27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

8. mál, skömmtunarreglur

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég hef nú rétt á tveimur ræðum samkvæmt þingsköpum. Ég hafði nú að vísu ætlað mér að tala stutt, en ég hef rétt á tveimur ræðum, þar eð umræður hafa hvorki verið takmarkaðar með forsetaúrskurði né atkvgr.

Ræða hæstv. viðskmrh. var hin fróðlegasta. Hann upplýsti m. a., að reynslutími skömmtunarkerfisins væri nú raunar fram að næstu áramótum, og það er a. m. k. augljóst, að ekki veitir af reynslutímanum, og vel má vera, að gagnrýni sósíalista í blöðum og hér á Alþ. takist að kenna hinum tornæmu yfirvöldum eitthvað, svo að við fáum skömmtun, sem er byggð á skynsemi. Mér þótti vænt um, að hæstv. ráðh. skyldi gefa í skyn, að eftir áramótin verði horfið að því ráði að láta verkamenn fá sérstaka seðla, sem innkaupaheimild fyrir vinnufötum og vinnuskóm, og að það eigi þá aðeins að gilda til þess tíma, að verkamenn þurfi að leita til skömmtunarstjóra til að fá hjá honum undanþágur allra náðarsamlegast.

Svo kom hæstv. ráðh. að því að sanna mál sitt um hömstrun á eftirfarandi hátt: Þegar tekin var upp sú regla að gera verzlunum að skyldu að láta viðskiptamenn kvitta fyrir því, sem þeir fengu, þá gerði Þjóðviljinn hatramar árásir á það. Mikið rétt. Allir eru sammála um, að það fyrirkomulag var hið fáránlegasta, og satt að segja er það óafsakanlegt fyrir ríkisstj., sem hefur verið við völd síðan í febrúar s. l. og haft aðgang að þaulreyndum skömmtunarreglum nágrannaþjóðanna, að undirbúa skömmtunina ekki betur. Því gat ekki farið hjá því, að slíkt handahófsfyrirkomulag yrði gagnrýnt af öllum almenningi. Og satt að segja held ég, að það hafi verið nokkurri tilviljun háð, hvort menn voru látnir kvitta fyrir úttekt eða ekki. Ég man t. d. eftir því, að ég keypti tvisvar vörur á þessu tímabili, er átti að kvitta fyrir. Ég get vel nefnt búðirnar, þótt hæstv. ráðh. gæti ekki nefnt búðir kommúnista. Í annað skiptið keypti ég ferðatösku hjá verzlun Haraldar Árnasonar í Reykjavík og kvittaði fyrir úttektinni, og er ekkert meira með það, en í hitt skiptið keypti ég ýmislegt smávegis í Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri, sokka, hálsbindi og fleira, en þar var engin kvittun tekin. Og áreiðanlega hefur það ekki verið fyrir áhrif frá kommúnistum. Sannleikurinn er sá, að aðferð hæstv. ráðh. var svo fáránleg og klaufaleg, að hún hlaut að sæta gagnrýni og vera stundum höfð að engu, og ekki hefur hann enn getað sagt, hvað varð af þessum nótum, sem átti að draga frá skömmtuninni, — en hefur það verið gert? Og nú vil ég benda á eitt, að aðalhömstrunin var áður en þessar nótur komu í umferð; t. d. hömstrun skófatnaðar. Ég bendi á, að bein skömmtun skófatnaðar var tekin upp og komin í gildi áður en nótufyrirkomulagið var tekið upp. Og nú vil ég undirstrika það, að hæstv. ráðh. taldi í ræðu sinni, að kommúnistar og blað þeirra hefðu hvatt mest til hömstrunar með því að gagnrýna nótufyrirkomulagið. En eins og ég sagði áðan, var aðalhömstrunin áður en nóturnar voru fyrirskipaðar, gagnrýni sósíalista á því fyrirkomulagi kemur því ekki fram fyrr en aðalhömstruninni er lokið, því að ómögulega hafa kommúnistar getað farið að gagnrýna það fyrirkomulag áður en það stökk alskapað út úr höfði hæstv. ráðh., svo að sú ásökun, að þeir hafi verið valdir að hömstruninni, fellur gersamlega um sjálfa sig. Því að það skal ég segja ráðh. til viðurkenningar, að nótufyrirkomulagið dró nokkuð úr hömstruninni, það get ég borið nokkuð um, því að ég hef yfirlit yfir og fylgist með sölu mikils fyrirtækis hér í bænum, það er Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis.

Og nú sagði ráðh., að kommúnistar hefðu kannske ekki beinlínis hvatt til hömstrunar í blaði sínu, en óbeinlínis þó. En áður hefur hann sagt, að þeir hafi beinlínis gert það, og þessi ummæli fá ekki staðizt hlið við hlið, þau stangast hálfóþyrmilega. Nú segir hann, að það hafi orðið óbein afleiðing af gagnrýni kommúnista á skömmtunarfyrirkomulaginu, að menn fóru að hamstra.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann gæti nefnt tvo menn úr Sósíalistafl., sem hefðu gengið um bæinn til að hvetja menn til hömstrunar. Manni skildist, að þeir hefðu verið sendir út af flokki sínum í þessu skyni, en hæstv. ráðh. sagði það þó ekki. Og nú skora ég á hann að nefna þessa menn hér á Alþ., ég skora á hann. Ef hann gerir það ekki, þá er óhreint mjöl í pokanum. Þessir menn skyldu svo leiddir sem vitni til þess að fá úr því skorið, hvað hæstv. ráðh. hefur á bak við sig. En ég óska eftir að fá nöfnin fram nú þegar og einmitt hér á Alþ., svo að öllum megi vera kunnugt. Vill ekki hæstv. ráðh. reyna að gera svolítið skynsamlegri grein fyrir því, hvað það sé, sem skömmtunarstjóri kallar búðir kommúnista. Hann sagði í ræðu sinni áðan, að það væru líklega búðir, þar sem kommúnistar störfuðu. Eftir því eru búðir sjálfstæðismanna búðir, þar sem sjálfstæðismenn vinna, búðir framsóknarmanna búðir, þar sem framsóknarmenn vinna, og búðir alþýðuflokksmanna búðir, þar sem alþýðuflokksmenn vinna. En hvernig á að fara með búðir, þar sem fólk úr tveim, þrem eða öllum stjórnmálaflokkunum vinnur? Og hvernig er hægt að segja um skoðanir manna, því að sem betur fer eru menn ekki spurðir um pólitískar skoðanir, þegar þeir eru ráðnir til búðarstarfa. Þetta er því furðulegt fleipur hjá hæstv. ráðh. og einungis sönnun þess, hve gersamlega hann er kveðinn í kútinn með ósannindaáburð sinn í garð okkar sósíalista.

Það var eitt atriði, sem kom skýrt fram hjá hæstv. ráðh. Hann var harðánægður með embættisrekstur skömmtunarstjórans. Maður, sem segir í embættisbréfi um pólitíska andstæðinga, að þeir hafi tungur tvær og tali sitt með hvorri, það er maður, sem hæstv. ráðh. líkar við. Ég hefði vænzt annars, því að slík embættisfærsla er ósæmileg og ætti að vera brottrekstrarsök, en ekki ástæða til sérstakrar viðurkenningar á Alþ. Íslendinga.

Ég sé nú ekki ástæðu til að svara fleiri atriðum í ræðu hæstv. ráðh. En ég vona, að hann geri einhverja tilraun til að finna stað fullyrðingum sínum um þá menn, sem hann þóttist geta nafngreint, svo að réttarhöld geti verið hafin og kannað, hvað ráðh. hefur fyrir sér. Enn fremur óska ég þess, að hann geri ofurlítið skynsamlegri grein fyrir því, hvað eru „búðir kommúnista“, og ég skora á hann að skýra frá, hvenær sósíalistar hafa hvíslað að mönnum að hamstra og hvar slíkt hefur átt sér stað. En í vandræðum sínum út af illa framkvæmdu verki hefur hæstv. ráðh. gripið til þeirra ráða, sem sízt eru löguð til að afstýra vandræðunum eða auka hans hróður.