29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það kom nú úr hörðustu átt, er hv. 2. þm. Reykv. var að kvarta um það hér áðan, að hann kæmist ekki að. Hann hefur nú talað í 7 eða 8 klukkustundir við þessa einu umr., og í dag talaði hann töluvert á aðra klukkustund. En ég held, að það hefði nú verið betra fyrir hann að tala heldur færri orð, það hefði þá kannske eitthvað verið hlustað á hann. Þetta er aðeins leiðbeining til hv. þm., sem hann gæti íhugað fyrir framtíðina.

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. Siglf., sem kom mér til að kveðja mér hljóðs í þetta skipti, en í leiðinni ætla ég að minnast á það, sem hann sagði, að það væru hinar mestu blekkingar, að 19 Íslendingar ynnu tæknileg störf á Keflavíkurflugvellinum. En flugvallarstjóri ríkisins sagði mér, að þau störf, sem þessir 19 menn vinna, væru kölluð teknisk störf á öllum flugvöllum. Hitt er svo annað mál, að ráðning þessara manna er aðeins byrjun þess, sem þarf að verða, þessum mönnum þarf að fjölga, og sé hér um nokkra vanrækslu að ræða, þá á hv. þm. Siglf. áreiðanlega bróðurpartinn af henni. Varðandi störf Íslendinga í flugturninum í Keflavík getur hv. þm. lesið það í flugvallarskýrslunni, að ástæðan til þess, að þeir vinna þar ekki, er sú, að okkur vantar hæfa menn til þess ennþá.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Siglf., að Bandaríkjamenn ráði olíuverzluninni í Keflavík. Íslenzka ríkið á olíugeymana og ræður verzluninni, og hún fer um hendur íslenzks olíufélags. Það hefur verið íhugað að gefa öllum kost á að hafa vöru sína þar á boðstólum, en á því eru tekniskir örðugleikar, það er nefnilega ekki nema ein leiðsla að geymunum, eins og hv. þm. eflaust veit, og því er erfitt að skipta þessu niður. Ef menn vilja hins vegar kaupa olíu af öðru félagi, þá fá menn að kaupa hana annars staðar frá.

Að endingu kem ég að því, sem ég stóð upp til að minnast á. Hv. þm. Siglf. hefur komið með hinar fáránlegustu afsakanir í sambandi við það, að hann lét dragast, meðan hann var ráðh., að setja gjaldskrá eða reglugerð á Keflavíkurflugvellinum. Ég vænti þess, að það séu einhverjir hér inni, sem heyrðu hv. þm. segja það í ræðu sinni í dag, að vegna þess að þáverandi utanrrh. (ÓTh) hefði sagt, að hann þyrfti að tala við bandarísk yfirvöld, áður en þessi reglugerð væri sett, hefði hann (þ. e. a. s. hv. þm. Siglf. og þáverandi atvmrh.) beygt sig fyrir því, og þess vegna hefði dregizt að setja reglugerðina. En nú er þessi hv. þm. alveg kominn í sjálfheldu og veit ekki, hvernig hann á að snúa sig út úr þessu. Nú er hann orðinn tvísaga, því að nú sagði hann aftur í kvöld, að ekki hefði verið tímabært að setja reglur eða reglugerð um flugvöllinn, fyrr en herinn væri farinn. Hér er hv. þm. algerlega orðinn tvísaga, en allt um það kemst hann ekki í kringum það, að hann lét þessar ráðstafanir undir höfuð leggjast, á meðan hann var ráðh., þær ráðstafanir, sem hann átti að gera.