15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (3367)

8. mál, skömmtunarreglur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal strax lýsa fylgi mínu við þá till. hv. flm. að vísa máli þessu til allshn., þar sem það verði gaumgæfilega athugað og íhugað og reynt að breyta þessu kerfi til batnaðar og lagfæra ýmsa þá agnúa, sem á því kunna að vera. Að vísu gengur þessi till. hv. flm. ekki í þá átt að breyta þessu skömmtunarkerfi og lagfæra gallana, heldur gengur hún út á það að kollvarpa því algerlega og setja annað nýtt. Þær athugasemdir, sem fram hafa komið viðvíkjandi hinu nýja skömmtunarkerfi, virðast aðallega af tvennum toga spunnar. Annars vegar standa þeir menn, sem reynt hafa eftir beztu getu að gera kerfið eins auðvelt og hagkvæmt og hægt var, og þeir vilja allt til þess gera, að skömmtunin fari sem bezt úr hendi, en hins vegar standa svo þeir, sem ekkert hafa gert til úrbóta, en verið iðnir við að ófrægja og krítisera allt, sem gert hefur verið í þessum efnum. Ég segi fyrir mig — og ég veit, að ég segi það fyrir munn allra, sem um þessi mál fjalla, — að ég er fús til að gera þær breyt., sem verða mega til þess að bæta úr göllunum á skömmtunarkerfinu og ég hefði heldur kosið þann háttinn á till. hv. flm., að hún hefði fremur miðað að því að gera nauðsynlegar og gagnlegar breytingar á kerfinu en að kollvarpa því með öllu og setja annað nýtt. Ég skal nú koma að örfáum atriðum í ræðu hv. flm. Hún byrjaði á því, að almenn gremja hefði gripið almenning út af skömmtunarfyrirmælum stjórnarinnar, og hv. flm. gat þess um leið, að þolinmæði og langlundargeð þjóðarinnar væri mikið, en öllu mætti ofbjóða. Ég hygg, að fáum séu meiri erfiðleikar af þessu en mér og mínu ráðuneyti, því það er vandasamt verk að koma á kerfi sem slíku. svo að öllum líki í fyrstu.

Annars veit ég, að skömmtunin er yfirleitt vinsæl, að fáeinum atriðum undanteknum, og ég verð að segja, að þau atriði eru furðu fá. En það er auðvelt verk að æsa almenning upp til óánægju með alls konar illgirnislegum tilgátum og útúrsnúningum, og sýndi ræða hv. flm., að henni gekk engan veginn vel að finna rök fyrir réttlátri óánægju fólks.

Það er skiljanlegt, að mönnum líki heldur miður, þegar grípa verður til ráðstafana, sem skerða almenn lífsþægindi þeirra að einhverju leyti, en þrátt fyrir það veit ég, að fólk verður ánægt með skömmtunina, ef hún aðeins gengur jafnt yfir alla, og það álit verður maður alls staðar, að heita má, var við. Mikið hefur verið rætt um benzínskammtinn og stofnauka nr. 13. Ég veit, að á báðum þessum atriðum er nokkur ágalli, en reynt verður að bæta úr því eftir beztu getu. Þetta tvennt er það, sem einna mestri óánægju hefur valdið, en það er ekki hægt að segja annað en að það sé furðanlega lítið, sem að kerfinu hefur verið fundið af almenningi. Hv. flm. gat þess, að erfitt væri að koma á skömmtunarkerfi undir auðvaldsskipulagi slíku, sem hér ríkir. Vera má, að eitthvað sé satt í því, en vildi hún ekki gera svo vel að segja mér, hvernig þessu er háttað í Rússlandi. og gefa okkur upplýsingar varðandi það? (KTh: Þær upplýsingar er hægt að fá í rússneska sendiráðinu). Ég vænti þess, að hv. flm. láti mig vita um það fyrirkomulag, sem gildir í hinu sósíalistíska ríki, sem þeir flokksbræður hennar og hún sjálf vitna svo tíðum í. Það væri e. t. v. ekki sem verst að skipa nefnd, sem kynnti sér fyrirkomulagið á skömmtunarmálunum, bæði í hinu sósíalistiska ríki og í hinum kapitalistisku ríkjum Evrópu, og svo gæti sú n. skorið úr, hvaða leið skyldi farin.

Hv. flm. kom nokkuð inn á innflutning skrans og ýmiss konar óþarfa varnings, og fórust henni orð mjög svo skáldlega viðvíkjandi því. Út af þeim ummælum hennar þarf ég aðeins að segja það, að alrangt og ósanngjarnt er að segja, að nauðsynjavörunni hafi verið gleymt, og nægir að benda á það, að enginn tilfinnanlegur skortur hefur verið á neinni nauðsynjavöru og að keypt hefur verið inn í landið mikið af ýmiss konar framleiðslutækjum o. fl. Nú erum við komnir í þá „situation“, að við verðum að takmarka innflutninginn sem allra mest og jafnvel klípa sem mest af nauðsynjavörunni líka, enda hefur almenningur skilið nauðsynina á skömmtun, eins og málum er nú komið.

Þá sagði hv. flm., að skömmtun ætti að koma á fyrirvaralaust, svo að ekki væri ýtt undir hamsturshyggju manns. Þetta er út af fyrir sig rétt, en allir sanngjarnir menn hljóta að sjá, hversu miklum vandkvæðum þetta er bundið og að erfitt er að fara með mál sem þetta, án þess að það síist út til almennings. Ég veit, að flokksbræður hv. flm. voru ötulir við að breiða út þann orðróm, að skömmtun væri í aðsigi, og ýttu þeir undir menn með að kaupa sem mest, og gekk flokksblað hv. flm. vel fram í því að gera sem mest úr erfiðleikum þeim, sem af skömmtuninni kynni að leiða.

Ég veit ekki, hvort hv. flm. eru kunnir hinir teknisku erfiðleikar á því að koma nýju skömmtunarkerfi á. Í fyrsta lagi þarf að prenta hátt á annað hundrað þúsund skömmtunarseðla og dreifa þeim út um bæi og sveitir, til bæjarfógeta og oddvita, og það tekur aldrei minna en mánuð, svo að seðlarnir, sem áttu að gilda frá 1. okt., þurftu að fara í prentsmiðjuna í endaðan ágúst. Nú segir hv. flm., að þeir séu á dulmáli. En hvers vegna ætli þeir hafi verið á dulmáli, ef ekki til þess að sem mest leynd gæti verið yfir skömmtuninni áður en henni væri komið á?

Að þessu þurfti að fara með leynd til þess að vekja ekki óróa. Formið er svona fyrst og fremst til þess að forðast að vekja óróa fólksins með því að láta það vita, hvað ætti að skammta. Skömmtunarseðlaformið, sem hv. þm. kallar dulmál, var nauðsynlegt til að tryggja það, að leynd yrði um þá í sambandi við prentun seðlanna og útsendingu. Barnið, sem sent var eftir brauði, sannar ekki neitt um þetta. Afgreiðslumaðurinn hefði getað klippt af hvaða reit sem var, og hann hefur hlotið að vita, hvaða reitir giltu.

Hv. flm. leyfði sér að fullyrða, að hér hefði handahóf verið látið ráða, en það var ekki handahóf, því það var ekki talið rétt að prenta á seðilinn, hve skömmtunin ætti að vera mikil af hverju. Það má líka benda á það, að þetta form, að ekki er tiltekið magn fyrir hvern skömmtunarreit, gefur skömmtunarskrifstofunni möguleika til þess að nota reitina fyrir öðru magni, minnka skammtinn, ef þess gerist þörf, og auka hann, ef eitthvað rýmkast um.

Hv. þm. kom að þeim tveim atriðum, sem ég hef heyrt getið um. að fundið hafi verið að með rökum, en það er benzínskammturinn og stofnauki nr. 13.

Það er rétt, að það var ekki tilætlun okkar, sem að skömmtuninni stóðum, að benzínskömmtunin yrði til þess að rýra úr hófi fram atvinnutekjur bifreiðarstjóra, en það, sem líka kemur til greina, eru birgðirnar og hvað hægt er að kaupa inn. Nú hagar svo til, að Olíuverzlun Íslands h/f og h/f Shell á Íslandi eiga birgðir nokkuð fram í næsta mánuð, og er alveg óvíst, hvað hægt er að útvega til áramóta. Það er að vísu til hjá þriðja félaginu nokkuð mikið, sem líka getur komið til greina, en tilætlunin var að reyna að skipta svo, að enginn yrði útundan. Einkabílstjórar hafa fengið sem nemur 10% af heildarnotkuninni á þessum tíma, svo að þótt þessi skammtur yrði skertur að einhverju leyti, yrði það ekki nema tiltölulega mjög lítil viðbót, sem hægt væri að veita með því. Segjum, að hægt væri að skera niður helminginn af benzíni einkabílanna, þá er ekki nema um 5% aukningu að ræða hjá atvinnubilstjórum. Ég held, að þessi leið, sem hv. þm. talaði um við benzínskömmtunina, mundi verða ærið flókin. Hún segir, að vandalaust sé að fá upp hjá sjúkrasamlaginu, hvað læknar hafi marga sjúklinga og hvað mörg börn séu á vegum hvers sjúklings. Ég held, að þetta væri erfitt, nema hægt væri að fá upplýsingar um, hvað börnin yrðu oft veik. Ég held, að það væri erfitt að mismuna eftir því hvað mörg börn sjúklingarnir ættu, og hvað margir af sjúklingunum væru utan við bæinn.

Þá var minnzt á stofnauka nr. 13. Það hefur verið fundið að því, að mínu viti með nokkrum rétti, að þessi stofnauki er eins úr garði gerður og hann er. Það, sem ætlazt er til, er, að annaðhvort geti karlmaður fengið einn alfatnað eða kvenfólk tvo kjóla, en til þess að stofnaukinn er svona liggja þær ástæður, sem nú skal greina, eftir því sem skömmtunarstjóri hefur tjáð mér í bréfi. sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Hið rétta í þessu máli er það, að skömmtunaryfirvöldunum var kunnugt um, að ekki var til í landinu, þegar skömmtunin hófst, neitt sem teljandi var af efni í karlmannafatnað né heldur kjólaefni. Vitað var einnig, að ekki yrði um neinn teljandi innflutning á slíkum efnum að ræða nú á næstunni, vegna gjaldeyrisskorts. Hins vegar var vitað, að til var í verzlunum töluvert af tilbúnum fatnaði, sem komið hefði að fullum notum handa þeim, sem nú þegar eða í náinni framtíð hefðu þurft á ytri fatnaði að halda. Gilti þetta nokkurn veginn jafnt um tilbúinn karlmannafatnað, drengjafatnað og tilbúna kjóla og yfirhafnir (kápur) kvenna. Þegar ákveðið var um innkaupagildi stofnauka nr. 13 fyrir ytri fatnaði tilbúnum, var það haft í huga jafnframt, að breyta mætti þessum stofnauka síðar, t. d. við næstu úthlutun 1. janúar, þannig að setja hann á verðmætisgrundvöll, svo að kaupa mætti út á hann efni í ytri fatnað, ef slíkt efni þá yrði fáanlegt eða líkur fyrir, að slíkt efni kæmi til landsins.“

Að sjálfsögðu mætti breyta þessu fyrr eða hvenær sem heppilegt þætti á þessum þrem mánuðum. Þetta mætti gera hvenær sem skömmtunarseðillinn lægi fyrir, og er till. um það búin að liggja fyrir fjárhagsráði frá því áður en þessi þáltill. kom fram á Alþingi.

Það, sem kom skömmtunaryfirvöldunum til þess að setja þetta út svona, var það, að nú var ekki til efni, en hins vegar var til tilbúinn fatnaður handa þeim, sem þurftu á fatnaði að halda á þessum mánuðum, og geta þeir fengið hann eins og stofnaukinn segir til um. En þeir, sem geta beðið, geta fengið honum skipt eins og þeir óska, og vil ég benda þessum hv. þm. á, að ekki er liðin nema vika, sem þessi stofnauki nr. 13 hefur gilt, áður en farið er að reisa sig hér á Alþingi til þess að fá honum breytt. Hins vegar hafa skömmtunaryfirvöldin gert ráð fyrir, að þessu yrði að breyta síðar, en ekki talið rétt að gera það meðan ekki væru vörur til í landinu, sem hægt væri að úthluta út á þessa seðla.

Ef stofnauka nr. 13 yrði breytt í kr. 350,00 á mann í fataefni, þýðir það hvorki meira né minna en 40 milljónir kr. í innflutningi. Þetta hefur orðið til þess, að ekki þótti fært í upphafi að gera þessa breyt., heldur að bíða þangað til efni kæmu, en hins vegar er enginn hörgull á tilbúnum fatnaði, og gætu þeir, sem eru fatalausir, fengið tilbúinn fatnað. Það er hægt að segja eins og sagt er hér í grg., að stj. beri að sjá um, að hlutirnir séu alltaf til, en það mundi þýða það, að hér í verzlunum þyrfti alltaf að liggja 40 millj. kr. í efnum. Þetta þarf að vera, en það er ekki hægt á þessu stigi málsins.

Hv. þm. segir, að klaufaskapurinn hafi verið augljósastur. Það má segja, að sínum augum lítur hver á silfrið, og má ég segja, að ef stofnauki nr. 13 væri gerður af hennar flokksmönnum, mundi hún ekki hafa rætt eins um klaufaskap og hún gerir.

Þá ræddi hv. þm. um skömmtunarmagnið sjálft. Hún reiknaði út, að kornvöruskammturinn væri svo naumur, að vafi væri á því, að mér skildist, að þjóðin gæti hjarað á þessum kornvörum. Kornvöruskammturinn er 5 kg á mann. Þessi skammtur var áður 6–7 kg, en hefur hér í Rvík, þegar hann var þetta, aldrei verið fullnotaður. Fyrir utan þennan kornvöruskammt er fjöldinn allur af vörum, sem svipað næringargildi hefur, eins og t. d. kornvörur og slátur, og er þeim manni, sem fær 5 kg af kornvöru á mánuði með óskömmtuðum kartöflum. óskömmtuðu slátri og fiski og kjöti, engin vorkunn. Ég vil biðja hv. þm. að benda mér á eitthvert land, — þar sem skömmtun er á annað borð, — þar sem skömmtun er ríflegri en þetta. Auk þess sem við höfum fisk, kjöt, slátur og kartöflur, höfum við egg og mjólk. Já, hvað á þá matarforðinn að vera mikill til þess að fleiri en alþingismenn geti hjarað á honum? Nei, það er engin ástæða til þess fyrir hv. þm. að gera kornvöruskömmtunina tortryggilega, því að skammturinn er fullnógur.

Þá sagði hv. þm., að B-reitirnir mundu ekki nægja nema þeim, sem hefðu hamstrað. Það er eins og hv. þm. haldi, að fólk eigi engin föt, en sem betur fer er þjóðin betur undir skömmtun búin en hún hefur verið nokkru sinni áður. Ég hef þekkt heimili bæði nú og fyrr, og ég fullyrði, að það er ekki sambærilegt, hvað fólkið hefði fyrrum þolað skömmtun verr en nú. Þá var fólkið illa fatað. Þá þurfti það að kaupa eftir hendinni, en nú er það svo vel fatað, að þessi skammtur ætti vel að duga því til áramóta. Ég er ekki að segja, að hundrað krónur sé mikill skammtur handa hverjum manni, en með tilliti til undanfarinna ára vil ég segja það, að það er enginn vandi fyrir fimm manna fjölskyldu að láta sér endast fimm hundruð krónur til áramóta.

Við hreinlætisvörurnar hafði hv. þm. líka ýmislegt að athuga. Þessir reitir eru þannig gerðir, að hver maður getur fengið 1 kg af grænsápu, 2 pakka af þvottaefni, 1 pakka af sólskinssápu og eina handsápu. Ég hef borið þetta undir margar húsmæður. og þær telja, að þetta sé alveg nóg. 5 manna fjölskylda fær t. d. 5 handsápustykki, og þó að læknirinn þurfi að þvo sér meira en þessu svarar, held ég, að menn komist almennt fullkomlega af með þennan skammt.

Flm. minntist ekki á kaffiskammtinn og ekki á sykurskammtinn, og geri ég ráð fyrir, að hún hafi ekki hugsað út í, hvort þetta sé mikið eða lítið. Af kaffi eru 4 pakkar. Einn pakki á mánuði og einn pakki til jólaúthlutunar. Yfirleitt hefur þetta ekki verið meira en hér er gert ráð fyrir, og eru birgðir ekki til í landinu. Sykurinn ætti að vera hægt að komast af með.

Ég veit ekki, hvort það var fleira, sem hv. flm. hafði út á skömmtunina að setja og kynni að hafa farið fram hjá mér.

Það er niðurstaðan, að ekkert er nýtt í þessum aðfinnslum annað en það, sem ég er búinn að rekja áður í þrem atriðum. Það er benzínskömmtunin, sem verið er að taka til athugunar. En þar verður við ramman reip að draga, þar sem er benzíninnflutningurinn, og er spurning, hvort hægt er til áramóta að flytja inn meira benzín en þegar hefur verið gert. — Þá er það stofnauki nr. 13. Ég hef lýst því, hvernig í þessu máli liggur og að úr muni verða bætt. — Og í þriðja lagi er það íslenzka prjónlesið, sem fellt er undan skömmtun. Þegar þessir þrír punktar hafa verið teknir til meðferðar og ef maður getur fengið lausn á þá, þá er fengið form á skömmtunarfyrirkomulagið, sem ég held, að flestir geti vel við unað.

Ég vil segja það, að það er meira af vilja en mætti, sem hv. flm. og aðrir hennar flokksmenn hafa tekið að sér það hlutskipti að rísa öndverðir gegn aðgerðum í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. En ef þeir telja sér það fært, mun ég ekki öfunda þá af hlutskipti sínu.