29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3290)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það voru þrjú eða fjögur atriði, sem mér fannst ástæða til að taka til meðferðar. En hæstv. utanrrh. hefur minnzt á sum þeirra, svo að ég get farið fljótt yfir sögu, enda geri ég ráð fyrir, að menn séu orðnir saddir á þessum umr.

Hv. þm. Siglf. beindi því til mín, að ég hefði gerzt nokkuð harðorður í garð þess manns, sem hafði verið flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvellinum, og að mér bæri að bæta þar úr, sem ég hefði ofsagt. Ég kannast ekki við að hafa neitt ofsagt í þessum efnum. Skal ég færa rök að því. Ég hef engan sérstakan áhuga fyrir að blanda inn í umr. því að tala um þennan mann, en af því að hv. þm. Siglf. var með ásakanir í minn garð, kemst ég ekki hjá því að minnast á þetta.

Það mun hafa verið síðast í apríl eða fyrst í maí s. l., að einn Ameríkumaður, sem hafði nokkuð með að gera rekstur þarna á Keflavíkurflugvellinum, spurði mig, hvernig á því stæði, að ekki væru innheimt lendingargjöld fyrir flugvélar á flugvellinum. Ég kom þá eins og af fjöllum, því að ég stóð í þeirri trú, að sá starfsmaður, sem þar átti hlut að máli og átti að gera þetta, hlyti að hafa framkvæmt þetta, þar sem hann hafði ekki tilkynnt ráðuneytinu um það, að neinar hindranir væru í vegi fyrir þessari innheimtu eða að nokkuð væri athugavert um það atriði. Ég talaði þá við fulltrúa minn í ráðuneytinu og bað hann að athuga, hvort þarna væri eitthvað í ólagi, og fyrirskipaði, að ef svo væri, skyldi kippa þessu í lag. Það kom þá á daginn, að það höfðu engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu þessa embættismanns, flugvallarstjórans, til þess að innheimta þessi gjöld. Og þá skrifaði þessi embættismaður á flugvellinum ráðuneytinu bréf, þar sem hann segist ekki hafa innheimt þessi gjöld vegna þess, að hann hafi ekki fengið þær upplýsingar, sem hann hefði þurft, frá þeim amerísku aðilum, sem hann hefði snúið sér til. En það er fyrst eftir að ráðuneytið er búið að frétta þetta á skotspónum frá hinum aðilanum og eftir að fulltrúi í ráðuneytinu er búinn að fá fyrirskipun um að rannsaka þetta, að embættismaður þessi á flugvellinum álítur ástæðu til að láta ráðuneytið vita, að hér sé ekki allt í lagi. Svo segir hv. þm. Siglf., að ráðuneytið hafi ekki rækt sína skyldu, þegar þessi embættismaður á flugvellinum hefði ekki getað komið fram þessari innheimtu. En undireins og ég fékk þetta bréf frá flugvallarstjóranum, óskaði ég eftir, að fulltrúinn í ráðuneytinu, sem þetta heyrir undir, sem á líka sæti í flugvallanefnd, tæki þetta mál upp í flugvallanefnd og sæi um, að það kæmist til réttra aðila, að þessar upplýsingar ættu að gefast án tafar, ef þær hefðu ekki þegar verið gefnar. Þetta var svo tekið upp í flugvallanefnd. Síðan var það tekið upp í amerísku nefndinni, þar sem það var fullyrt, að ekki væri rétt, að móti því hefði verið staðið að veita þessar upplýsingar. Og til þess enn betur að sjá um að kippa þessu í lag talaði ég við fulltrúa flugmálastjóra og fól honum að fara suður á flugvöll og kippa þessu í lag með þessum manni, flugvallarstjóranum, því að mér sýndist sem samvinnan þar syðra mundi ekki vera á marga fiska, hverju sem um það er að kenna. Fulltrúi flugmálastjóra tók þetta að sér. En 1. júlí var ekki búið að skrifa út neinn reikning fyrir lendingargjöldum. Það var ekki gert fram til í júlí og ekki fyrr en búið var að koma lagi á rekstur flugvallarins. — Ég tel því, að ráðuneytið hafi gert fullkomlega þær ráðstafanir, sem því bar að gera, eftir að það fékk upplýsingar um, að þetta var í ólagi þarna á vellinum, en að það hafi verið furða, hve mikill seinagangur þarna átti sér stað af hendi þess starfsmanns, sem átti þarna að ganga fram fyrir skjöldu og sjá um innheimtu á þessum gjöldum. — Ég skal svo ekki fara út í önnur atriði um starfsmann þennan þarna suður frá, nema alveg sérstakt tilefni gefist til.

Þá vil ég víkja að öðru atriði, sem hæstv. utanrrh. að vísu er búinn að víkja að áður. Það er þetta um gjaldskrána. Mér kom það ákaflega spánskt fyrir, þegar ég tók við starfi flugmrh. og varð þess var, að ekki var búið að setja neina gjaldskrá fyrir flugvélar, þar sem það átti að gerast í nóvember eða desember árið áður. En það kom í ljós, að þetta hafði ekki verið gert. Og í ljós kom, að þetta hafði ekki verið gert vegna þess, að þáverandi flugmrh. (þ. e. í nóv. og des. f. á.) Áki Jakobsson, sem nú talar hér hástöfum og gengur eftir, að allt sé gert í þessum málum svo fljótt — hann var að þvælast með þetta mál alla þessa mánuði, frá því í október og þangað til í febrúar, án þess að þetta væri leitt til lykta. En eitt einfaldasta atriðið í starfi flugvallarstjóra, skilst mér, að það hefði verið að setja þessa gjaldskrá fyrir viðkomur flugvéla. Samanborið við ýmis atriði, sem fólgin eru í samningnum, þá er þetta atriði svo óendanlega einfalt. En samt var það þessi hetja, sem var ráðh. yfir þessu allan þennan tíma, sem ekki kom þessu í lag. Og afleiðingarnar af því og þessum seinagangi, sem var á málunum hjá þessum embættismanni á flugvellinum, voru, að þessu var ekki kippt í lag, fyrr en búið var að fá innheimtu á allstórum fjárhæðum.

Þá vil ég aðeins víkja að einu atriði enn, því, hversu margir íslenzkir starfsmenn hafi verið teknir til starfa inn á Keflavíkurflugvöllinn. Hv. þm. Siglf. sagði, að málið mundi hafa verið tekið upp á ný, þegar svipan hefði verið tekin upp. Og svipan er víst þessi þáltill., sem hér liggur fyrir til umr. En þetta mun vera a. m. k. allmikill misskilningur hjá honum, en þó sennilega annað verra, því að þessu er ekki þannig farið. Sannleikurinn er, að meðan þeir menn, sem hv. þm. Siglf. sem ráðh. setti til að fara með þessi málefni, höfðu þau með höndum, þá var reynslan sú, að það var ekki hægt að fá neitt gert í þessu efni, ekki hægt að koma skrið á neitt í þessum efnum og þótt um það væri talað, gerðist ekki neitt. Og það var ekki fyrr en þeir nýju menn, sem settir voru í þetta, tóku við — en það dróst allt of lengi að skipta um menn þarna —, að eitthvað fór að gerast í þessu efni. Og var þar við ramman reip að draga, vegna þess ólestrar, sem var í flestum greinum þessara mála, stjórnar flugvallarins, þegar hv. þm. Sigl. skildi við þau, sem síðar mun nánar að vikið. Það vantaði ekki, að það væri talað um, að það þyrfti að gera eitt og annað í þessum efnum. En það komst aldrei skriður á neitt af því í framkvæmdinni, meðan hv. þm. Siglf. var flugmrh. En, eins og hæstv. utanrrh. tók fram, er þátttaka Íslendinga í störfum á flugvellinum ekki komin í það horf, sem þarf að vera. Sumpart er það af því, að hörgull er á mönnum til þess að halda fram til þessara starfa, og sumpart stafar þetta af því, að ekki hefur verið unnið að þessu með nægilega miklum þunga, og er þar örlagaríkt, að þá mánuði, sem hv. þm. Siglf. fór með þessi mál sem ráðh., þá verður ekki séð a. m. k., að neitt hafi verið gert til þess að koma skrið á þessi mál. Nú hefur hv. þm. Siglf. tekið þann kostinn að segja, að Erling Ellingsen flugmálastjóri segi það ósatt, að ekki hafi verið til meðal Íslendinga tæknilega menntaðir menn, til þess að íslenzkir menn taki að sér þjónustu í flugturninum í Keflavík. Ég býst við, að flugmálastjóri hafi álitið, að við hefðum svo mikið með þessa tæknilega menntuðu menn að gera annars staðar, að við hefðum ekki menn í þessa turnþjónustu. Hitt er svo annað mál, hvort Erling Ellingsen flugmálastjóri hefur rétt fyrir sér í því, að við þurfum svo marga tæknilega menntaða menn á þessu sviði annars staðar, að ekki sé hægt að binda slíka menn við starf á Keflavíkurflugvellinum. En það er atriði, sem ekki verður rætt hér. — En ennþá eru málin ekki komin í það horf, að það vinni eins margir íslenzkir menn á Keflavíkurflugvellinum og æskilegast væri og ætti að vera. En það eru vonir til þess, að þetta geti færzt í betra horf en verið hefur, og það er verið að vinna að því.

Að svo miklu leyti sem ég gat skilið hv. þm. Siglf. — en það var erfitt að skilja sumt af því, sem hann sagði, því að það var nokkuð þvælulegt, sem hann sagði í dag, þá skildist mér hann tala um það, að eitt af þeim atriðum, sem hann gagnrýndi, væri að of mikið hefði verið lagt í kostnað til öryggismála við millilandaflug, án þess að það hefði verið endurgreitt af alþjóðasamtökum í því efni. (ÁkJ: Það er misskilningur.) Mér skildist þetta. En ég ætlaði að upplýsa um þá öryggisþjónustu, sem haldið er uppi vegna þessa flugs, að það hefur verið lögð mikil vinna í að innheimta þann kostnað frá alþjóðasamtökunum. En það er ekki búið að borga þetta ennþá, og liggur ekki fullljóst fyrir, hvernig það muni ganga, þó að undirtektirnar hafi verið þannig, að maður verði að líta svo á, að það verði útkoman, að þetta verði greitt. Og Íslendingar eiga fullkomna kröfu á, að þetta verði greitt. Og það er ómögulegt fyrir okkur að halda uppi þessari þjónustu, ef þessi kostnaður verður ekki endurgreiddur. Ef hann verður ekki endurgreiddur, verður frá íslenzku sjónarmiði að draga þessa þjónustu saman eins og mögulegt er. En meðan eins stendur og nú, m. a. með tilliti til undirtekta Bandaríkjamanna og alþjóðaflugsamtakanna, þá verðum við að vona, að þetta komist í lag bráðum. — En ef við athugum, hvernig hv. þm. Siglf. tók á þessum málum, meðan hann sem ráðh. hafði aðstöðu til þess að hafa áhrif á sum atriði þeirra, þá er mikil ósamkvæmi í því annars vegar og þess hins vegar, hvernig hann talar hér nú og fjargviðrast um seinlæti hjá núverandi valdhöfum í þessum efnum, sem ég hef greint, bæði viðkomandi setningu gjaldskrárinnar. ráðningu íslenzkra manna til starfa á flugvellinum o. fl. En að þessum tveimur málum, sem ég nú nefndi, virðist eðlilegt, að hv. þm. Sigl. sem ráðh. starfaði á sínum valdatíma, þó að hann væri ekki utanrrh. En það var ekki starfað að þessum málum af honum þannig a. m. k., að nein niðurstaða væri fengin um þessi atriði, þegar hann fór frá völdum. Hann telur, að orðið hafi að bíða eftir að heyra, hvað Ameríkumenn hefðu að segja um þetta. Það er nú svo. En nú stendur hann upp og ásakar núverandi ríkisstj. fyrir, að ekki er tafarlaust skipað öllum þessum málum með reglugerð og það þrátt fyrir það, að augljóst er, að Bandaríkjamenn hafa skýlausan samvinnurétt eftir flugvallarsamningnum um þau atriði, sem hv. þm. Sigl. deilir á ríkisstj. fyrir að hafa ekki skipað einhliða með reglugerð. Þetta er einföld aðferð, sem hv. þm. Siglf. viðhefur í þessum efnum til þess að gera sig merkilegan. En ég efast um, að gagnrýni af þessu tagi reynist þessum hv. þm. til svo mikils álitsauka eins og hann kann að halda.

Ég gat um það áðan, að mér sýndist, eftir þeim gögnum, sem ég hef þar um, að stjórn þessa hv. þm., sem fyrrv. ráðh., á flugvellinum væri ekki til fyrirmyndar. Þetta verður bráðum betur upplýst. En þar hefur átt sér stað gífurleg fjáreyðsla og vanstjórn að mínum dómi. Og það hefur verið geysimikið verk fyrir þá, sem tóku sæti í flugráði, að fyrir hinn nýja flugmálastjóra ríkisins að henda reiður á því, hvernig ástatt hefur verið í þessum málum og reyna að fara þar ýmislegt í lag. T. d. nefni ég, að eftir þeim gögnum, sem ég hef fengið, virðist mér mega spara stórlega mannahald frá því, sem verið hefur víð rekstur Keflavíkurflugvallarins. Ég nefni ekki tölur í því sambandi í dag. En bráðum mun koma í ljós, að þar verður um mjög mikinn sparnað að ræða frá því, sem var í ráðherratíð hv. þm. Siglf., í einni eða fleiri greinum, þar sem sukkið gekk úr hófi fram í hans ráðherratíð.