15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Það væri að sjálfsögðu freistandi að ræða hér það skömmtunarfyrirkomulag, sem tekið var upp frá og með 1. okt., en þar sem það mun verða gert síðar, mun ég ekki gera það.

Samkv. þeim skömmtunarreglum, sem teknar voru upp 1. okt., hefur verið gerð sú ráðstöfun að taka ekkert tillit til þess, að þeir, sem vinna., þurfa að fá meiri föt og skó til sjós og sveita. Menn fá nú föt fyrir 100 kr. og aðeins eina skó í 9 mánuði. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að útskýra, hve fráleit þessi ráðstöfun er. Fyrir 100 kr. getur maður ekki keypt sér nema ein vinnuföt, sjómaðurinn ekki nema eina peysu og kannske eina vettlinga, en þeir, sem t. d. vinna við ketilhreinsun, þurfa einn vinnufatnað á mánuði. Nú kemur í ljós, að það, sem sjómenn nota, peysur og ullarvettlingar, er svo lítið samkv. skammtinum, að þeir geta varla unnið störf sín. Um skófatnaðinn er það að segja, að verkamaður þarf a. m. k. 3–4 pör á þessu tímabili. Um kyndara er það að segja, að þeir hafa sérstaklega þörf fyrir mikinn skófatnað, lætur nærri, að kyndarar þurfi að fá eina skó á mánuði. Alls staðar, að ég held, þar sem skömmtun hefur verið tekin upp, hefur verið gert ráð fyrir að láta vinnandi menn hafa meiri fatnað og meiri skófatnað en aðra. Ég minnist þess frá stríðsárunum, að þá gilti skömmtun í Englandi, og sjómenn, sem sigldu þangað, fengu skömmtun, náttúrlega minni en þá, sem þeir innfæddu fengu. Þeir fengu í hverjum túr einn vinnufatnað og eina vinnuskó.

Ég held, að þetta hafi verið tekið upp vegna. vanþekkingar, en ekki af illvilja gagnvart verkalýðnum. Ég veit ekki, hvernig þessu lýkur, hvort skömmtuninni verður haldið, áfram á þennan hátt, en ég get ekki séð nokkra meiningu í því, að hún haldi svona áfram.

Ég sé ekki annað en að málið geti farið til n. og óska þess, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.