27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

10. mál, dýrtíðarvarnir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Sþ. beindi þeim tilmælum til ríkisstj., þar sem mikils af þeim gögnum, sem um getur í þáltill. á þskj. 10, hefði verið aflað, hvort ekki væri rétt að þau gögn væru birt. Ríkisstj. hefur nokkuð fylgzt með, hvað snertir verðvísitölu, dýrtíð og niðurborganir í þessum löndum, sem hv. þm. er sérstaklega að ræða um, svoleiðis að það eru til nokkrar upplýsingar um launakjör starfsmanna. En ég álít fyrir mitt leyti, að þær upplýsingar, sem ég hef átt kost á að kynna mér um þessi atriði, séu þess eðlis, að þær gefi ekki nægilegar upplýsingar til þess að draga af þeim ályktanir um ástandið hér á landi, og það þyrfti að fá nánari upplýsingar til þess að geta dregið nokkrar ályktanir, sem að gagni mættu verða sem ráðstafanir af hálfu Íslendinga eða íslenzks löggjafarvalds í þessum málum.

Ég tel, að það sé rétt að reyna að alla margra þeirra frekari upplýsinga, sem rætt er um í þessari till., og tel rétt, að ríkisstj. geri það einnig með samþykkt þeirrar rökst. dagskrár, sem fyrir liggur frá allshn. Hitt er svo annað mál, að það er nokkuð örðugt að vinza úr þeim upplýsingum, því atvinnurekstur, þjóðlíf og þjóðhættir í þessum löndum eru á margan hátt talsvert ólík því, sem er hér á landi, og til þess að gera um þetta samanburð þyrfti að fara allnákvæmlega yfir ýmis gögn, til þess að hægt væri að draga af þeim réttar ályktanir. Þau gögn, sem liggja nú fyrir, gefa að mínu áliti ekki ástæðu til þess, að þau verði birt á þessu stigi, en ég tel, að ef gagna væri aflað, sem ég tel rétt. þá væri fullkomin ástæða til þess, að þau væru birt síðar meir, eins og það er orðað, fyrir alþm. og líka fyrir allri þjóðinni, að svo miklu leyti sem Alþ. þætti til þess ástæða, og hefðu þm. það þá nokkuð í sinni hendi, á hvern hátt þessar upplýsingar yrðu gerðar þjóðinni kunnar. Það er rétt hjá hv. flm., að dýrtíðin á Norðurlöndum, öðrum en Íslandi og Finnlandi, er miklu minni, m. ö. o. verðbólgan í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er minni heldur en á Íslandi og í Finnlandi, og verðbólgan í Bretlandi er minni heldur en á Íslandi og nokkuð sambærileg við Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Í þessum löndum hefur verið farið inn á nokkuð svipaðar leiðir eins og íslenzka ríkisstj. hefur gert, þ. e. niðurborgun á vöruverði og ýmsum nauðsynjum almennings, og ætla ég, að það komi í ljós, að Norðurlöndin og Bretland eyði ekki minna fé tiltölulega til niðurborgunar á nauðsynjavörum heldur en gert er hér á landi. Það er ein af ráðstöfunum þessara landa til þess að halda svo niðri vöruverði og verðbólgu, að unnt sé að halda við sem allra fullkomnustum og mestum atvinnurekstri. Það er líka aðgætandi varðandi húsaleigu, ef gera ætti samanburð á húsaleigu á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, að þar er yfirleitt hægara um vik með byggingu húsa heldur en hér á landi, þar þarf minna að flytja inn í landið af verðmætum, a. m. k. í Danmörku, Noregi og Finnlandi er nægilegt af timbri til allra bygginga þar í löndum. Í Danmörku er framleitt sement í allstórum stíl. Allt þetta gerir það að verkum, að húsbyggingar í þessum löndum verða ódýrari og nokkuð á annan veg heldur en á Íslandi, svo að hlutfallið milli húsaleigu í þessum löndum og á Íslandi hlýtur alltaf að verða á þá lund, að húsaleiga verði þar frekar ódýrari heldur en hér á landi. Á allt þetta þarf að líta, ef ætti að gera samanburð um þessi málefni yfirleitt.

Ég er þeirrar skoðunar, og þess vegna mundi ég telja rétt að afla þeirra upplýsinga, að Norðurlöndin, Danmörk, Noregur og Svíþjóð, og Bretland einnig, hafi gert margar þær ráðstafanir, sem hafa verið mjög hyggilegar, til að halda niðri verði á nauðsynjavörum og forðast verulega verðbólgu í þessum löndum, og mættu Íslendingar margt af því læra.

Ég vildi þess vegna svara þessari fyrirspurn hv. flm. á þann veg, að þau gögn, sem nú liggja fyrir hjá ríkisstj., eru ekki fullnægjandi til þess að gefa upplýsingar fram yfir þær upplýsingar, sem þegar hafa verið gefnar um verðvísitölu Norðurlanda, og það hefði verið ástæða til þess að athuga það betur á Alþ. Hins vegar vil ég fyrir hönd ríkisstj. taka það fram, að ég tel sjálfsagt, ef rökstudda dagskráin verður samþ., að þá geri ríkisstj. sitt til þess að afla þessara upplýsinga og láta vinna úr þeim, eftir því sem kostur er, og mætti þá draga af þeim þær ályktanir, sem að gagni mættu verða um þær ráðstafanir, sem löggjafarvaldið kynni að vilja gera í þessum málefnum yfirleitt. Þó að gerðar verði á þessu yfirstandandi Alþ. ráðstafanir, sem ég tel nauðsynlegt, til varnar því, að verðbólgan færi í kaf íslenzkan atvinnurekstur, þá er það alveg áreiðanlegt, að það þarf að halda áfram að gera þær ráðstafanir í framtíðinni, sem gætu orðið til þess, að frekari upplýsingar lægju fyrir á seinna stigi þessara mála við meðferð þeirra á Alþ. Þess vegna er það ekki síður nauðsynlegt, að gagna verði aflað og úr þeim unnið, þó að búið sé að gera einhverjar ráðstafanir áður hér á Alþ. Ég geri líka ráð fyrir því, að það verði dálítið örðugt að fá allar þær upplýsingar, sem drepið er á í till., og yrði að vinza úr þeim upplýsingum, sem auðvelt er að fá, og sérstaklega þeim, sem ríkisstj. að athuguðu máli telur, að væru að nokkru verulegu gagni til þess að gera samanburð við staðhætti hér á landi, og draga af því ályktanir.

Hv. frsm. allshn. ræddi um þetta mál við mig einu sinni, meðan málið var í n., og er ég honum fullkomlega sammála um það, að eðlilegasta leiðin sé sú afgreiðsla, sem n. einróma leggur til, og dregur það ekkert úr því, að ríkisstj. afli þeirra gagna, sem unnt er að fá og að gagni mættu verða í þessu máli, og það er hún fús til þess að gera.