08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist það hafa komið fram í umr. um þessa till., að ekki hafi verið nauðsynlegt að flytja till., þar sem upplýst er, að sjómenn hafa að undanförnu fengið aukaskammt af þeim vörum, sem þarna er um að ræða, eins og vitanlega var nauðsynlegt og réttlátt að láta þá hafa. Ég tel hins vegar, að það hefði verið ástæða til að flytja till. um það að auka nokkuð úthlutun á þessari vöru til allmargra sveitaheimila. Mér er kunnugt um það, að kaffi- og sykurskammturinn hefur reynzt of lítill á mörgum sveitaheimilum, sérstaklega þar sem heimilisfólk er fátt, en gestakomur tíðar. Í kaupstöðum geta menn farið á veitingahús og keypt þar kaffi og keypt kaffibrauð í brauðgerðarhúsum án þess að afhenda skömmtunarseðla fyrir því. Sveitafólkið hefur hins vegar ekki þessa möguleika, og er þarna töluverður aðstöðumunur, sem þörf væri að jafna. Ég hefði því talið ástæðu til að flytja brtt. við þessa till. eða bera fram nýja till. um nokkra jöfnun á þessum aðstöðumun, sem ég gat um, en eins og nú er ástatt, sé ég ekki ástæðu til að gera þetta, vegna þess að nýlega hefur verið ákveðið af skömmtunaryfirvöldunum að láta nokkurn aukaskammt af þessum vörum nú fyrir jólin, og bætir það úr brýnni þörf sveitaheimila og annarra fyrir þessar vörur. Vegna þeirra ákvarðana sé ég ekki, að þörf sé frekari aðgerða í málinu nú í svipinn. Ég get því fallizt á þá till. til rökstuddrar dagskrár, sem hér liggur fyrir á þskj. 163.