29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (3297)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði áðan, að hér hefðu verið haldnar langar ræður. Ég held, að það hafi sízt verið vanþörf á því, þegar önnur eins vanþekking kom í ljós og hjá hæstv. utanrrh., að leiða hann í allan sannleika. Og þegar önnur eins embættishneyksli eiga sér stað og hjá hæstv. dómsmrh., þá er full ástæða til að athuga það. Það hefur því ekki veitt af löngum ræðum. Hingað til hefur utanrrh. kvatt sér hljóðs á eftir hverri einustu ræðu, sem hefur verið haldin af hálfu stjórnarandstöðunnar, og nú fær hann enn málið, af því að hann veit, að ég er dauður eftir þessa ræðu. Ég hef greinilega sýnt, að hann heldur stöðugt lengra á lögbrotaleiðinni í sambandi við framkvæmd þessa samnings, og ennþá hefur hann t. d. ekki fengizt til að ganga inn á það með einu orði, að tollfrelsi Bandaríkjamanna í Keflavík nái aðeins til eins tíunda hluta þess liðs, sem þar dvelst nú, en samkvæmt samningnum er ekki um neitt tollfrelsi að ræða fyrir níu tíundu hluta þessa liðs, aðeins fyrir þá menn, sem þarf til að halda uppi samgöngum við hernámssvæðin í Þýzkalandi. Hins vegar talar utanrrh. um það, að Bandaríkjamenn hafi sjálfstæðan tollinnflutning hér. Þetta þýðir það, að ráðh. er að afsala mjög mikilvægum réttindum landsins, innflutningnum, í hendur erlendri þjóð, á sama tíma sem hann lætur brjóta lög og þorir ekki að tala um það. Hins vegar þykist ég vita, að hann láti nú flytja hér lagafrv. til að lögleiða lögbrotin, af því að Bandaríkjamenn heimta það. Það á að fara að láta Ameríkumenn ráða hér, þegar lögbrot þeirra eru orðin svo mörg og augljós, að ekki verður við ráðið, þá eru þau bara löggilt. Svo lágt leggst þessi ríkisstj. Það verður nú gaman að sjá, hve margir hv. þm. taka á sig ábyrgðina af þessari löggæzlu með því að breyta um skoðun og hverfa frá því að láta þetta mál ganga til nefndar og halda áfram að auka það tvíbýli, sem hér hefur verið komið á og er íslenzku þjóðinni stórhættulegt.