27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

8. mál, skömmtunarreglur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda þessum umr. áfram mikið lengur en þegar hefur verið gert, enda fátt, sem svara þarf. Ég tók það fram í upphafi míns máls, þegar ég ræddi þetta í fyrstu, að ég vildi mæla með því, að málið gengi venjulega boðleið til n. og fengi þar þá meðhöndlun, sem bezt mætti verða, svo að ef eitthvað væri, sem fram gæti komið í þessu máli til nytsemdar, þá ætti það að geta orðið frekast á þeim vettvangi.

Ég taldi þó rétt þegar við þessa umr. að fara út í nokkur einstök atriði, sem hér hafa borið á góma, og þau eru ekki svo mörg, að það út af fyrir sig hefði ekki átt að gefa tilefni til þessara löngu umræðna, sem hér hafa farið fram. Eins og till. ber með sér, þá var hún þannig orðuð, að allt þetta skömmtunarkerfi skyldi fellt úr gildi og nýtt koma í staðinn, án þess þó að á það væri bent, hvernig það kerfi skyldi vera. Ég taldi rétt að rekja hér nokkur þau önnur kerfi, sem notuð eru í nábúalöndum okkar og ýmsum öðrum löndum. Í nábúalöndum okkar er kerfið mjög svipað því, sem við höfum haft, og hefur gefizt mjög vel. Aftur á móti í Englandi er notað svokallað punktakerfi viðvíkjandi vefnaðarvöruskömmtun. Ég hygg, að það kerfi hafi einnig verið athugað hér, en það var talið, að það mundi verða of þungt í vöfum.

Einnig taldi ég rétt og óskaði eftir því að fá að heyra það hjá hv. flm., hvort hún óskaði eftir svipuðu kerfi eins og notað er í Rússlandi, þannig að skammta eitthvað með lágu verði og selja síðan með margföldu verði það, sem fram yfir er. Hv. flm. skaut sér hjá því að svara, hvort það væri hennar meining, að gengið yrði inn á þessa braut eða einhverja aðra. Hún tók það fram í sinni ræðu, að ég hefði farið að ræða um þetta atriði vegna þess, að það hefði hlakkað í mér, hversu smár skammturinn þar væri oft og tíðum. Þetta er misskilningur. Það hefur hvergi komið fram hjá mér, að mér væri ánægja að því, að sú þjóð eða nokkur önnur þyrfti að skammta smátt, en hitt taldi ég rétt, að þetta kerfi kæmi til álita eins og önnur, svo að menn gætu gert það upp við sig, hvort þeir vildu fara inn á þær brautir eða halda sig við þetta kerfi, sem við höfum, eða svipað. Ég taldi það benda til þess, að hv. flm. hefði hugsað sér þessa leið, að hún vildi útrýma kerfinu, sem nú hefur verið sett, og fá annað nýtt í staðinn. En hv. flm. hefur kosið að svara þessu ekki og hefur ekki enn gert þetta að sinni till.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að fara út í þau smáatriði, sem hér komu fram hjá hv. 8. þm. Reykv., það voru aðeins fá og smá atriði, sem hann fann þessu skömmtunarfyrirkomulagi til foráttu. Hann sagði t. d., að ekki væri séð fyrir neinum sápuskammti fyrir ungbörn, en það er misskilningur, því að þau fá hann eins og aðrir. Hann sagði enn fremur, að ekki væri séð fyrir ungbarnafötum. En með hliðsjón af því, að hér er aðeins um þriggja mánaða tíma að ræða, þá var gert ráð fyrir, að þessi 100 króna skammtur, sem veittur er auk utanyfirfata, mundi nægja í flestum tilfellum hvað þetta snertir. Hv. þm. talaði einnig um verkamannaföt, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um það, sú till., sem um það fjallaði, hefur verið afgr. og er vafalaust, að úr því verður bætt.

Ég held það sé svo ekki mikið annað, sem ég þarf hér fram að taka. Hv. flm. taldi að vísu svo langt bil milli mín og hennar, að við mundum ekki skilja hvort annars meiningu, við værum ekki á sömu bylgjulengd í þessu máli frekar en öðrum, og má vel vera, að það sé rétt. Hún rökstuddi þetta með því, að mín skoðun væri sú, að það væri rétt að lofa bara nógu miklu, en láta mér hægt um efndirnar, en um þær skipti ekki miklu máli samkvæmt því, sem hún lagði mér í munn. Ég vil mjög andmæla þessu, því að það hefur ávallt verið mín meining, bæði hér og annars staðar, að lofa ekki meira en ég væri fær um að efna. Ég held þess vegna, að hinnar manntegundarinnar verði hún að leita í öðrum hópi.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um málið og mun ekki fara út í það frekar nema alveg sérstakt tilefni gefist til. Ég tel, að frekari athugun á málinu eigi að fara fram í þeirri n., sem því verður vísað til að umræðu lokinni.