05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hv. þm. Siglf. um gjaldeyrisleyfi til veiðarfærakaupa get ég aðeins upplýst, að það hefur verið sameiginlegt álit allrar ríkisstj., sem hefur verið borið fram við viðskiptanefnd og ég veit ekki annað en að viðskiptanefnd hafi í höfuðatriðum farið eftir, að gjaldeyrir til veiðarfærakaupa yrði veittur, eftir því sem þörf krefði. Meira hef ég ekki að segja um það út frá þeirri till., sem hér liggur fyrir.

Viðkomandi þeim árangri, sem hv. 11. landsk. taldi sig vera búinn að ná með flutningi þessarar till., þá er alveg eins með þessa till. eins og um verkamannafataskömmtunina, sem hann minntist á líka og taldi sig hafa unnið þrekvirki í sambandi við með því að flytja um það efni till. til þál., að ráðstafanir þær, sem hann taldi, að flutningur þessara till, hafði valdið, voru ákveðnar, áður en till. voru bornar fram, og hefur þetta verið sannað, að því er verkamannafatnaði og verkamannaskóm við kemur. Og alveg eins er um þetta mál, sem hér er til umr., því að þessi aukaskammtur er í gildi, áður en þessi till. kom fram. Ef þessi hv. þm. hins vegar vill skemmta sér með því að halda, að þessi till. og aðrar slíkar, sem hann hefur borið fram, hafi valdið einhverjum straumhvörfum í þessum efnum, — þá hann um það.

En viðkomandi því, sem ég áðan sagði, að ég teldi þessa till., sem hér liggur fyrir, þýðingarlausa, þá vil ég leyfa mér að lesa upp dagskrártill., þar sem lagt er til, að henni verði vísað frá afgreiðslu. Hún hljóðar svo:

„Þar sem fyrir liggja upplýsingar frá skömmtunarstjóra um, að aukaskammtur af kaffi og sykri til sjómanna er veittur eftir því, sem farið hefur verið fram á, og samvinna hefur tekizt um lausn málsins við Landssamband ísl. útvegsmanna, sér Alþingi ekki ástæðu til að gera um málið frekari ályktanir og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“