15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér heyrðist hæstv. viðskmrh. leggja mikla áherzlu á, hversu mikill vandi hafi verið lagður þeim mönnum á herðar, sem skömmtunina ákváðu, og að þeim hafi verið það ljóst. Það kann að vera, en það sést ekki. Það virðist, að þeir hafi enga hugmynd um, hvernig á að framkvæma skömmtun í menntuðu þjóðfélagi. Aldrei hefur skömmtun verið framkvæmd með öðrum eins endemum. Og þegar hæstv. ráðh. segir annað eins og þetta, þá er það aðeins til að afsaka vitleysuna, þegar vitleysan kemur í ljós. Það er venja, ef á að skammta misjafnt, ef það er nauðsynlegt, að sumir fái meira en aðrir, að skipt sé niður í katagoríur, svo að ef t. d. erfiðismenn eiga að fá meiri skerf, þá sé sérstök katagoría fyrir þá, sem slíka vinnu stunda. Menn eru flokkaðir eftir því, hvaða vinnu þeir hafa með höndum. Þess vegna er það gefið, ef á að skammta vörur eins og hér, þar sem vefnaðarvara er skömmtuð, þá á að hugsa þetta út fyrir fram, gera það frá upphafi. Og það er engin afsökun fyrir að gera það ekki. Um þetta eru til fyrirmyndir í hverju landi, og hver, sem um skömmtun hugsar, — ekki sízt embættismennirnir, — á að geta framkvæmt hana strax. Það verður þess vegna að ganga út frá, að það margir mánuðir hafi verið til undirbúnings til að útbúa skömmtunarseðla á þann hátt, sem þeir þurftu að vera.

Ég undrast stórlega, að hæstv. ráðh. skuli detta í hug að vilja viðhafa þá aðferð að skammta vinnuskó og svo eigi menn að koma og sækja um undanþágu, koma á skömmtunarskrifstofuna eins og til fátækrafulltrúa og segja, að því miður verði þeir nú að vinna og hvort þeir geti nú ekki fengið leyfi fyrir skóm til að geta unnið áfram, og svo á þessi embættismaður að meta, hvort þeir séu búnir að vinna það mikið, að þeir megi fá eina skó. Getur nokkur hugsað sér að framkvæma skömmtun með þessu móti? Hvers konar skriffinnskubákni á að koma hér upp? Ætli verkamenn hafi ekki fengið nóg af því fyrir stríð að verða að biðja um lífsnauðsynjar sínar, þó að nú verði ekki farið að skammta þeim það, sem þeir eiga kröfu til, sem þeir eiga fyllsta rétt á að fá án allrar undanþágu? Ef litið er til af þessum nauðsynjavörum, þá á að skammta þær, en þá á það að vera réttur hvers manns, sem þessa vinnu stundar, og hann á að veitast honum með hans skömmtunarseðil. Hitt skil ég ekki, hvernig nokkrum manni getur dottið í hug, að haldin sé spjaldskrá yfir. hvað hver fær.

Annars virðist mér í sambandi við þessa till., að hamsturshætta ætti að vera minni í sambandi við verkamannaskó en annan skófatnað. Hins vegar er ekki rétt að eiga slíkt á hættu og skynsamlegra sé því að taka upp skömmtun þegar í upphafi. Hins vegar er ólíklegt, að þeir menn, sem mest hafa gert að því að hamstra, fari að hamstra vinnufatnað og verkamannaskó.

Hvað það snertir, sem hæstv. ráðh. minntist á. að menn hafi verið eggjaðir á að hamstra, þá ætti hann að athuga þær tilkynningar, sem gefnar voru út af stjórnarvöldunum, þar sem mönnum var svo að segja bent á að hamstra, þegar verið var að birta mörgum dögum fyrir fram, að viðbúið væri, að skömmtun yrði sett á. Þegar því hæstv. ráðh. er að mæla á móti þessari till., þá er það aðeins til að afsaka þau glöp, sem gerð voru í upphafi í sambandi við þessa skömmtun, því að þetta átti strax að gera, svo að sjómenn og verkamenn fengju fullan rétt til að fá þessar lífsnauðsynjar, en þurfi ekki að sækja um neina undanþágu. Þær hafa yfirleitt ekki farið svo vel úr hendi. og skriffinnskan er meiri en nóg. Þetta er réttur manna, en á ekki að veitast fyrir náð einhverra embættismanna.