23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

8. mál, skömmtunarreglur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa orðið alllangar, og sé ég enga ástæðu til að lengja þær mjög úr því, sem komið er, sérstaklega vegna þess að þær aðfinnslur, sem fram hafa komið frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. landsk., hafa verið svo mjög á víð og dreif, að þær hafa auðsýnilega verið fluttar fram meir af vilja en mætti. Það má í þessu tilfelli, eins og mörgum öðrum, gera stórlegan greinarmun á því, hvort þær aðfinnslur, sem fram eru bornar, eru á rökum reistar eða til þess að sýnast og reyna að skapa það, sem þm. kallaði öngþveiti og glundroða og erfiðleika, en það virðist vera það eina., sem fyrir þessum hv. flm. vakir.

Það er um þessa lagasetningu og framkvæmd hennar eins og önnur mannanna. verk, að hún er ekki fullkomin og margt má að henni finna, og ég ræddi um daginn, hvað að þessu fyrirkomulagi hefur verið fundið með rökum og þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið til þess að fá þar á nokkra bót. Ég gat þess, að snemma þegar skömmtunin var sett, bar á óánægju með stofnauka nr. 13 og þá innkaupaheimild. Ég lýsti þá, hvers vegna svo hefði verið farið að sem gert var og því, sem gert hefði verið til úrbóta, þannig að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að skipta seðlinum niður. Ég lýsti einnig, hvernig hugsað var með framkvæmd á úthlutun á verkamannafatnaði, verkamannaskóm og íslenzku prjónlesi, sem nú hefur verið undanþegið skömmtun.

Þó að mjög sé auðvelt um þetta að tala, eru ýmsir örðugleikar á því að koma á fót skömmtunarkerfi fyrst um sinn, sérstaklega þegar það verður að gerast með leynd, þar sem öfl eru í þjóðfélaginu, sem reyna að vinna á móti því, að kerfið komi að fullum notum. Það er ekki undarlegt, þó að í upphafi séu ýmsir annmarkar á þessu, sem reynt er að bæta úr og ýmist er komið til framkvæmda eða er að komast til framkvæmda. Það hafa stærri þjóðir en við orðið að gera ýmsar breytingar á sínu skömmtunarfyrirkomulagi, og ég álít það ekki okkur til neins vansa, þó að við getum ekki í upphafi hitt á það eina rétta. Ég tók það fram þá, og ég vil endurtaka það enn, að ég vil gera allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að mæta þeim rökstuddu aðfinnslum, sem við þetta kynnu að verða gerðar, og reyna að færa það til betri vegar, ef sýnt yrði fram á það með rökum. En þegar svo er á málunum haldið eins og bæði hér er gert nú af flm. og hennar flokksbræðrum og blaði flokksins, sé ég enga ástæðu til þess, að meira en hæfilegt tillit sé tekið til þess, sem þar er sagt.

Ég hélt því fram í upphafi og stend við það enn, að það var blað kommúnistaflokksins og áróðursmenn þess flokks, sem reyndu, áður en skömmtuninni var komið á, að gera hana tortryggilega með því að tína fram ýmis aukaatriði í því skyni að gera hana. tortryggilega og óvinsæla. Það er ekki einasta ég, sem hef orðið var við þetta, því að hið sama kemur fram í bréfi, sem ég hef fengið um þetta mál frá skömmtunarstjóra og ég með leyfi hæstv. forseta vil lesa dálítið upp úr, þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Greinargerð þessi er að öðrum þræði lofsöngur um skömmtun og jöfnuð í skiptingu lífsnauðsynja, en hins vegar aðdróttanir um hamstur, að því er manni skilst eftir óbeinni ábendingu ríkisstj. Ekki verður nú sagt, að vopnunum sé fimlega beitt, þegar það er haft í huga, að málgagn kommúnistaflokksins, Þjóðviljinn, hefur beint og óbeint hvatt menn til þess að hamstra, jafnframt því sem kommúnistar hafa magnað alla sína neðanjarðarstarfsmenn og skipað þeim að hvísla lognum fregnum um fyrirhugaða skömmtun á „öllu ætu og óætu.“ Þetta gekk jafnvel svo langt, að í sumum búðum kommúnista hér í Reykjavík var afgreiðslufólkið látið hvísla því að viðskiptavinum þeim, sem komu til þess að kaupa grænsápupund eða eldspýtnastokk, að nú yrði skömmtun tekin upp á morgun.

Árangurinn af þessari iðju kommúnista varð svo sá, sem öllum Reykvíkingum er kunnur, að fólkið þyrptist að skóverzlununum og keypti skófatnað, sem það annars hefði ekki keypt þá, og því komið undir skömmtunarákvæðin og „jöfnuð í skiptingu lífsnauðsynja“, eins og flutningsmaður þingsályktunartillögunnar svo fagurlega orðar það. Þetta er nú að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.“

Svo að það er ekki ég einn, sem hef orðið var við það, að þessi áróður hefur verið hafður í frammi, heldur einnig sá maður, sem ætti að vera þetta kunnugast, skömmtunarstjórinn. Hann hefur ekkert farið dult með það í samtölum við mig, hvernig ástandið hefur verið, og hann hefur leyft mér að hafa þetta eftir sér.

Sannleikurinn er sá, að það hefur verið öllum ljóst, frá því nokkru áður en skömmtunin hófst, að það hefur ekki verið af umhyggju fyrir því, að skömmtunin tækist, að kommúnistar hafa verið með þessar aðfinnslur um skömmtunarkerfið og fyrirkomulagið. Það hefur verið til þess að reyna að hleypa ótta í fólkið, hræðslu, sem hefur orðið til þess, að kaupæði hefur gripið það, sem svo hefur orðið til þess, að vöruskortur hefur orðið í búðunum. Líka vegna þessa varð að koma skömmtunarkerfinu á með meiri flýti en ella hefði orðið. Hefði ekki þessum sífellda áróðri þessa flokks verið beitt eins og gert var, hefði þetta getað verið í enn betra lagi og betur undirbúið en raun hefur orðið á.

Það var um miðjan ágústmánuð, að ég ætla, að nokkurs konar innkaupaæði greip Reykvíkinga, runnið undan rótum þessa flokks. Þá var nokkurn veginn sýnt, að til skömmtunar þyrfti að grípa. Það var þess vegna auðreiknað dæmi fyrir áróðursmenn flokksins að brýna það fyrir fólki, að nú væri vissara að gera kaup sín í tíma, og það var líka ósleitilega gert. Þá var ekki búið að prenta neina skömmtunarseðla eða ganga frá því, hvernig þetta kerfi yrði haft, en eins og ég sagði síðast hér, tók það á annan mánuð, frá því að skömmtunin var ákveðin, að prenta seðlana og koma þeim til allra oddvita úti um land. Þess vegna varð þarna millibilsástand, sem ekki var hægt að brúa öðruvísi en banna sölu í stórum stíl til fólks, og það var gert og tryggt á þann eina hátt, sem hægt var í bili, að menn voru látnir kvitta fyrir þeim vörum, sem þeir tóku á móti. Þetta fyrirkomulag sætti mikilli gagnrýni í Þjóðviljanum, dag eftir dag og viku eftir viku, og var hamazt á því, hve vitlaust þetta fyrirkomulag væri og væri auðvelt fyrir almenning að fara á bak við það og kaupa það, sem menn vildu, bara ef menn vildu hafa sig til þess. Var mönnum bent á að gera það, sem hægt væri, til þess að rífa niður þetta kerfi, sem var ekki annað en bráðabirgðalausn. En það verð ég að segja reykvískum almenningi til hróss, að yfirleitt kom þetta að tilætluðum notum, og þetta varð til þess, að svo að segja hurfu alveg þau innkaup, sem gerð höfðu verið áður en byrjað var að taka þessar kvittanir. Svo að þótt kerfið væri ófullkomið, kom það að þeim notum að stöðva að mestu leyti óeðlileg innkaup, og þrátt fyrir það, að Þjóðviljinn reyndi að gera fyrirkomulagið tortryggilegt og benti mönnum á, hvernig mætti hamstra.

Frsm. hafði nú orðið lítið annað að tala um í sambandi við skömmtunina en að seðlarnir væru nokkurs konar dulmálslykill, eins og hann orðaði það. Ég skildi það ekki. Það getur skeð, að það sé dulmál í hans augum, en dulmálið er þó ekki annað en það, að á hvern seðil eru prentuð merki, sem gefin er út reglugerð um, hvað þýða, og ég veit ekki til, að mönnum hafi svo mikið fatazt í því að ráða þessar rúnir. Það vita allir, sem með þessa seðla fara, hvað t. d. a-reitirnir þýða, þeir þýða kornvörur, svo að um þetta þarf ekki að fara í neinar grafgötur og hótfyndni, að þetta sé sá ljóður á skömmtunarfyrirkomulaginu, sem geri það ómögulegt. Og það þarf ekki að breyta kerfinu til þess að þetta komi að fullum notum, enda þarf sú leynd, sem þurfti vegna þessa í upphafi, ekki að vera til staðar, því að við næstu skömmtun mega reitirnir vera merktir fullum nöfnum, en það mátti ekki í upphafi koma greinilega fram, meðan verið var að koma skömmtuninni á.

Þá vildi hv. flm. halda því fram, að ríkisstj. og þeim mönnum, sem með þessi mál hafa farið, hefði verið sæmra að kynna sér nokkru nánar, hvað nágrannalöndin gerðu í þessum efnum. Var í því sambandi sérstaklega hreyft hinu svokallaða „punktakerfi“, sem notað er í Englandi, og vildi hv. þm. halda því fram, að það yrði tekið upp hér. Í bréfi skömmtunarstjóra er frá því skýrt, að á þessu hafi farið fram ýtarleg athugun, er leitt hafi í ljós, að þetta kerfi mundi ekki þéna okkur eins og það, sem hér hefur verið lagt til grundvallar, auk þess sem það kerfi mundi verða miklu flóknara í framkvæmd og erfiðara að hafa eftirlit með því.

Að bregða þeim mönnum, sem um þetta mál hafa fjallað, um það, að þeir hafi ekkert kynnt sér af því, sem í gildi er um þetta í nágrannalöndunum, er hreinasta fjarstæða, því að þeir höfðu kynnt sér það mjög ýtarlega áður en okkar reglugerð var sett.

Hér um bil það eina, sem flm. átti eftir af aðfinnslum, var það, að kornvöruskammturinn væri of lítill, og var hún í upphafi umr. með „kaloríuútreikning“ í því sambandi. En það er furðulegt, þegar fara á að reikna kornvörurnar í kaloríum án þess að taka tillit til ýmissa fæðutegunda, sem ekki eru skammtaðar, en það eru ýmsar helztu fæðutegundir okkar, svo sem fiskur, kjöt, egg, og ýmislegt fleira mætti telja. Svo að það að halda því fram, að enginn geti lifað af skammtinum, er út í bláinn, eins og fleira, sem þessir hv. þm. hafa sagt.

Yfirleitt fannst mér það, sem í þessum umr. hefur komið fram frá hv. flm. og 2. Reykv., ekki vera annað en vanmegnugar tilraunir til þess að gera lögin og framkvæmd þeirra tortryggileg, en lítið af rökum. Ég get t. d. ekki talið það nein rök, þar sem flm. benti á, að nú þyrfti vesalings fólkið að sötra kaffiseytilinn sinn úr keramikskálum og kristallsvösum. Ég hef ekki orðið var við, að menn drekki úr kristallsvösum. Það má vera, að hún geri það, ég veit það ekki, en hins vegar vil ég benda henni á það, að keramik og kristallsskálar er undir skömmtun, svo að ekki er frekar hægt að kaupa það nú en bolla. Ef menn vilja heldur kaupa þessar skálar en bolla og drekka úr þeim, þá þeir um það.

Hún sagði líka, að það væri erfitt í auðvaldsþjóðfélagi að hafa skömmtun, og ég innti hana eftir því strax, hvort hún gæti þá ekki gefið mér upplýsingar um þá skömmtun, sem uppi væri höfð í því ríki, sem hún dáir mest. En einhverra ástæðna vegna hafði það nú farið fram hjá henni að svara þeirri spurningu, því að hún hefur ekki enn gefið mér upplýsingar um það, hvernig skömmtunarfyrirkomulaginu er hagað þar, sem allt á að vera fullkomnast. En ég hef lesið mér það til, að skömmtunarfyrirkomulaginu væri þar hagað á þann veg, að þar væri almenningi úthlutað smávægilegum skammti af nauðsynjum, en hins vegar geti þeir, sem peninga hafa, keypt nánast hvað sem þeir vilja. Ég vil spyrja: Er það þetta fyrirkomulag, sem hún vill hafa hér á landi, að þeir, sem hafa peninga, geti keypt hvaða vörur sem þeir vilja á opnum, svörtum markaði ríkisins, fyrir um það bil fjórfalt verð við það, sem skammturinn kostar? Þetta mundi þá koma þannig út, að þeir, sem nóga peninga hafa, gætu keypt sér það, sem þeir þyrftu, en þeir, sem ekki hefðu peningana, yrðu að láta sér nægja skammtinn, og hann oft naumt skammtaðan. Kannske er það þetta fyrirkomulag, sem flm. vildi innleiða hér hjá okkur, og er þá bezt að hún segi frómt frá því, svo að almenningur gangi þess ekki dulinn. En ég hygg, að íslenzk alþýða mundi nú samt fremur kjósa það skömmtunarfyrirkomulag, sem hér hefur verið uppi haft, þar sem öllum er gert jafnhátt undir höfði, — ég hygg, að hún mundi frekar kjósa það en hitt fyrirkomulagið, að þeir, sem peningana hafa, fái að kaupa það, sem þeir vilja, en fátæklingarnir ekki. Ég veit ekki, hvort þetta er skoðun flm., en ef hún vill kerfisbreytingu í þessa átt, væri æskilegt, að hún segði til um það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í málið að svo stöddu. Aðfinnslurnar hafa ekki verið það veigamiklar né a það miklum rökum reistar, að því hafi ekki verið fullsvarað hér.