27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

10. mál, dýrtíðarvarnir

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég álít viðeigandi að ræða lítils háttar meira um þetta mál, áður en frá því er gengið. Og vil ég beina nokkrum fyrirspurnum bæði til hv. frsm. n. og hæstv. forsrh.

Þar sem hv. frsm. segir, að það sé til nokkuð af upplýsingum, sem hér um ræðir, í stjórnarráðinu, þá vil ég gjarnan vita, hvernig þær upplýsingar eru og hve mikið yfirleitt þær lúta að lausn málsins og hvort ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að birta þær til fróðleiks um málið. Enn fremur vil ég gjarnan vita hjá hæstv. forsrh., hvort hann ætlar sér að sinna þessu máli, þ. e. láta afla jafngreinilegra upplýsinga og hér er talað um, eða hvort það er meiningin að eyða málinu og láta ekkert út af því koma. Það kemur meira við hæstv. ríkisstj. heldur en öðrum mönnum í landinu, ef ekkert en gert í þessu máli. Vil ég benda á og óska skýringa um það hjá hv. frsm., sem ég tel verulega miklu varða í meðferð þessa máls, líka hjá n. Það er sagt í till., sem er nú sennilegt, að ríkisstj. muni vera fús að afla fleiri gagna um þetta efni. En það er ekki sagt hjá n., að þessi plögg verði birt, og ekki er heldur hægt að sjá, að ríkisstj. hafi áhuga á að birta þessi plögg. — En það vita allir, að vegna dýrtíðarmálanna er það, að þingið er nú búið að standa í tvo mánuði án þess að gera nokkuð, sem kemur af því, að fyrir okkur hér, og reyndar fleiri, flækist þetta mál, hvernig við eigum að klifa niður þann stiga, sem við höfum fetað upp áður, verðbólgustigann. Og sama ástæðan var til þess, að Alþ. stóð í 9 mánuði í fyrra og var haldið svo langt, af því að þing og stjórn réðu ekkert við dýrtíðina. En hvað hefur þessi stjórn gert í þessu máli? Ég bar fram sams konar till. og þessa í fyrra. Og hvernig stóð á, að hv. allshn. stakk því máli undir stól og það kom aldrei fram aftur? Mér var þá sagt utan nefndarstarfa, að því væri borið við. að hagstofustjóri hefði átt svo annríkt, að hann gæti ekki útvegað þessi plögg. Nú virðist þetta gegna furðu, þegar svona stendur á, að þingin eru haldin í allt að 9 mánuði vegna dýrtíðarinnar, og þegar þannig er, eins og var í haust, að hæstv. fjmrh., sem vitanlegt er, að er dugnaðar- og greindarmaður, verður að bíða mánuð í haust eftir að leggja fjárlagafrv. fram, af því, hvernig ástatt er í dýrtíðarmálunum, og þegar hann leggur fjárlagafrv. fram, segir hann þingi og þjóð, eins og rétt er, að það sé ekkert að marka þetta fjárlagafrv., heldur sé það lagt fram til að fullnægja kröfum stjórnarskrárinnar.

Nú er ég hissa á, að hv. allshn. skuli ekki vera hræddari við þetta mál, dýrtíðina, heldur en svo að setjast á málið í fyrra, sem ég bar fram um þetta efni. og sitja á því í margar vikur nú og leggja svo til, að því verði vísað til stjórnarinnar með mjög loðnum ummælum. Það er mín skoðun, og ég hygg, að það megi færa rök fyrir því, að ekkert sé hægt betra að gera í þessu máli heldur en nú vita, hvernig dýrtíðin er hjá þeim næstu nábúum, sem við eigum að keppa við, hvernig rætur dýrtíðarmálanna eru þar, því að þegar Norðmenn geta framleitt fisk og selt helmingi ódýrar heldur en Íslendingar, þá þarf ekki nema meðalgreinda menn til að sjá, að það eina, sem okkur skiptir í þessu er þetta: Hvernig fara Norðmenn að lifa og geta selt þannig fiskinn? Og hvernig verður okkar afkoma, þegar mesta hungursplágan er hjá liðin úti í löndum, ef við þurfum að selja framleiðslu okkar hærra verði heldur en okkar aðalkeppinautar? Nú er þjóðin í vandræðum með að fá vörur frá Ameríku, og við höfum hins vegar vöru, sem hægt er að selja í Ameríku, þ. e. hraðfrysta fiskinn. En ástæðan til þess, að hann er ekki seldur þar, er, að hann er dýrari heldur en annar hraðfrystur fiskur, sem er vegna dýrtíðarinnar hér. Það hafa meira að segja komið fyrir þau undur, að hæstv. Alþ. gerði þá ályktun, sem ég hygg einstæða, að taka ábyrgð á söluverði á mjög miklum hluta af fiskframleiðslu landsmanna. Þetta var gert fyrir vonleysi í þessum málum af þeim, sem að því stóðu. Fleiri en einn þm., sem stóðu að þessu í fyrra, hafa játað, að þeir óski þess, að þeir hefðu ekki greitt atkv. með því, en það var neyðin, sem rak þá áfram. Ég vil nú beina því til hæstv. forsrh., að í því landi, sem hann þekkir bezt, Svíþjóð, þar kostaði ein af þeim nauðsynjavörum, sem bæjarfólk verður að nota, 25 af því, sem hún kostaði á Íslandi í fyrra sumar. Við hér í Reykjavík verðum vegna dýrtíðar að kaupa vissa nauðsynjavöru 75% dýrari heldur en fólk í Stokkhólmi gerir.

Það er engan veginn mitt verkefni að leiðbeina stj. en ég er viss um, að umr. um þessi mál eru miklu þarfari heldur en umr. um Keflavíkurflugvöllinn og um ölið. Ríkisstj. hefði þurft að hafa með höndum glöggar skýrslur um það, hvernig dýrtíðin er í næstu löndum, hvernig kaupgjaldið er, hvernig launin eru, skattarnir o. s. frv., ekki eins og nú er lagt til af n., að slíkar skýrslur væru aðeins gefnar þm. og stjórnarráðinu, heldur væru þær gefnar landslýðnum yfirleitt. Ég skil ekki, hvernig hv. 2. þm. Skagf. getur dottið í hug sem frsm. í n., að upplýsingar eigi að vera til fyrir þm. Þeir, sem þurfa að fá upplýsingar, það er fólkið í landinu, sem er að berjast við dýrtíðina, við erum þess hjú og eigum að gera það, sem það vill. Hvers vegna er ekki hægt að lækna dýrtíðina? Það er af því, að fólkinu er ekki sagt satt, og í því sambandi er engin vitneskja eins nauðsynleg og aðstaðan í löndunum í kringum okkur, þar sem vörurnar eru framleiddar miklu ódýrari, og það setur okkur í vandræði daglega. — Ég vil segja það við hv. frsm., að ég get ekki greitt atkv. með þessari till., þó að mitt atkv. breyti ekki neinu, vegna þess að meðferð n., að svæfa málið í fyrra og að vísa nú til þess, að það eigi að útvega einhverjar upplýsingar, sem stj. þóknast, — ég tel þá meðferð sýna fullkomið skilningsleysi n. Það, sem þarf að gera, er að fá upplýsingar og láta alla borgara landsins vita um það — og taka svo ákvarðanir.