08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var út af þessari rökstuddu dagskrá, sem ég vildi mega leggja fyrir hæstv. viðskmrh. nokkrar spurningar.

Ég gat því miður ekki verið við umr. um þetta mál, sem fram fóru hér áður, en ég hef litið eftir því, hvað um það hefur verið skrifað í blöðum, og sé, að þessi rökstudda dagskrá er í beinu framhaldi þar af. Því er sem sé haldið fram, að sú till., sem hér liggur fyrir um aukinn kaffi- og sykurskammt til sjómanna, sé óþörf, vegna þess að samkomulag hafi fengizt við L. Í. Ú. um afgreiðslu þessa máls, vegna þess að skömmtunaryfirvöldin hafi veitt sjómönnum aukaskammt í þessum efnum. sem farið hefur verið fram á. En ég tók líka eftir því í blaði hæstv. viðskmrh., að þar var sérstaklega talað um aukinn kaffi- og sykurskammt til síldveiðiskipa, sem hér voru nú við Faxaflóa. Vegna þess að mér þykja þessar upplýsingar koma allskakkt heim við réttar staðreyndir í málinu, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það í tilefni af þessari rökstuddu dagskrá hans, hvort það sé tilfellið, að útvegsmenn og sjómenn hafi að undanförnu fengið þann aukaskammt af kaffi og sykri, sem talið er í bréfi skömmtunarstjóra, yfirleitt í sambandi við sjósókn, því að síldarútvegurinn í Faxaflóa er ekki eina atriðið í þessu máli, síður en svo. Þessi till. er ekki eingöngu flutt vegna síldveiðanna, sem nú fara fram í Faxaflóa. Það er almennt um kvörtunarmál þeirra, sem á sjónum eru, að sá aukaskammtur, sem sjómönnum er nú ætlaður, sé of knappur. Mér er kunnugt um það, að í mínu byggðarlagi hefur þessi aukaskammtur þótt algerlega ófullnægjandi, og svo hefur verið farið fram á að fá rýmkun hjá skömmtunaryfirvöldunum, sem vitanlega hafa farið eftir settum reglum og sagt nei þar við. Þegar svo kemur fram rökstudd dagskrá í þessu máli, þar sem gert er ráð fyrir að vísa málinu frá, þegar farið er fram á aukinn kaffi- og sykurskammt, þá get ég ekki sætt mig við það, nema yfirlýsing komi frá hæstv. ráðh. um, að það muni verða gengið inn á þá braut að veita útvegsmönnum og sjómönnum þennan aukaskammt almennt. Þar að auki vil ég benda á það, að L. Í. Ú. er vitanlega enginn samningsaðili í þessu máli, og er því ófullnægjandi að fá samkomulag við það í sambandi við útgerð báta og skipa víðs vegar annars staðar á landinu, og væri fróðlegt að fá að vita, hvers konar samkomulag það er, sem skömmtunaryfirvöldin og L. Í. Ú. hafa gert um aukaskammt til útgerðarinnar yfirleitt, því sé þetta ekki upplýst, þá hlýt ég að vera á móti þessari rökstuddu dagskrá, sem er um það að vísa frá sanngjörnum kröfum um aukinn skammt af þessum vörum til sjómanna og útvegsmanna við þeirra störf.