15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Hv. 2. þm. Reykv. hafði ýmislegt við þetta að athuga, m. a. að hann vill ekki, að hér sé farið að taka upp neitt fátækrafulltrúafyrirkomulag, þar sem menn komi og biðji um eitthvert náðarbrauð og sæki um leyfi til að fá eitt og annað, sem sé fært inn á spjaldskrá. Hann átti ekki nógu stór orð til að fordæma það. Ég veit ekki, hvernig hann getur fengið það út, að hér sé eitthvert fátækrafulltrúafyrirkomulag, þó að maður, sem þyrfti á þessum hlutum að halda, fengi leyfi fyrir því og það væri síðan fært inn á blað. Að ekki megi skrá, hvað hver notar, það get ég ekki skilið. Og þar, sem skömmtun hefur verið í gildi í mörg ár, þar eru menn ekki enn komnir að fastri niðurstöðu um það, hvernig eigi að skammta verkamannafatnað fyrir hverja vinnugrein. Við vitum, að hér á landi er mikill munur á því, hve mikinn vinnufatnað menn þurfa, því að störfin eru misjafnlega fatafrek. Og það er ekki unnt, svo að í neinu lagi sé, að setja fastar reglur um það á þessu stigi. Ég veit ekki, hvernig ætti að gefa slíkar reglur svo, að ekki skeikaði. Hins vegar er sjálfsagt, að menn fái það, sem þeir þurfa, innan þeirra takmarka, sem verður að setja á hverjum tíma, þannig að notkunin verði ekki óeðlileg og ekki verði verzlað á svörtum markaði.

Annars skildist mér á hv. þm., að hann vildi fyrst og fremst, að mönnum væri skipt niður í skömmtunarflokka, þ. e. a. s. að mönnum væri mismunað. Við höfum ekki farið út í að mismuna mönnum með skömmtun. Skammturinn er það rífur, að hann á að duga hverjum og einum. Hitt er neyðarbrauð, að fara út í það að gera matarskammtinn mismunandi mikinn. En ég veit, að hann vill þetta til að geta síðan beitt á slíkt fyrirkomulag sinni krítik og skynsamlegu gagnrýni, eins og hún hefur komið fram undanfarið, því að þá fyrst er hægt að fá verulegan grundvöll til þess.

Um skömmtunina almennt skal ég ekki ræða hér. Hann taldi, að hún vært óeðlileg og með þeim endemum, að hún ætti sér engan líka. Ég skal geyma að ræða það, þangað til næsta mál kemur á dagskrá (þáltill. um ógildingu skömmtunarreglna, 8. mál), og gefst þá tækifæri til að ræða um það.

Hv. þm. taldi enga hamsturshættu á ferðum, þó að hætt yrði að skammta þessar vörur. Það kveður þar við annan tón en undanfarið, þar sem sýknt og heilagt var verið að prédika um þá hömstrun, sem hefði átt sér stað. Ég get ekki séð, hvers vegna slík hætta ætti einmitt nú að vera úr sögunni. Mér virðist miklu fremur, að ef upp kynni að koma ótti um, að hörgull yrði á þessari vöru, þá yrði hún keypt í stórum stíl til að selja hana aftur á svörtum markaði. Þess vegna er aðaltill. raunverulega það vitlausasta, sem hægt er að gera í þessu máli.

Hv. 11. landsk. hafði einnig nokkrar aths. að gera við það, sem ég sagði. Hann taldi undarlegt að ákveða skömmtunarfyrirkomulag, sem síðan þyrfti að breyta. Það er nú svo. Ég veit ekki til, að nokkurs staðar hafi fundizt það skömmtunarfyrirkomulag, sem ekki þyrfti að breyta. Ég tel því enga goðgá, þó að nokkrar vikur líði þannig, að einhver vörutegund sé ekki undanþegin skömmtun, svo sem prjónles. Ég tel það skipta tiltölulega litlu máli, þó að það sé ekki undanþegið skömmtun strax. Um það var nokkur ágreiningur, hvort ætti ekki að undanþiggja allar vörur úr íslenzkri ull. Um þetta urðu menn ekki fullkomlega sammála, en nú virðist mér færast nær því, að menn geti komið sér saman um það atriði. Niðurstaðan varð því sú að láta þessar vörur vera undir skömmtun til að byrja með heldur en að eiga undir því, að óeðlileg kaup væru gerð á þeim.

Þá spurðist hann fyrir um, hvort gerðar hefðu verið ráðstafanir til að tryggja, að nægilegt væri flutt inn af þessum vörum. Það kemur fram bæði í þessari till. og umr. hér, að verið er að gera kröfur um, að nóg verði til af öllum vörum. Það er ágætt að gera þær kröfur, að alltaf sé nóg til af öllum vörum, sem við þurfum á að halda, en það getur verið það ástand fyrir hendi, að slíkt sé ekki hægt, og þá verður að setja reglur með hliðsjón af því. Ég vil benda á, að ein aðalástæðan fyrir því, að þurfti að hafa dúka undir skömmtun, var sú, að ekki var tryggt, að hægt væri að fá inn í landið nægilega mikið af erlendum dúkum til að fullnægja því, sem skömmtunin gerði ráð fyrir, og þá varð að taka íslenzku dúkana, til þess að þeir nægðu til að bæta upp þá vöntun, sem kynni að verða á útlendum dúkum til að fullnægja skömmtuninni.

Ég held, að ég þurfi ekki frekar að ræða þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til að svara þeirri almennu og venjulegu gagnrýni, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. um skömmtunina almennt. Ég mun láta slíkar umr. bíða til næsta máls.