29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3293)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. var að tala um það, að þegar hann hefði verið flugmrh., eftir að samningurinn tók gildi, hefði staðið öðruvísi á um framkvæmd flugvallarsamningsins en nú, af því að herlið hefði þá verið á flugvellinum. Þetta er rétt, en að öðru leyti stóð nákvæmlega á eins og nú, bæði um setningu reglugerða og gjaldskráa. Fyrrv. utanrrh. (ÓTh) skipaði flugvallarn. 7. nóv. í fyrra, vegna þess að þá var orðið aðkallandi að sjá fyrir rekstri vallarins af Íslands hálfu. Skömmu síðar var settur flugvallarstjóri, og það var hv. þm. Siglf., þáverandi flugmrh., sem skipaði þennan mann og, sýndi þar með — sem rétt var —, að þá voru Íslendingar búnir að taka við yfirstjórn þessara mála. Bréfaskiptin, sem ég vitnaði í, fjölluðu um það, að þessi flugvallarstjóri var að finna að því, að Bandaríkjamenn hefðu ekki viljað borga gjöldin á þessum tíma, sem hann áleit þá skylduga til. Það er fyrst nú, að ég heyri, að þessar reglur hafi ekki átt að koma til framkvæmda fyrr en í aprílmánuði, — en hvernig stóð þá á því, að hr. Erling Ellingsen flugmálastjóri tók upp þetta mál í flugvallarn. þann 12. nóv. um setningu gjaldskrár, hafði þá frv. tilbúið og sagði, að það hefði dregizt svo mjög að fá frv. afgreitt frá Bandaríkjamönnum, ef þessar reglur áttu ekki að taka gildi og koma til framkvæmda fyrr en í apríl? Það er því greinilegt, að staðhæfingar hv. þm. Siglf. fá með engu móti staðizt. Það er sannað og upplýst, að allar þessar reglur áttu að koma í gildi, um leið og flugvallarsamningurinn var gerður, eða svo fljótt sem unnt væri.

Ræða hv. þm. Siglf. sýndi berlega, að hún var undansláttur frá upphafi til enda. Þannig hefur þetta mál snúizt algerlega við. Það var borið fram sem illgjörn árás á núverandi ríkisstj., en hefur snúizt upp í þungan áfellisdóm yfir þessum hv. þm. og hans mönnum. Með þessu hefur verið reynt að sá fjandskap milli okkar og Bandaríkjamanna, það hefur verið tilgangur hans frá upphafi.