05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil engan dóm leggja á þessa till. Hins vegar hef ég leyft mér að flytja við hana brtt. Ég segi ekkert um það, að sjómenn þurfi ekki aukinn kaffi- og sykurskammt, en ef þeir þurfa þess, þá þurfa vegavinnumennirnir að fá slíkan aukaskammt, því að sjómennirnir hafa þó nýmetið, í stað þess sem vegavinnumennirnir verða að lifa á gömlum mat, sérstaklega þegar þeir langtímum saman vinna fjarri mannabyggðum. Þess vegna hef ég borið fram þessa brtt. við þessa þáltill., um að inn í þáltill. bætist „og vegavinnumanna“, þannig að þessi aukaskammtur nái einnig til vegavinnumanna, því að eigi till. rétt á sér gagnvart sjómönnum, þá á hún rétt á sér miklu fremur gagnvart vegavinnumönnum. Hins vegar er ég ekki alveg viss um, að þessi þáltill. eigi að samþykkjast. En sé ástæða til að samþykkja hana vegna sjómanna, þá er sannarlega ástæða til að samþykkja hana gagnvart vegavinnumönnum. Og jafnvel virðist enn meiri ástæða til að samþykkja þennan aukaskammt af kaffi og sykri til vegavinnumanna en til sjómanna, því að vegavinnumenn eru oft að sumrinu að vinna langt frá mannabyggðum, þar sem þeir hafa hvorki nýjan fisk né mjólk.