15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Einar Olgeirsson:

Það er aðeins út af því, að hæstv. viðskmrh. var í vandræðum með það, hvernig ætti að fara að, ef maður t. d. hættir í einhverri atvinnugrein og gerist sjómaður. Þegar menn gefa út reglur og innleiða kerfi eins og skömmtun, fara menn venjulega eftir ákveðnum reglum um það, jafnvel þótt undantekningar séu gerðar. Það er óhugsandi að ætla að mynda eitthvert kerfi miðað við undantekningar, þess vegna er eðlilegt að breyta skömmtuninni þannig að miða við það, sem er regla. Þegar t. d. svo og svo mörg hundruð menn eru sjómenn og svo og svo mörg hundruð járnsmiðir, þá er það þess vegna regla, að menn, sem skráðir eru sem sjómenn, fái sinn skammt miðað við, að þeir séu sjómenn, og þeir, sem eru járnsmiðir, fái sinn skammt miðað við, að þeir séu skráðir járnsmiðir.

Ef sú undantekning er, að einn maður fer að stunda aðra vinnu og fær þar af leiðandi aukinn skammt, er þá einhver ógurleg hætta á ferðum fyrir þjóðfélagið? Auk þess má benda á það, að þessir menn færu varla að leika sér að því að kaupa meira en þeir þyrftu af þessum hlutum, því að þeir kaupa þá ekki nema þeir þurfi þeirra með. Ég held því, að hæstv. viðskmrh. og skömmtunaryfirvöldin þyrftu síður en svo að óttast nokkuð, þó að verkamönnum væri úthlutað sérstökum skammti fyrir vinnufötum, þó að þeir skiptu um vinnu. Sú röksemd hæstv. ráðh., að það þyrfti að krefjast sérstakra gagna til þess að menn fái vinnuföt, fellur því um sjálfa sig, jafnvel þó að menn skipti eins oft um atvinnu og gerist á Íslandi.

Það virðist kannske heldur undarlegt, að t. d. einn sjómaður taki upp á því að gerast skrifstofumaður, en það undarlega er þó, að þrátt fyrir það, þó að spjaldskrárfyrirkomulag hæstv. viðskmrh. væri notað, þá gæti það samt komið fyrir, að sjómaður fengi vefnaðarvöruskammt, áður en hann færi á togara, en gerðist svo allt í einu skrifstofumaður og héldi þeirri vefnaðarvöru, sem hann fengi.

En hæstv. ráðh. er í vandræðum með, hvaða útúrdúrum hann eigi að finna upp á til þess að reyna að verja þetta óverjandi skömmtunarfyrirkomulag, en hann er lítið að hugsa um að taka tillit til manna í þessum efnum. Ég veit ekki, hvort það, sem hæstv. ráðh. sagði um, að leitað hefði verið til Alþýðusambandsins, er rétt. Ætli það hafi verið gert áður en skömmtunin fór fram eða eftir? Mér er nær að halda, að það hafi ekki verið gert fyrr en eftir að búið var að skammta, þegar menn voru búnir að sjá, hvers konar hneyksli það var, sem búið var að gera. En ég hélt, að það hefði verið betur gert fyrir en eftir skömmtun, sérstaklega eftir þeim mikla kunnugleika, sem hæstv. ráðh. segist hafa af verklýðshreyfingunni.