08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta, sem ég sagði hér á síðasta fundi, þegar þetta mál var hér til umr. Ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. N-M., sagði raunar það, sem ég þarf að segja í þessu máli. Efni hennar var það, að þegar farið hefði verið fram á aukaskammt með fullum rökum, þá hefði verið orðið við þeim tilmælum. og ætlunin er vissulega að halda þeirri stefnu áfram, svo að að því leyti tel ég, að framkoma þessarar tillögu sé algerlega óþörf.

Út af því, sem hv. 2. þm. S-M. sagði hér, þá skal ég svara þeirri spurningu, sem hann bar fram, með því að endurtaka það, sem ég sagði á síðasta fundi, en hann hefur ekki heyrt. Fastur aukaskammtur til sjómanna er um 40–50% af venjulegum skammti, eða 120 g af kaffi á móti 333 g, sem er aðalskammturinn, og 800 g af sykri á móti 1500 g. Auk þessa fasta aukaskammts hefur svo enn verið veittur viðbótarskammtur, 160 g af kaffi og 800 g af sykri, þannig að viðbótarmagnið er rúmlega eins mikið af sykri, en tæplega eins mikið af kaffi eins og frumskammturinn, m. ö. o., skammturinn hefur verið tvöfaldaður. Þó segir meira í þessu bréfi frá skömmtunarstjóra, því að hann segir, að það hafi ekki verið synjað um viðbót þeim, sem hafa farið fram á það og fært fyrir því rök við skömmtunarskrifstofuna, svo að það tilfelli, sem hv. þm. nefnir, að hafi verið synjað um viðbótarskammt, er mér ókunnugt um.

Það er eðlilegt, að Landssambandið komi fram sem heildaraðili fyrir sjómenn, er eitthvað skortir til útgerðarinnar, og sé á verði um hagsmunamál útvegsins, enda hefur það sjónarmið svo oft komið fram og verið viðurkennt, bæði með tilliti til veiðarfæra, salts og fleiri hluta, sem útgerðina varða. Það er því mjög eðlilegt, að L. Í. Ú. komi fram við skömmtunarstjóra sem heildaraðili og tilkynni honum þarfir útgerðarmanna. Ég hef það skriflegt frá skömmtunarstjóra, að L. Í. Ú. hefur boðizt til að koma fram fyrir hönd útgerðarmanna og bera fram óskir þeirra í þessu efni, og skömmtunarstjóri hefur lofað að taka þær til greina, eftir því sem efni standa til, og ég ætla ekki annað en unnt sé að skipa þessum málum á tiltölulega auðveldan hátt án íhlutunar Alþingis.

Hv. 2. þm. S-M. spurði, hvort skammturinn gilti aðeins fyrir síldveiðiskipin, en ég teldi eðlilegt, að þetta gengi jafnt yfir alla sjómenn. Að vísu hafa verið bornar fram sérstakar óskir fyrir síldveiðimenn, en ég tel eðlilegt, að fiskimenn yfirleitt fái fyrirgreiðslu í þessu efni. Ég tel svo að lokum óþarft fyrir Alþ. að gera ályktun um þetta mál.