23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

8. mál, skömmtunarreglur

Flm. (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að halda hér langa ræðu, því að það er í rauninni lítið, sem ég þarf að svara varðandi ræðu hæstv. viðskmrh. Þar kom þetta sama fram og áður, að gagnrýni mín á skömmtunarkerfinu væri ekki á rökum reist, og bar hann aðallega fyrir sig bréf frá skömmtunarstjóra, og hafði ég ekki búizt við, að hann mundi taka gagnrýni minni betur en sjálfur hæstv. viðskmrh. Það lítur út fyrir, að hann hafi, eftir að till. mín kom fram, farið að afla sér upplýsinga um það, hvernig skömmtunarfyrirkomulagi er háttað annars staðar, og telur hann punktakerfið miklu lélegra heldur en það, sem við búum við.

Við héldum hér heima, þegar skömmtunin hófst, að hún hefði verið sett í þeim tilgangi að spara gjaldeyri. en eins og allir vita, var íslenzkt prjónles látið falla undir skömmtunarreglurnar, þegar þær komu út, og ekki gat þar verið um neinn gjaldeyrissparnað að ræða. — Hæstv. ráðh. sagði, að verið væri að breyta skömmtunarfyrirkomulaginu. Ég hef enga trú á því káki, en vil láta semja það algerlega að nýju. — Þá kvaðst hæstv. ráðh. ekki hafa skilið, hvað ég hefði átt við, er ég var að tala um dulmálslykla. Þar átti ég við auglýsingarnar, sem alltaf er verið að þvælast með. Og það er ekki svo auðvelt að vita, hvaða vörur teljast til vefnaðarvara eða búsáhalda. Það sagði mér t. d. einn þm., sem fór og keypti sér ermabönd, eftir að skömmtunin var komin á, og vildi búðarmaðurinn fá seðil fyrir. Þm. spurði, hvort þessi vara teldist vefnaðarvara, og kvað búðarmaðurinn nei við, og þegar hann spurði, hvort hún teldist búsáhald, gat hann ekki sagt, að svo væri, en seðilinn vildi hann fá og varð að afhenda. Víst er um það, að verzlunarfólk hefur átt mjög erfitt með að átta sig á þessum málum, og er mörg varan seld án skömmtunarseðla í einni búð, sem krafizt er seðla fyrir í annarri. — Hæstv. ráðh. minntist á kristalls- og keramikvörur, og ef svo er, að þær falla undir skömmtunina, þá er það alveg nýtilkomið, því að til skamms tíma veit ég til, að hægt hefur verið að fá þess háttar vörur án seðla.

Annars ætla ég ekki að fjölyrða um þetta mál, enda veit ég, að það hefur enga þýðingu fyrir mig að ræða þau við hæstv. viðskmrh., til þess er um svo ólík lífsviðhorf að ræða. Hann virðist líta svo á, að það nægi að gefa fögur loforð, en lætur sig ekki skipta efndirnar, en ég lít svo á, að verkin verði að skera úr um, hvort ætlunin hafi verið góð.