29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hafa nú haldið 9 ræður í þessu máli, þar af hefur hæstv. utanrrh. talað fimm sinnum, svo að þm. hafa varla komizt að með ræður.

Þessi hæstv. utanrrh. skoraði á mig að nefna dæmi þess, að lýðræðisríki hefðu gerzt árásarríki. Ég nefndi honum dæmin í dag, svo að nú veit hann ekkert, hvað hann á að segja. Hann hefur opinberað slíkt hugmyndaleysi og þekkingarleysi á sögu utanríkismálanna og almennri sögu, að ósköp eru til þess að vita, og þessi maður er utanrrh. Íslands.

Svo kom hæstv. ráðh. með það, að Bandaríkin hefðu nú reynzt svo góð, að þau hefðu sætt sig við það, að við neituðum þeim um herstöðvar til 99 ára. Þau sættu sig ekki við það, þau frestuðu aðeins kröfum sínum fram yfir kosningar hér á landi, og þá fengu þau það, sem þau vildu, og hæstv. utanrrh. hjálpaði þeim til þess.

Ráðh. talaði um sömu hættu af Reykjavíkurflugvellinum og flugvellinum í Keflavík. Það er rétt, að það þarf að sprengja þá báða, ef hægt er að bjarga Íslandi með því. En við verðum að ráða því sjálf, hvað gert er, en hæstv. ráðh. stuðlar að því, að við höfum sjálf ekki ráðin, heldur yfirþjóðin. Þetta skapar hættuna. Það þýðir ekki að reyna að snúa sig út úr því með lélegum lögfræðikúnstum.

Þegar ráðh. var að bera við að verja lögbrot sín í sambandi við framkvæmd Keflavíkursamningsins, sagði hann, að enginn mundi geta gert sér grein fyrir því, hve erfitt væri að framkvæma ýmislegt þar að lútandi. Nú, er það svo? Þegar frv. um, að ákvæði Keflavíkursamningsins um aðflutningsgjöld o. fl. skyldu öðlast gildi, var hér í þinginu í desember í fyrra, skilaði ég minnihlutaáliti í fjhn., þar sem ég lagði til, að málinu væri vísað frá með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá: „Með því að d. álítur það heppilegast til þess að tryggja og varðveita fullan rétt íslenzka ríkisins við framkvæmd samningsins við Bandaríki Ameríku frá 7. okt., að gerðar séu skýrar og ótvíræðar breytingar í undanþáguformi á hverjum þeim íslenzkum lögum, sem undanþágur beri að gera við vegna samnings þessa, en eigi löggilda í einu lagi tvíræð og óljós ákvæði, ályktar d. að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“ Markmið þessarar rökst. dagskrár var greinilega það að tryggja rétt Íslendinga við framkvæmd samningsins. En þessa dagskrá gekk hæstv. núverandi utanrrh. manna bezt fram í að fella, og nú kvartar hann um, að það sé svo ótrúlega erfitt að framkvæma samninginn. Hættan við að samþykkja það frv., sem ég nefndi áðan, var augljós íslenzkum hagsmunum, og nú hefur líka komið á daginn, hvernig hæstv. utanrrh. hefur haldið og heldur á þessum málum.

Og hæstv. ráðh. sagði, að Bandaríkin hlytu eftir ákvæðum samningsins að hafa sjálfstæðan tollinnflutning á Íslandi. Það er dómsmrh. Íslands, er þannig talar. Hann hefur ekki reynt að bera á móti þeim rökstuðningi mínum, að samkvæmt þessum samningi er aðeins um að ræða tollfrelsi á nauðsynjum þess hluta liðsins í Keflavík, sem þarf að vera þar til að halda uppi samgöngum við Þýzkaland, eftir því sem Ísland ákveður. Á þessum samningi eiga Íslendingar að standa, en hæstv. utanrrh. svíkst um það og dirfist að koma fram með það, að Bandaríkin eigi að hafa frjálsan og sjálfstæðan tollinnflutning hér. Er þetta málflutningsmaður Bandaríkjanna eða dómsmrh. Íslands, er þannig talar? Bandaríkjamenn eiga ekki rétt á meira en samsvarar einum tíunda hluta af nauðsynjum þess liðs, sem nú er í Keflavík. Það þarf ekki nema einn tíunda hluta af því til að halda uppi þeim samgöngum við Þýzkaland, sem um er talað í flugvallarsamningnum.

Ég hef nú bent á fjölmörg íslenzk lög, sem hæstv. utanrrh. og ríkisstj. láta viðgangast, að séu brotin suður á Keflavíkurflugvelli, t. d. tollalöggjöfina, skattalöggjöfina, lög um fjárhagsráð, lög um skattskyldu útlendinga, lög um tóbakseinkasölu ríkisins, lög um áfengiseinkasölu ríkisins o. s. frv. Svo er það þessi hæstv. utanrrh., sem á að standa á verði um hagsmuni, réttindi og lög Íslands. Og svo neitar ráðh. því. að hann sé samsekur um smygl. En hefur hann ekki látið viðgangast, að 16 þúsund kassar af bjór væru fluttir inn, án þess að greiddur væri af þeim tollur í síðasta mánuði? Þetta var gert með vitund hans. Ég vil taka það fram, að ég er ekki að bera lögbrot á stjórn Bandaríkjanna, það er ekki hennar að sjá um, að íslenzk lög séu haldin. Ég er að bera það á ríkisstj. Íslands, að hún láti þessi lögbrot viðgangast, og nú koma fylgismenn hennar hér og reyna að verja smán hennar með því að bera fram þessa rökst. dagskrá, sem hér er nú komin fram, og vísa málinu þannig frá, svo að við getum ekki kallað viðkomandi embættismenn fyrir og yfirheyrt þá um það, hvað þeim hefur verið fyrirskipað. Það á að löggilda hér lögbrotin. Hæstv. utanrrh. treystist ekki til að svara neinni ásökun minni. — Ég skal hætta, herra forseti.