessi.

Sjálfir hafa þeir tekið fullan þátt í öllum þeim aðgerðum, sem þeir gagnrýna, svo sem samningunum við Breta og Rússa á s. l. vori og frestun fullnaðarsamninga við Tékka.

Lúðvík Jósefsson og Ársæll Sigurðsson gerðu engar athugasemdir gagnvart ríkisstj. um, að þeir teldu brezku eða rússnesku samningana varhugaverða, heldur fullyrtu þeir þvert á móti berum orðum, að þeir samningar, sem að lokum voru gerðir, væru þeir hagkvæmustu, sem unnt væri að ná. Á sama veg höfðu Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Ársæll Sigurðsson ekkert að athuga við frestun Tékka-samningsins, þegar hún var ákveðin á fundi utanríkismálanefndar hinn 10. febr. s. l.

Allt er þetta auðvelt að sanna, en engu að síður halda hv. forsprakkar Sameiningarfl. alþýðu, sósíalistafl. áfram ósannindum sínum í þeirri trú, að einhverjir verði til að trúa ósómanum, ef hann er nógu oft endurtekinn. En málsvarar sannleikans mega ekki vera svo værukærir, að þeir telji eftir sér að leiðrétta ranghermið, þó að það sé sí og æ endurtekið.

Þetta á ekki síður við t. d. um skipti okkar við Frakkland heldur en Tékkóslóvakíu. Núv. ríkisstj. hefur aldrei hindrað, að til Frakklands væru seldar fiskafurðir, sem innflutningsleyfi þar hefur þegar verið fengið fyrir, svo sem þessir hv. þm. sí og æ fullyrða.

Þvert á móti hefur ríkisstj., eins og skylda hennar að sjálfsögðu var, beitt sér fyrir að fá framlengda gengistryggingu á frankanum, til þess að geta greitt fyrir áframhaldandi sölum til Frakklands.

Hitt liggur í augum uppi, að sama varan verður ekki seld til margra landa í senn. Það, sem búið var að binda í samningum við einn, verður ekki á meðan þeir samningar eru í gildi selt öðrum, allra sízt þegar ekkert liggur fyrir um, að sá vilji kaupa. — Þetta er augljóst mál, sem allir skilja, jafnvel hv. þm. Sameiningarfl. alþýðu, sósíalistafl., ef þeir vildu beita því viti, sem þeir, þrátt fyrir allt, eru gæddir.

Núverandi ríkisstjórn hefur eftir föngum, eins og þegar er sagt, greitt fyrir sölum til Frakklands og til Ítalíu. — Nú standa yfir samningar við Holland, sem eftir atvikum virðast vera mjög hagkvæmir.

En gallinn á skiptum við öll þessi lönd er sá, að ekkert þeirra vill borga hinn hraðfrysta fisk okkar í frjálsum gjaldeyri. Öll heimta þau jafnvirðiskaup svonefnd, eða clearing-viðskipti, og öll vilja þau láta okkur fá þær af þeirra vörum í staðinn, sem sízt eru seljanlegar fyrir frjálsan gjaldeyri. Það eru þessar leifar, sem við verðum að hirða. af því að hið háa verðlag knýr okkur til jafnvirðiskaupa.

Geta okkar litla þjóðfélags, einkum þegar svo er statt sem nú, er hins vegar mjög takmörkuð til að taka á móti þessum vörum. Eitt af verkefnum Parísarráðstefnunnar var það að reyna að eyða þessum annmörkum jafnvirðisviðskiptanna, og er haldið áfram viðleitni í þá átt. Ef árangur yrði af því, mundi það mjög létta fyrir okkur þessi viðskipti.

En vöruverðið er einnig mjög hátt í öllum þessum löndum, einkum á þeim vörum, sem jafnvirðiskaupin ná til. Þá hef ég og öruggt dæmi þess, að sams konar vara keypt með bundnum gjaldeyri í einu þessara landa er 3–4 sinnum dýrari en ef hún er keypt frá Bandaríkjunum. Þessar þjóðir skortir frjálsan gjaldeyri, og eru dæmi þess, að sömu vörurnar eru helmingi ódýrari í frjálsum gjaldeyri en í jafnvirðiskaupum, sem miðast við innlenda mynt þeirra. Þar sem svo er, getur því borgað sig betur að selja afurðir okkar fyrir býsna miklu lægra verð, ef greiðsla fæst í dollurum og að vissu marki í pundum, og geta þá valið um, hvort við kaupum nauðsynjar í þessum löndum eða annars staðar, þar sem verðið kann að vera enn þá lægra.

Þetta þekkja allir, sem einhvern kunnugleika hafa af þessum málum, hv. þingmenn Sameiningarfl. alþýðu, sósíalistafl. sumir ekki síður en aðrir. En af hverju halda þeir þá áfram þessum áróðri sínum?

Ástæðurnar fyrir því get ég því miður tímans vegna ekki rakið að þessu sinni. Hitt er augljóst, að ef stefnu þeirra er fylgt, er ekki nema þrennt fyrir höndum.

Eitt er það, að atvinnuvegirnir, og einkum bátaútvegurinn, leggist algerlega niður um sinn, þangað til hinn bitri lærdómur reynslunnar hefur kennt mönnum, að ekki verður hjá því komizt að láta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar bera sig. En sá lærdómur mundi ekki fást fyrr en eftir langt tímabil atvinnuleysis, fátæktar og eymdar.

Annar möguleikinn er sá, sem hv. Sameiningarfl. alþýðu, sósíalistafl. lætur skína í, að sé það, sem fyrir þm. hans vakir, að andvirði vöru okkar sé bætt upp á erlendum mörkuðum með annarlegum verðmætum, þ. e. a. s., að við högum stjórnmálum okkar á þann veg, að aðrar þjóðir vilji gefa meira verð fyrir fiskinn, til að kaupa þá breytingu á innanlandsmálum okkar.

Þriðji möguleikinn er sá, að reynt verði að halda við núverandi fyrirkomulagi með lántökum enn um sinn. Nauðsynleg lán til þess mundu áreiðanlega verða vandfengin.

Eftirtektarvert er, að frændur okkar Danir hafa fyrir skömmu tekið 40 millj. dollara lán. Þetta þótti svo mikil lántaka, jafnvel þótt til endurreisnarstarfs væri, að fregn um hana var símuð víðsvegar um heim. Ef við tækjum tilsvarandi lán, mundi það ekki verða nema rúm millj. dollara, eða 7–8 millj. króna. Mega allir sjá, hversu lengi okkur dygði slík lántaka og hversu heillaríkt væri að verja þó ekki meira fé en því í óseðjandi hít verðbólgunnar.

En jafnvel þó að miklu stærra lán væri fáanlegt, er greinilegt, að afleiðing þess yrði einungis sú, meðan fjárhagsástandið er ekki breytt frá því, sem nú er, að við á skömmum tíma mundum festast í skuldafeni, sem við ættum erfitt með að losa okkur úr.

Auðvitað getur orðið óhjákvæmilegt að taka lán, og stundum getur það beinlínis verið skynsamlegt. En hitt er stórhættulegt, að taka lán, sem fyrirsjáanlega er ekki hægt að borga.

Núverandi ríkisstjórn vill fyrir alla muni forðast, að þannig fari fyrir okkur, á sama veg og hún vill eindregið berjast á móti hinum tveim afleiðingunum af stefnu hv. Sameiningarfl. alþýðu, sósíalistaflokksins.

Það er að vísu rétt, að þessir möguleikar verða ekki hindraðir nema því aðeins, að Íslendingar, þjóðarheildin, takmarki eyðslu sína frá því, sem verið hefur. En það má ekki gerast með því og á ekki að gerast með því, að byrðarnar verði eingöngu lagðar á einstakar stéttir, heldur verða þar allir að taka þátt í, hver eftir sinni getu.

Slík þrenging lífskjaranna er auðvitað ekki æskileg, þvert á móti, en þó er mönnum ekki boðið upp á nein hörmungarkjör. Nú þegar síldveiðarnar hafa brugðizt, verða gjaldeyristekjurnar þó h. u. b. 300 milljónir króna. Á árunum fyrir stríð voru þær 50–60 milljónir. Útlenda varan hefur að vísu hækkað, en hvergi nærri sem þessum mismun nemur.

Á þeim tímum, er aðrar þjóðir keppa að því að koma málum sínum í ekki lakara horf en þau voru fyrir stríðið, verður að segja, að þau kjör Íslendinga, að geta haft það svona miklu betra en fyrir stríðið, eru vissulega ekki kröpp. Allra sízt þegar á það er litið, hvað okkar bíður, ef þessi kostur verður ekki valinn. Þá er ekkert annað framundan en sá ófarnaður, sem stefna Sósíalistaflokksins hlýtur að leiða til og áður var lýst.

Menn verða þess vegna að átta sig á, að hér er ekki aðeins um að ræða fjárhagsleg atriði. Það, sem við nú eigum að taka ákvörðun um, er, hvort við eigum með hærri kröfum en efni standa til að tefla málum okkar í það horf, að eitt af þrennu biði okkar: fjárhagslegt öngþveiti, sala stjórnmálalegs frjálsræðis eða ósjálfstæði, sem leiðir af botnlausum skuldum.

Íslenzka þjóðin mun vissulega ekki velja neinn af þessum kostum. Núlifandi kynslóð mun ekki fara þannig með hinn dýra arf, sem henni hefur hlotnazt. Hún mun ekki ofurselja frjálsræði sitt á fyrstu árum hins endurreista lýðveldis, heldur mun hún haga málum sínum svo, að við getum skilað landinu í hendur eftirkomenda okkar alfrjálsu og með blómlegri efnahag en nokkru sinni áður.