27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (3384)

8. mál, skömmtunarreglur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðh. um það, að vel fari á því, að þetta mál fari til n. og fái þar rækilega athugun. En hitt kom mér á óvart, sem hann sagði í niðurlagi sinnar ræðu, að hann telur ekki ástæðu til þess að segja meira, svo mörgum spurningum sem hann á ósvarað í sambandi við umr., sem fram hafa farið. Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að það er ljóst, að það er ekki að ófyrirsynju, að hafnar hafa verið ýtarlegar umr. um skömmtunarfyrirkomulagið hér á Alþ. og raunar einníg í blöðum og á fjöldamörgum mannfundum, og þegar hefur verulega unnizt á vegna þessara umræðna, þar sem smátt og smátt er verið að gera breyt. á skömmtunarfyrirkomulaginu. Sem dæmi má nefna þær breyt., sem gerðar hafa verið varðandi stofnauka nr. 13, að ekki er það lengur svo, að hver kona sé til þess neydd að kaupa sér tvo kjóla í einu. Þetta er búið að lagfæra, og það er mjög gott, og jafnvel er komið inn á þá braut, að ekki er ófært að fá efni til fatnaðar út á þennan stofnauka. Þetta er allt í áttina. Þá er einnig komið í ljós, að sjálfsagt þykir að gefa undanþágu fyrir barnshafandi konur og fyrir fólk, sem er að stofna heimili, og fyrir verkamenn vegna skófatnaðar og vinnufata. Allt sýnir þetta, að skömmtunin er ákaflega hroðvirknislega og fljótfærnislega undirbúin, þegar byrjað er á því þegar á fyrstu vikum skömmtunarinnar að breyta þannig til. Allt er þetta árangur af umr. um skömmtunina, sem fram hafa farið bæði hér á Alþ. og annars staðar. Einnig er upplýst, að búið er að breyta skömmtunarreglunum að því leyti, að nú sé íslenzkt prjónles undanþegið skömmtun; þetta er líka framför. En eitt er það, sem ég ekki skil í sambandi við það, sem farið hefur fram í þessum efnum, það er afstaðan til verkamannanna varðandi aukaskammt af skófatnaði og vinnufötum. Ég get ómögulega skilið, hvers vegna ekki má ætla þeim beinlínis aukaúthlutun af þessari nauðsynjavöru. Það er sýnt, að hin reglan, að það eigi í hverju tilfelli að leita undanþágu hjá skömmtunarskrifstofunni um þetta, leiðir til þess að auka mjög mikið skriffinnsku vegna skömmtunarinnar og hins vegar til þess, að lítið öryggi verður um réttláta framkvæmd, og skal ég koma að því nokkuð síðar, að mér sýnist ýmislegt koma fram í umr., sem bendi til þess, að á þeim stað sé ekki sem fullkomnast réttlætis að vænta. Margt fleira þyrfti að breytast í skömmtunarreglunum til þess að það markmið næðist, sem er virkilega markmið skömmtunar, sem sé að úthluta þeim vörum, sem á boðstólum eru í landinu, réttlátlega milli alls almennings. Þetta er markmið skömmtunar og annað ekki. Það er ekki út af fyrir sig það, að draga úr innflutningi, því að það má gera með öðrum leiðum samkv. úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en þegar hömlur eru settar á innflutninginn, þá ber nauðsyn til þess að tryggja réttláta skiptingu vörunnar.

Ég get ekki komizt hjá því að benda á það, að á það skortir talsvert mikið, að þessu marki sé náð, meðal annars vegna þeirra miklu undanþága, sem eru frá því, að menn þurfi að framvísa skömmtunarseðlum, þegar þeir kaupa vörur, sem tilheyra skömmtun. T. d. má benda á það, að við alþm. búum við það að geta fengið hér frammi í anddyrinu kaffi, smurt brauð og aðra dýrmæta skömmtunarvöru. og þannig er þetta í öllum kaffi- og veitingahúsum í landinu. Það sýnist sjálfsagt, að að því ráði verði horfið að fella þetta einnig undir skömmtun, ef réttlæti á að vera í úthlutuninni. Sama máli gegnir um brauðgerðarhús og brauðsöluhús, sem selja mikið af brauðvöru án skömmtunarseðla. Allt þetta þarf að leiðrétta.

Þá er ein tegund skömmtunar, sem þessar skömmtunarreglur ná ekki til og ég tel ástæðu til að gera að umræðuefni, það er mjólkurskömmtunin. Hún er tekin upp sem neyðarráðstöfun, sem óvíst er, hve lengi þarf að standa, þó að líkur séu til, að henni verði haldið komandi vetur. Nú hefur mér skilizt, að hún væri framkvæmd með þeim hætti, að raunverulega næði hún aðeins til þeirrar mjólkur, sem send er frá Mjólkursamsölunni, en mjólkurframleiðendur, sem selja mjólkina beint til neytenda, krefjist ekki skömmtunarseðla. Ég vil benda á, að sé þetta þannig, þá er hér um atriði að ræða, sem tvímælalaust þarf að kippa í lag. Hér er enn þá eitt dæmi um það, að að skömmtuninni hefur verið heldur slælega unnið.

Þá vildi ég benda á það, sem nokkuð hefur verið minnzt hér á, það er skömmtunin gagnvart ungbörnum. Hún er framkvæmd á þann hátt, að ungbörn geta strax og þau koma í þennan heim fengið sinn kaffiskammt og samkvæmt stofnauka nr. 13 yfirhöfn, kjóla eða alfatnað, en hins vegar hefur þeim ekki verið séð fyrir aukaskammti af mjólk, sem mjög er nauðsynlegt. Þetta sýnir enn þá einu sinni, að skömmtun er ekki miðuð við hinar mismunandi þarfir einstaklinganna í þjóðfélaginu, því að þær eru mismunandi. Vissar stéttir hafa sérstakar þarfir, og til þess á að taka tillit, það er engin ástæða til að úthluta ungbarni yfirhöfn, en hins vegar er ástæða til að úthluta því aukaskammti af mjólk og fleiri nauðþurftum barna.

Ég vil svo koma að nokkrum atriðum, sem hæstv. viðskmrh. hefur lagt alveg sérstaka áherzlu á og margendurtekið, að Þjóðviljinn, blað Sósfl., hafi hrætt fólk til að hamstra. Hæstv. ráðh. hefur oftar en einu sinni verið beðinn að koma með ummæli úr Þjóðviljanum þessu til stuðnings. Þetta hefur hann ekki gert, af því að hann getur það ekki. Það hefur hent hann sú leiðinlega skyssa að gerast þarna ósannindamaður. Það heita ósannindi á íslenzku, því miður. Enn fremur sagði hæstv. viðskmrh., að Þjóðviljinn, blað Sósíalistafl., hefði ekki aðeins hvatt fólk til hömstrunar í skrifum sínum, heldur sent auk þess starfsmenn sína eða kommúnista út og suður um bæinn í sama skyni. Þetta eru einnig ósannindi. Enn er hæstv. ráðh. staðinn að því að tala úr ráðherrastóli með þeim hætti, sem kallað er að fara með vísvitandi ósannindi. Þetta er mjög ömurleg staðreynd. En til þess að reyna, að bjarga sér út úr þessum ógöngum, — því að almennt er vitað að sósíalistar eru með réttlátri skömmtun, — les ráðh. upp bréf hér í þinginu frá skömmtunarstjóra ríkisstjórnarinnar. Ég vissi ekkert um þann mann áður annað en það, að hann hafði verið skrifstofustjóri hjá Sjálfstfl., og gat hann svo sem verið ágætur maður fyrir það. En svo er þetta embættisbréf hans. Ráðh. biður embættismann um umsögn og fær í svari illviljaðan áróður gegn einum stjórnmálaflokki, Sósíalistaflokknum. Ég hef heyrt, að þessi embættismaður hafi 13 þús. króna árslaun og væri gaman að fá það upplýst. Starf sitt hefur hann til þessa rækt á þá lund, að allur undirbúningur skömmtunarinnar er fálm eitt og ósköp, en síðan skrifar hann ráðherra í embættisnafni áróðursbréf gegn ákveðnum flokki. Í öllum siðuðum þjóðfélögum mundi slík embættisfærsla ekki þykja hárra launa verð. Í þessu fræga bréfi segir skömmtunarstjóri m. a., að Þjóðviljinn hafi hvatt fólk til hömstrunar, og sezt hann þannig á bekk með hæstv. ráðh. sem ósannindamaður. Það er mjög leiðinlegt. En svo kemur embættismaðurinn enn fremur með alveg nýjar upplýsingar, sem sé að því hafi verið hvíslað að fólki í búðum kommúnista, — eða kommúnistar hafi látið hvísla því þar, — að skömmtun stæði fyrir dyrum, og hvatt þannig til hömstrunar. Með „kommúnistum“ býst ég við, að átt sé við sósíalista, — og hverjar eru búðir þeirra? Ég veit, að ég fæ upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh. Ég veit ekki til þess, að Sósíalistafl. né aðrir stjórnmálaflokkar eigi neinar búðir, — en sjálfsagt getur hæstv. viðskmrh. upplýst, hvaða búðir þetta eru og sagt ákveðið, í hvaða búðum fólk hafi verið að hvísla þessu, og hvaða fólk það var, því að það væri full ástæða til að láta það fólk svara til saka. Ég bíð nú og fæ að heyra skýringar hæstv. ráðh. En ég held, að það sé nú óhætt að setja skömmtunarstjórann á bekk með hæstv. ráðh. meðal þeirra, er segja ósatt. Og ég spyr hæstv. ráðh., hvort embættisfærsla skömmtunarstjóra sé sú embættisfærsla, sem hann óskar eftir að fá. Hann biður embættismanninn um umsögn, en fær í þess stað áróðursplagg gegn ákveðnum stjórnmálaflokki. Í þessu plaggi eru bein ósannindi, og því lýkur með orðunum: Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. — Mér skilst, að hv. 2. þm. Reykv. eigi þá sneið, eða Sósíalistafl. í heild, það skiptir litlu máli, hvort er, þetta er skjalfest. Og nú spyr ég hæstv. ráðh., hvort honum þyki ekki ástæða til að benda skömmtunarstjóra á að gera greinarmun á því, hvort hann talar sem áróðursstjóri Sjálfstfl. eða opinber embættismaður. Ef hann skrifar sem áróðursstjóri, væri ekkert á móti orðalagi hans, ef hann færi með rétt mál, en sem embættismaður á hann að vera hlutlaus. Og í þessu sambandi vil ég drepa á það, sem hæstv. viðskmrh. hefur aftekið viðvíkjandi skófatnaði verkamanna, að sérstök úthlutun sé látin fara fram. Menn eiga heldur að leita til skömmtunarstjóra hverju sinni, er þeir þurfa á aukaskömmtun að halda. En guð hjálpi þeim, sem þurfa að leita til manns með slíka embættisfærslu, er vekur þær grunsemdir, að það sé ákvörðun stjórnarinnar, að starfið eigi að nota í áróðursskyni gegn vissum mönnum. Ég segi ekki, að þetta sé vilji hæstv. ráðh., en hann verður þá að taka afstöðu gegn slíkum embættismanni og slíkri embættisfærslu.

Þá er það eitt mál, sem mig langar til að fá upplýst. Fyrir nokkru var auglýst uppboð á vefnaðarvöru hér í Reykjavík, og fylgdi það með, að varan yrði seld án skömmtunarseðla, og vakti þessi auglýsing að vonum mikla undrun. Hvaða eftirlit hefur hér verið haft? Það virðist vissulega vera greiðleið fyrir hamstrara, sem hafa tekið sér til inntekta þau ummæli Morgunblaðsins, að nú ætti að fara að skammta, að koma nú hamstri sínu í verð á slíkum uppboðum. Ég spyr hæstv. ráðh., hvort ekki sé meiningin að stöðva slíkt, hvort þetta uppboð hafi farið fram með hans vilja og vitund og hvort ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til, að slíkt endurtaki sig ekki?

Ég vona nú að fá skýr svör við öllu, sem ég hef gert fyrirspurnir um í ræðu minni, og skal ég aðeins að síðustu drepa á það helzta aftur: Sérstaklega óska ég eftir, að hæstv. ráðh. nefni hinar umtöluðu búðir kommúnista, svo að hægt sé að láta viðkomandi sæta ábyrgð fyrir það, sem þeim er borið á brýn. Þá voru það fyrirspurnir viðvíkjandi uppboðum, skömmtun á mjólk og fleiru, hvort ekki væri t. d. rétt að breyta skömmtuninni þannig að ungbörn fengju nauðsynlegan skammt af mjólk, en þá heldur minna af kaffi.